Lifandi Saga

Brostu! Þetta er falin myndavél

Faldir hljóðnemar og útsmognir sjónvarpshrekkir gerðu Allen Funt frægan um gervöll Bandaríkin á sjöunda áratugnum. En þegar hann lenti í raunverulegu flugráni reyndist það vera hálfgerð martröð að vera þekktur prakkari.

BIRT: 02/05/2024

Farþegar um borð í flugvél Eastern Airlines 727 stara furðu lostnir á manninn sem heldur flugfreyju fanginni á gangi vélarinnar. Hann þrýstir stórum kjöthníf að hálsi konunnar og hverfur með fórnarlambið inn í flugstjórnarklefann.

 

Farþegarnir sitja algjörlega orðlausir í nokkrar mínútur áður en grunur þeirra er staðfestur af flugstjóranum í hátalarakerfinu – flugvélinni sem er á leið frá New York til Miami, hefur verið rænt.

„Segðu þeim að þetta sé ekki brandari. Brjálæðingurinn er raunverulegur“.
Allen Funt

Allen Funt er einn af skelfingu lostnum farþegum um borð í vélinni þennan febrúardag árið 1969. Hinn 54 ára gamli Bandaríkjamaður stendur á hátindi ferils síns og hefur framleitt hinn vinsæla sjónvarpsþátt Falin myndavél í meira en 20 ár.

 

Þátturinn, þar sem venjulegt fólk er tekið upp með falinni myndavél við furðulegar aðstæður, fær milljónir Bandaríkjamanna til að grenja úr hlátri í hverri viku.

 

En atburðarásin í flugvélinni er ekki verk Allen Funt og hann reynir að róa eiginkonu sína og tvö lítil börn eins og hann getur.

 

Hins vegar er hálfsköllóttur haus Funts öllum Bandaríkjamönnum kunnur sem vita að þegar hann er nálægt eru sennilega hrekkjabrögð í taflinu.

Allen Funt leit á sjálfan sig sem áhugamann um mannlegt eðli þegar hann afhjúpaði fólk í „listinni að vera þau sjálf“.

Þegar kona í einu af nálægum farþegasætunum kemur skyndilega auga á Funt, efast hún ekki.

 

„Segðu nú eitthvað“, segir hún, þar sem hún starir á gapandi Funt.

 

„Frú, ég er jafn hræddur og þú. Vinsamlegast ekki gera neitt heimskulegt. Sestu bara niður og láttu mig í friði“, reynir Funt árangurslaust að segja en konan er viss um að hún hafi rétt fyrir sér.

 

„Þú hefur sagt nóg,“ kallar hún hárri röddu og snýr sér að fólki í farþegarýminu:

 

„Dömur og herrar. Það gleður mig að segja að þetta er ekki flugrán. Þessi prakkari er Allen Funt og við erum í Falinni myndavél!“

 

Það tekur nokkrar sekúndur fyrir skilaboðin að fara út á meðal farþeganna en þá brjótast út fagnaðarlæti. Fólk stappar í gólfið og klappar og þegar flugræninginn horfir undrandi út úr flugstjórnarklefanum til að sjá hvað er í gangi fær hann líka klapp og fagnaðarlæti frá farþegum.

 

Hins vegar biður Funt þess að enginn fari upp til ræningjans til að óska honum til hamingju með vel heppnað grín. Sjónvarpsmaðurinn lítur í kringum sig til að finna út úr því hvernig hann eigi að útskýra það fyrir fólki. Skyndilega sér hann prest meðal farþeganna:

 

„Faðir, ég hef kannski ekki rétt til að biðja þig um greiða en kannski munu þeir trúa þér frekar. Segðu þeim að þetta sé ekki grín. Brjálæðingurinn er raunverulegur“.

 

Presturinn horfir á Funt náið og fer svo að brosa. „Nei, því trúi ég ekki! Þú blekkir mig ekki svo glatt,“ hlær hann dátt.

Árið 1969 voru Allen Funt og fjölskylda hans um borð í flugvél sem var rænt – og allir héldu að hann væri á bak við flugránið.

Það er fyrst þegar flugvélin lendir á Kúbu, þar sem lögreglan handtekur flugræningjann, að farþegum verður ljóst að Funt hafði ekkert með ránið að gera.

 

En viðbrögð farþeganna báru vitni um gífurleg áhrif Allen Funt á amerískt þjóðfélag eftir stríð. Öll þjóðin þekkti þáttinn hans sem hafði brotið blað sem skemmtiefni og rutt algjörlega nýjar brautir fyrir skemmtanabransann.

 

Stríðið gaf Funt hugmyndir

Það var ekki mikið hlegið í heiminum þegar Allen Funt fæddist í Brooklyn, New York, í september árið 1914. Fyrri heimsstyrjöldin var nýhafin og 25 árum síðar, þegar Funt hafði stofnað eigið útvarpsframleiðslufyrirtæki, var heimurinn á leið í annað allsherjar stríð.

 

New York-búinn var kallaður til herþjónustu árið 1941 en vegna hæfileika Funts í útvarpi var hann vopnaður hljóðnema í fjölmiðladeild hersins. Í Camp Gruber í Oklahoma fékk hann herinn til að framleiða útvarpsþætti til að skemmta hermönnum sem annars fengu lítið annað en stríðsfréttir í útvarpinu.

 

Funt hafði alltaf haft kímnigáfu og vildi gleðja bandarísku hermennina, því hermenn glímdu við leiða í oft á tíðum mikilli bið og aðgerðarleysi í seinni heimsstyrjöldinni.

 

Í einum þátta hans sem bar yfirskriftina „Bak við auðkennismerkið“, gátu hermenn, áður en þeir voru sendir í víglínuna, sent bréf með hvaða furðulegu ósk sem var til Funt sem myndi síðan uppfylla þá ósk.

 

Til dæmis vildi hermaður „synda í bjór“ og Funt fann ríka fjölskyldu með sundlaug sem var til í að skipta út vatninu fyrir bjór frá brugghúsi á staðnum. Allt var svo tekið upp með hljóðnema á segulband og útvarpað.

 

MYNDSKEIÐ: Horfðu á lögreglumann missa stjórn á skapi sínu í umferðinni:

Hinir ólíku útvarpsþættir heilluðu hlustendur og tími Funts í hernum sýndi honum að hrekkir voru afþreyingarform sem átti stóran hóp áheyrenda. Það var líka í hernum sem Funt sá sérstakt þýskt segulbandstæki sem Bandaríkjamenn höfðu komist yfir. Tækið var minnsta færanlega upptökutæki þess tíma.

 

„Þetta gaf mér hugmynd. Bandaríski herinn hafði ekki hugmynd um það en Sam frændi var óbeint ábyrgur fyrir gerð Földu myndavélarinnar,“ sagði Funt síðar, því tækið var auðvelt að fela.

 

Eftir stríðið sendi Funt út sérkennilega útvarpsþætti fyrir almenna borgara til að veita Bandaríkjamönnum „raunverulega sýn á“ hvernig fólk brást við í óvenjulegum aðstæðum. The New Yorker vildi taka upp samtöl milli venjulegs fólks í leyni, því þar leyndist líka hugsanlegt skemmtanagildi.

 

Skrifstofa Funts deildi mötuneyti með fyrirsætuskrifstofu í sama húsi og oft höfðu Funts og aðrir menn sem sátu að snæðingi í mötuneytinu, hlustað á lágstemmdar samræður fyrirsætanna sem stóðu og hvísluðu sín á milli.

 

Funt setti upp lítið upptökutæki í sogrörakassa þar sem fyrirsæturnar hittust  og töluðu sín á milli. En vonbrigðin voru mikil þegar hann heyrði upptökuna:

 

„Þetta var óáhugaverðasta vitleysa sem þú gætir ímyndað þér. Þær töluðu endalaust bara um förðun og stefnumót. Það var svekkjandi að komast að því að þessar fallegu stelpur voru bara að tala um hversdagslega hluti. Það var greinilegt að mig vantaði betri uppskrift til að hugmynd mín myndi heppnast betur“.

LESTU EINNIG

Vel heppnaður hrekkur Funts heyrist loks í útvarpi

Funt þurfti ekki að bíða lengi áður en hann fann aðferð sem virkaði. Frá skrifstofu sinni hafði hann útsýni yfir tannlæknastofu í annarri byggingu – kannski voru samtölin þar meira spennandi?

 

Funt hafði tekið eftir því að viðskiptavinir voru oft dónalegir við aðstoðarmanneskju tannlæknastofunnar en um leið og tannlæknirinn kom inn urðu þeir miklu kurteisari.

 

Funt kom fyrir hljóðnema nálægt tannlæknastólnum. En á meðan hann kom upptökutækinu fyrir kom sjúklingur inn um dyrnar og settist í stólinn.

 

Konan hélt að Funt væri tannlæknirinn og fór að tala um auma endajaxla sína. Funt greip augnablikið og lék strax hlutverk tannlæknis. Hann bað konuna að opna munninn á meðan hann skoðaði tennurnar.

 

„Ég hef skoðað þig vandlega og ég sé að þú ert ekki með neina endajaxla,“ sagði hann við hana.

 

„Er ég ekki með neina endajaxla?“ spurði konan undrandi.

 

„Það er rétt. Þú ert ekki með neina endajaxla,“ svaraði Funt.

 

En áður en allt fór úr böndunum kom raunverulegi tannlæknirinn inn og tók við hinni ráðvilltu konu. Á meðan fór Funt út úr herberginu.

 

„Ég var kominn á flug. Ég hafði fundið þann týnda þátt sem þurfti til að láta „Falda myndavél“ virka: ögrandi aðstæður. Það þurfti að breyta almennum hversdagslegum aðstæðum og taka þær skrefinu lengra,“ skrifaði hann síðar.

 

ÚTVARP – Hlustaðu á mjög svo óviðeigandi útvarpsspaug, í dag, um eskimóa.

Vopnaður segulbandstæki rölti Funt um götur Manhattan og bjó til fáránlegar aðstæður sem óafvitandi fórnarlömb brugðust svo við.

 

Úr upptökunum bjó hann til spólu með bestu þáttunum sem hann spilaði fyrir útvarpsstöðvarnar. Bandaríska ríkisútvarpið (ABC) vildi fá þættina og sumarið 1947 gátu Bandaríkjamenn hlustað á þáttinn „Falinn hljóðnema“ í fyrsta skipti.

 

„Þrátt fyrir að margar leyniupptökur okkar séu gerðar til skemmtunar, er markmið okkar í raun og veru að komast nær raunveruleikanum og ná fólki þegar það á síst von á“, hljómaði inngangurinn, áður en þátturinn og fjörið hófst.

 

Falinn hljóðnemi var eitthvað alveg nýtt og hlustendur skemmtu sér yfir viðbrögðum fórnarlambanna við furðulegum aðstæðum og spurningum eins og þegar Funt leitaði til úrsmiðs til að kaupa sér úr sem gengi aftur á bak eða hann stöðvaði múrara úti á götu til að spyrja hvort hann gæti múrað mann inni í vegg á heimili Funt. Múrarinn sagðist aðeins geta gert það ef loftgat væri skilið eftir í veggnum.

 

Í þriðja vinsæla þættinum hafði Funt, í hlutverki skrifstofustjóra, hlekkjað ritara sinn við skrifborðið hennar og kallað á lásasmið. Þegar lásasmiðurinn kom útskýrði Funt að hann hefði týnt lyklinum og þyrfti aðstoð vegna þess að það væri „tími á hádegishlé“ hennar.

 

Stórundrandi lásasmiðurinn varð alveg orðlaus en hrópaði að lokum: „Ég hef aldrei séð neinn hlekkjaðan svona áður! Það ætti bara að gerast fyrir vestan“.

8 aðferðir sköpuðu hið fullkomna grín

Með árunum þróaði þáttagerðarfólkið með sér ýmsa flokka falinna myndavéla sem vöktu kátínu áhorfenda. Margir flokkanna beittu einfaldri félagsfræði.

 

1. Yfirvald

Allen Funt hafði mikla ánægju af því að virða fyrir sér skoðun venjulegs fólks á yfirvaldi. Til dæmis tókst einum aðstoðarmanna hans, með ekkert annað en hjálm, skilti og persónutöfrum að vopni, að sannfæra ökumenn á þjóðveginum um að allt Delaware-ríki væri lokað það sem eftir lifði dags vegna umferðar.

 

Í öðrum þætti lét leikari í hlutverki listfræðings, gesti í galleríi skipta ítrekað um skoðun um gæði listaverkanna.

 

2. Viðsnúningur

Flestir hafa fastmótaðar væntingar til mismunandi aðstæðna. Funt komst að því að ef hann sneri þessum væntingum á hvolf gæti það skilað skemmtilegum niðurstöðum.

 

Til dæmis herjaði hann á lögreglumann til að fá hann til að sekta bíl fyrir að leggja í ólöglegt bílastæði daginn áður. Og á bensínstöð bað hann bensínafgreiðslumann að tanka fimm lítra af bensíni af bifreið, þar sem hann þyrfti á þeim að halda – að minnsta kosti ekki strax.

3. Að halda andliti

Oft var kannað hversu lengi fólk gæti haldið andliti þegar það varð vitni að leynilegu gríni á almenningsstöðum. Í einum slíkum þætti lét Funt leikarann Buster Keaton missa alls kyns hluti í súpuna sína á veitingahúsi þar sem aðrir venjulegir viðskiptavinir reyndu að láta sem þau tækju ekki eftir þessu. Á öðrum matsölustað byrjaði maður skyndilega að borða peningaseðla af matardiski.

4. Hið furðulega

Viðbrögð fólks við algjörlega furðulegum aðstæðum virtust oft vera eðlileg. Til dæmis klæddi Funt apa í jakkaföt og lét hann sitja í afgreiðslu fatahreinsunarfyrirtækis. Það horfðu margir fram hjá því furðulega og báðu apann um að sækja fötin sín úr hreinsuninni. Funt sendi líka nakta konu inn í hóp nemenda og lét hana kynna sig sem prófessor þeirra – enginn sagði neitt.

5. Að þykjast

Það vill enginn sýnast heimskur og það nýtti Funt sér vel. Til dæmis kom hann fyrir fiskabúri aðeins með vatni og steinum í dýrabúð. Á söluskiltinu stóð skrifað „Ósýnilegur fiskur“.

 

Þrátt fyrir að fiskabúrið hafi ekki verið með neinn fisk, fullyrtu flestir forvitnustu viðskiptavinirnir – þegar þeir voru spurðir – að þeir gætu vel séð útlínur fisksins í vatninu.

 

6. Skilti

Skilti hafa furðu mikil áhrif á okkar daglega líf, komst Allen Funt að. Hann setti til dæmis upp skilti á bar þar sem fram kom að aðeins mætti stíga á hvítu reitina á svarthvítu flísagólfi barsins. Og við það hoppuðu viðskiptavinirnir um á gólfinu til að stíga ekki á svörtu reitina.

 

Í öðrum hrekk breytti teymið skiltum á almenningsklósetti þannig að í stað „Dömur“ og „Herrar“ stóð á „Þeir“ og „Við“. Þá varð fólk að reyna að átta sig á því hvorum flokki það tilheyrði.

 

7. Hið hversdagslega vandamál

Allen Funt elskaði að leika sér með dæmigerð hversdagsleg vandamál. Til dæmis lét hann mann standa í langri biðröð þar sem aldrei virtist koma að honum. Biðröðin við hliðina var hins vegar miklu fljótari að ganga fyrir sig. Þegar maðurinn loks skipti um biðröð breyttist staðan þannig að fyrri röðin gekk skyndilega mun hraðar en sú sem hann hafði skipt um og farið í.

8. Ómögulega verkefnið

Flest atvinnufólk reynir að gera hvað sem er til að vinna vinnu sína vel svo viðskiptavinurinn verði ánægður. Funt fékk ljóshærða konu í einum þættinum til að fara með bíl á bifvélaverkstæði til að laga vélarbilun. Það sem bifvélavirkinn vissi ekki var að búið var að taka vélina úr bílnum og að dráttarbíll hefði ýtt bílnum inn á verkstæðið. Þegar vélvirki opnaði tómt vélarrýmið reyndi hann í örvæntingu að útskýra fyrir konunni að bíllinn væri einfaldlega ekki með vél. Þessu svaraði hún kinnroðalaust: „Er þá ekki hægt að ræsa bílinn?“

Gagnrýnendur fögnuðu nýstárlegum útvarpsþætti. New York Herald Tribune fannst hann „dásamlega skemmtilegur“ og skemmtilegt að hlusta á „óundirbúin og grunlaus viðbrögð fólks“.

 

Blaðið efaðist ekki um að þessi skemmtilega hugmynd ætti framtíðina fyrir sér, þátt fyrir að gagnrýnandinn benti einnig á gallana við truflun á friðhelgi einkalífsins: „Möguleikarnir eru ótakmarkaðir og framtíðin gæti verið ógnvænleg. Bíðið bara þar til þeir gera þetta að sjónvarpsþætti. Þá er enginn öruggur, ekki einu sinni í sínu eigin baðkari“.

 

Spádómur gagnrýnandans rættist fljótt. Árið eftir var Funt farinn að gera sjónvarpsþátt með földum myndavélum.

 

Myndavélin kom í stað segulbandstækisins

Þegar Falinn hljóðnemi hafði verið í gangi í tæpt ár talaði kvikmyndagerðarfólk við Funt. Þau höfðu verið að gera stutt innslög sem sýnd voru í kvikmyndahúsum fyrir bíómyndasýningar og vildu koma grínþáttum Funt að á þeim sýningum.

 

Funt fannst þetta góð auglýsing en hann efaðist mjög um hvort hægt væri að fela tökuliðið og myndavélarnar. „Ekki hafa áhyggjur af því. Við sjáumst örugglega ekki,“ sagði tökuliðið við Funt.

 

Og tökulið Funts hafði rétt fyrir sér. Myndavélar þeirra voru svo vel faldar að enginn hafði hugmynd um að verið væri að taka upp. Funt var hrifinn en umfram allt spenntur. Og þannig fæddist Falin myndavél (Candid Camera).

 

Útvarpsþættirnir virkuðu vel en nú gátu áhorfendur séð viðbrögð fórnarlamba hrekkja Funts. Það gerði allt grínið margfalt skemmtilegra.

 

MYNDSKEIÐ – Sjáðu nokkur uppáhaldsatriði Funts:

Tímaritið Variety sagði eftir frumsýningu sjónvarpsþáttarins árið 1948 að „Falin myndavél er jafnvel betri“ en útvarpsþátturinn. Sjónvarpsformið var hins vegar mikil áskorun þegar Funt og teymi hans þurftu að setja upp búnað sinn í leynd.

 

Myndataka á þessum tíma krafðist mikillar birtu en fólk grunaði augljóslega að eitthvað væri í gangi ef sterkur ljóskastari var til staðar þegar það sat til dæmis á veitingastað.

 

Því sáu starfsmenn Funts um að lýsa upp aðra hluta rýmisins enn meira því þá tóku fórnarlömbin ekki eftir því að þau sátu sjálf í sterku ljósi. Ef einhver spurði um ljósið svaraði Funt að „það þyrfti að mála staðinn“ og því trúðu flestir.

 

Auðvelt reyndist að fela myndavélina sjálfa. Oft var henni einfaldlega komið fyrir á bak við falskan vegg þar sem gat var fyrir linsuna. Hljóðnemunum varð líka smám saman auðveldara að fela þar sem tæknimenn Funts voru lunknir að útbúa hlerunarbúnað.

 

Og í venjulegum símum, lömpum og öskubökkum leyndust faldir hljóðnemar. Jafnvel saklaus pakki af Kleenex-þurrkum á borði innihélt hljóðnema.

 

Að sögn Funt varð búnaðurinn svo lítill og ósýnilegur að í upphafi kalda stríðsins höfðu erlendar þjóðir samband við hann til að fá ábendingar um hvernig hægt væri að bæta eigin njósnabúnað.

 

Funt fann oftast upp á hrekkjunum sjálfur en þegar hann var að verða uppiskroppa með hugmyndir dró hann upp símaskrána. Með því að fletta í henni með öllum sínum auglýsingum og símanúmerum fyrirtækja veitti það Funt innblástur.

Margir innleystu aldrei gjaldkeraávísun Allen Funt en létu í staðinn ramma hana inn til minningar.

Myndavélin afhjúpaði leyndarmál fólks

Funt þurfti leyfi fórnarlamba sinna til að nota myndefnið. Það krafðist góðvildar fólks og fjárhagslegrar umbunar.

 

Mörgum var ekki skemmt þegar Funt upplýsti að hann hefði verið að fíflast í þeim og tekið þau upp. Sumir reiddust Funt á meðan aðrir hreinlega reyndu að hlaupa í burtu.

 

Það var erfitt fyrir myndatökuliðið sem af lagalegum ástæðum þurfti að samþykki fórnarlambanna til að nota myndefnið. Svo til að koma í veg fyrir að fólk hlypi á brott lagði Funt handlegginn um það ástúðlega svo þau gætu ekki flúið í burtu þegar hann sagði þeim sannleikann.

 

Flestum fannst þó í lagi að taka þátt í þessu og það hjálpaði að Funt gaf þeim 50 dollara ávísun sem þakklætisvott.

 

Þó voru enn sumir sem gáfu ekki samþykki sitt. Það var fólk sem hafði verið gripið á röngum stað á röngum tíma.

 

Á einum tímapunkti myndaði liðið átta mismunandi pör á veitingastað, sex þeirra neituðu að gefa Funt leyfi. Það kom í ljós að flest pörin voru gift – bara ekki hvort öðru.

Mikið af góðu myndefni kom af því að hafa samband við venjulega verkamenn sem Funt myndi koma í óvenjulegar aðstæður. Þegar fatahreinsun lofaði því til dæmis í auglýsingu að fyrirtækið gæti „þrifið allt“ bað Funt um fund við framkvæmdastjórann á skrifstofu hans.

 

Hann sagði við framkvæmdastjórann að hann vildi peningaþvætti. Framkvæmdastjórinn var ekki sleginn út af laginu heldur lofaði því að seðlarnir yrðu „sléttir og hreinir, alveg eins og nýir“.

 

Til að komast að því hvaða prakkarastrik virkuðu notaði Funt hljómsveit þáttarins sem prufuáhorfendur. Miðað við viðbrögð þeirra gæti hann sigtað út það efni sem ekki virkaði. Funt spurði einnig verslunareiganda búðar sem Funt átti regluleg viðskipti við.

 

„Ef hann sagði „Góð sýning, Allen,“ vissi ég að þetta hefði verið flopp. En ef hann talaði um eitthvað ákveðið og sagði „Ég elskaði þennan! Ég og konan mín hlógum svo mikið“, var ég sáttur það sem eftir var dagsins,“ sagði Funt í ævisögu sinni.

 

Félagsfræðingar rannsökuðu þættina

Oftast voru viðtökur þáttanna sérlega góðar og áhorfstölur hækkuðu upp úr 1950. En það var ekki bara heima í stofu sem farið var eftir dagskrá Funts. Vísindamenn háskólanna fylgdust einnig með þættinum af miklum áhuga.

 

Það hafði ávalt verið markmið Funts að hinir földu hljóðnemar og myndavélar ættu að sýna hið sanna eðli mannsins. Þó svo sumir gagnrýnendur töldu þáttinn Falin myndavél vera innrás í friðhelgi einkalífsins, fannst nokkrum félagsfræðingum þátturinn nokkuð forvitnileg rannsókn á mannlegri hegðun.

 
MYNDSKEIÐ: Sjáðu viðbrögð nemenda við nýjum, fallegum kennara

David Riesman, félagsfræðingur frá Harvard, gekk svo langt að kalla Funt „annan snjallasta félagsfræðing  Ameríku“ (á eftir hinum fræga Paul Lazarsfeld sem var þekktur fyrir rannsóknir sínar á kosningahegðun í Bandaríkjunum).

 

Falin myndavél varð að einskonar kennslutæki í nokkrum háskólum, þar sem falda myndavélin sýndi skipulag, hegðun og hefð mannlegra samskipta. Kvikmyndaatriðin gáfu meðal annars innsýn í hegðun fólks gagnvart yfirvöldum sem Funt fannst afar áhugavert að skoða.

 

Einn hrekkurinn leiddi til dæmis í ljós að þrátt fyrir að lásasmiður hafi greinilega haldið að það væri bilun að yfirmaður hlekkjaði ritara sinn við borðið, var hann samt ekki tilbúinn að mótmæla yfirmanninum – yfirvaldinu – um siðleysi þess.

Buster Keaton sýnir Funt hvernig pipar leikur stórt hlutverk

Þögla kvikmyndastjarnan grætti alla úr hlátri

Á sjöunda áratugnum fékk Funt sjálfan Buster Keaton til að taka þátt í þætti sem varð einn sá fyndnasti í Falinni myndavél.

 

Í gegnum árin komst Allen Funt að því að leikarar sem voru komnir af léttasta skeiði en voru ennþá nokkuð frægir hentuðu fullkomlega í þættina. Einn slíkur var til dæmis Buster Keaton sem á tímum þöglu kvikmyndanna hafði verið ein stærsta stjarna Hollywood.

 

Keaton kunni allar brellur og brögð grínsins og þurfti því nánast enga leikstjórn – Funt sleppti honum bara lausum á dæmigerðum amerískum matsölustað.

 

Í atriðinu sest Keaton við afgreiðsluborðið með ofurþykk gleraugu og pantar sér súpu, eftir það gengur allt á afturfótunum. Fyrst fellur lokið af piparstauknum þannig að allt innihaldið endar í súpunni. Piparinn verður svo til þess að Keaton hnerrar svo mikið að hártoppurinn hans og gleraugun hans lenda ofan í súpunni.

 

Við hlið Keaton sitja raunveruleg fórnarlömb hrekksins – ungt par sem í örvæntingu reynir að hlæja ekki. Þeim finnst það hins vegar ótrúlega erfitt, þar sem Keaton – eftir að hafa reynt að setja rennblautan hártoppinn aftur á hausinn á sér – pantar í staðinn ristað brauð sem hann hellir strax kaffi yfir og reynir svo að vinda til að ná bleytunni úr.

 

Allan tímann beinist falin myndavélin að unga parinu þar sem maðurinn sem situr lengra í burtu, segi konunni stöðugt hvað er að eiga sér stað á meðan hún berst við að gráta ekki af hlátri.

 

Sjáið grínið hér

Þannig sýndi Falin myndavél sannari mynd af raunveruleikanum því ef lásasmiðurinn hefði í staðinn verið í viðtali við félagssálfræðing í tengslum við rannsókn hefði sá aðili að öllum líkindum svarað því að hann hefði að sjálfsögðu fordæmt gjörðir yfirmannsins.

 

Almennt var Falin myndavél – ólíkt sjónvarpsþáttum með falinni myndavél í dag – talið meira en létt skemmtun. Þátturinn byggðist á húmor en þeir komu líka af stað miklum umræðum á heimilum áhorfenda.

 

Þegar hverjum þætti lauk var ekki óalgengt að það sem fyrir augu hafði borið væri rætt á milli nágranna daginn eftir. Fyrir flesta Bandaríkjamenn var það þó fyrst og fremst grínið sem fékk þá til að horfa á þáttinn. 

 

Brostu, þú ert í falinni myndavél!

Árið 1960 gerði Funt samning við CBS. Sjónvarpsstöðin réði ríkjum á sunnudagskvöldum þegar Bandaríkjamenn söfnuðust saman í kringum skjáinn. Kvöldið hófst á hinni vinsælu þáttaröð um hundinn Lassie og þegar börnin voru komin í háttinn hófst Falin myndavél á slaginu tíu.

 

Þrátt fyrir hve seint hann var sýndur varð þáttur Funt vinsælli en nokkru sinni fyrr og tveimur mánuðum eftir frumsýningu hans á CBS var þátturinn sá fjórði vinsælasti í Bandaríkjunum. Tveimur árum síðar var þátturinn orðinn sá næstvinsælasti með tæpar 16 milljónir áhorfenda.

Woody Allen starfaði ungur hjá Funt. Svo varð hann heimsfrægur.

Vinsældir þáttarins á sjöunda áratugnum varð til þess að andlit Funt varð alls staðar þekkt. Bandarískt tímarit nefndi hann meira að segja einn af „10 þekktustu manneskjum Bandaríkjanna“.

 

Og því var ekki svo skrítið að grínarinn frægi var grunaður um að hafa staðið á bak við ránið á Eastern Airlines 727 árið 1969.

 

Frægðin varð til þess að Funt þurfti að nota hárkollu og skegg til að dulbúast við hrekki sína. En upp úr 1960 fór hann að nota óþekkta leikara til að koma fólki í vandræðalegar aðstæður sjónvarpsþáttanna.

 

Frægt fólk birtist svo stundum í gestahlutverki við mikinn fögnuð áhorfenda. Til dæmis tók hafnaboltastjarnan Mickey Mantle að sér hlutverk kylfubera á golfvelli þar sem hann gerði allt rangt sem kylfuberi á að gera.

 

Hann talaði og hnerraði þegar leikmenn ætluðu að slá boltann og gaf þeim hörmuleg ráð. Þegar Mantle lyfti hettunni og afhjúpaði andlit sitt urðu kylfingarnir furðu lostnir – en sjónvarpsáhorfendur trylltust úr hlátri.

 

MYNDSKEIÐ – Horfðu á Woody Allen í falinni myndavél:

Í mörg ár hafði Funt leitað að hinum fullkomna frasa fyrir þætti sína en það var ekki fyrr en eftir 15 ár af Falinni myndavél að hann fann setninguna sem myndi að eilífu verða tengd þættinum.

 

„Brostu, þú ert í falinni myndavél!“ hljómaði í fyrsta skipti árið 1961. Og um leið varð slagorðið meitlað í stein samfélagsins og að sögn bandarísks pípulagningafyrirtækis varð slagorðið mest skrifaða setningin á klósetthurðum í Bandaríkjunum.

 

Og þessi þekkta setning gerði það að verkum að Funt gat sagt fórnarlambinu sannleikann á mun einfaldari hátt en þegar hann þurfti að útskýra í löngu máli að viðkomandi hefði verið plataður í þættinum.

 

Þátturinn varð líka tæknilega betri árið 1966 þegar hann fór frá því að vera svarthvítur yfir í lit. Allt leit betur út og velgengni þáttarins hélt áfram inn í áttunda áratuginn. Skömmu síðar kom myndbandstæknin fram á sjónarsviðið og gerði framleiðsluna enn auðveldari.

 

Og þegar hljóðnemarnir urðu bæði minni og þráðlausir varð líka auðveldara að setja búnaðinn upp án þess að fólk kæmist að því hvað væri í gangi.

Árið 1989 framleiddi Fox eftirhermu af Falinni myndavél – Algerlega falið myndband.

Falin myndavél varð innblástur raunveruleikasjónvarps

Allen Funt hafði sannað með Falinni myndavél að sjónvarp með venjulegu fólki gæti heillað áhorfendur. Árið 1989 kom Fox sjónvarpsstöðin með eftirhermuþáttinn „Falið myndband“.

 

Hins vegar uppgötvaði Peter, sonur Allen Funt, að Fox notaði alls ekki venjulegt fólk, heldur leikara. Funt kærði Fox og stöðin þurfti í kjölfarið að breyta titlinum í „Algerlega falið myndband“ og lofa að svindla ekki með leikara sem fórnarlömb.

 

Á næstu áratugum kom svo fjöldi nýrra raunveruleikaþátta. Að sögn Peter Funt voru þættirnir þó með öðrum forsendum: „Við vinnum alltaf út frá þeirri hugmynd að fólk sé dásamlegt og markmið okkar er að sýna fram á það. Eftirhermuþættir líta öðrum augum á það, að fólk sé heimskt og þeir sjónvarpsþættir leggja aðaláherslu á það,“ sagði Peter Funt árið 2010.

Áhorfendur héldu tryggð sinni við þáttinn en dramaþættir eins og Dallas og Dollars urðu æ vinsælli á níunda áratugnum.

 

Falinni myndavél var loks ýtt út af topp 50 yfir vinsælustu sjónvarpsþættina en áhorfendur voru þó enn til staðar og árið 1987 fögnuðu Funt og CBS 40 ára afmæli þessa vinsæla þáttar. Að þessu sinni með nýjum Funt fjölskyldumeðlim fyrir framan myndavélina.

 

Orkan dofnaði

Strax árið 1962 hafði elsti sonur Funts, Peter, leikið í Falinni myndavél en þegar Allen Funt fannst aldurinn smám saman færast yfir hann árið 1987, var kominn tími til að gera soninn Peter að aðalstjórnanda þáttarins.

 

Í nokkur ár framleiddu faðir og sonur saman Falda myndavél og árið 1991 lýsti tímaritið Variety því yfir að „þátturinn hefði endurheimt orku fyrri ára“.

 

Orka Allen Funt sjálfs var hins vegar við það að hverfa. Þegar hann fékk heilablóðfall árið 1993 tók sonurinn við kefli föður síns. Sex árum síðar kvaddi þessi mikli prakkari og hrekkjalómur Bandaríkjanna.

 

„Ég hélt í höndina á honum og lofaði að hugsa vel um fjölskylduna og þáttinn,“ sagði Peter Funt þegar hann kvaddi 83 ára gamlan föður sinn á sjúkrabeði hans árið 1999.

 

Peter stóð við loforð sitt og stjórnaði Falinni myndavél inn í næstu öld. En árið 2014 lauk þátturinn göngu sinni. Falin myndavél varð eina skemmtidagskrá sjónvarpssögunnar sem framleiddi nýja þætti í sjö áratugi í röð. En loksins var slökkt á ljóskösturunum og falda myndavélin hvarf endanlega.

Lestu meira um Allen Funt og Falda myndavél

 

Allen Funt: Candidly, Allen Funt – A Million Smiles Later, Barricade Books, 1994

 

Lou Tyrrell: The Flying­ Phone Booth, Mblt Marketing, 2011

 

HÖFUNDUR: TROELS USSING & NIELS-PETER GRANZOW BUSCH

© Hulton Archive/Getty Images,© Lynn Pelham/Getty Images & newspapers.com,© Michael Ochs Archive/Getty Images & Shutterstock,© Hulton Archive/Getty Images,© Everett Collection,© CBS Photo Archive/Getty Images & Shutterstock,© Getty Images

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

NÝJASTA NÝTT

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Vinsælast

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

3

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

4

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

4

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

5

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

6

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Er hollt að gefa blóð?

Tækni

Vandamál sem gat orðið aðkallandi

Maðurinn

Efnaskiptin eru stöðug frá 20 til 60 ára aldurs

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Jörðin eftir manninn

Hvað verður um jörðina þegar við verðum horfin? Að sögn vísindamanna munu úlfaflokkar dreifast hratt á meðan borgirnar hrynja og sökkva. Hins vegar munu síðustu ummerki mannkyns standa til enda alheimsins.

Jörðin

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is