Víða í Evrópu tengir fólk sumarið í huganum við notalegar kvöldstundir úti á svölum og opna glugga yfir nóttina. En lágvært suð í eyrum og rauðir stungublettir á fót- og handleggjum tengjast sumrinu líka.
Í Norður-Evrópu geta mýflugurnar verið pirrandi sumarplága en þótt mýbit geti verið óþægileg eru þau ekki hættuleg.
Þessu er öðruvísi farið víða í Suður-Ameríku og Asíu, þar sem mýflugur af stungumýsætt, moskítóflugur geta borið með sér hættulegar veirur. Og nú breiðist þessi hætta einnig út í Evrópu.
Heilbrigðisstofnunin ECDC (European Centre for Disease Prevention and Control) varar nú við veirum sem moskítóflugur bera með sér til æ fleiri Evrópulanda.
Getur borið 20 mismunandi sjúkdóma
Nánar tiltekið er hér um að ræða asíska tegund, Aedes albopictus eða asíska tígrismýið sem er á stærð við venjulegar mýflugur en má þekkja á hvítum röndum.
Útbreiðslan stafar af loftslagsbreytingum í Evrópu og meðfylgjandi lengri og hlýrri sumrum, meiri veðuröfgum, fleiri hitabylgjum og styttri og vægari vetrum. Þetta skapar tígrismýinu góð skilyrði.
Öfugt við algengar tegundir á meginlandi Evrópu sem helst eru á ferli á kvöldin og nóttunni, stinga tígrisflugurnar líka yfir daginn. Þær geta borið með sér hitabeltissjúkdóma á borð við zika-veiruna, beinbrunasótt ásamt veiru sem kennd er við Vestur-Níl og skyld hinum fyrrnefndu.
Alls getur tígrismýið borið meira en 20 mismunandi sjúkdóma og sumir þeirra eru lífshættulegir að sögn ECDC.

Kortið sýnir stöðu útbreiðslu tígrismýsins 30. maí árið 2023. Rauðu svæðin eru þar sem flugan hefur fest sig í sessi en gulu svæðin þar sem moskítóflugan hefur sést. Grænu svæðin eru staðir þar sem þessi moskítófluga hefur ekki sést. ECDC segir hins vegar að þetta sé aðeins skyndimynd og að moskítóflugan hafi sést í nokkrum löndum græna svæðisins.
Tígrismýið er ekki alveg nýtt í Evrópu. Árið 2013 hafði það komið sér fyrir í átta ríkjum og alls 114 héruðum. 2023 voru tölurnar komnar í 13 ríki og 337 héruð.
Þótt syðstu ríkin, einkum Grikkland og Ítalía hafi orðið verst úti hefur flugan dreift sér víða um Frakkland og suðurhluta Þýskalands.
Tígrismý hafa reyndar sést norður í Noregi en þótt flugurnar hafi ekki náð þar fótfestu, virðast þær dreifast hægt en örugglega norður eftir álfunni.
Flestir sem ferðast hafa erlendis kannast við þennan óþolandi kláða sem fylgir moskítóbiti en sem betur fer erum við ekki alveg hjálparlaus gagnvart þessum blóðþyrstu flugum.
ECDC varar líka við tegundinni Aedes aegypti sem einnig ber sjúkdóma og hefur verið á Kýpur frá árinu 2022 og kynni að berast áfram norður.
Ef þú hyggur á ferð til þeirra hluta Evrópu þar sem hætta er á biti tígrismýflugna, mælir ECDC með notkun mýflugnanets og fælukrema. Fáir þú hita eða önnur einkenni, áttu strax að leita læknis, segir í ráðleggingum stofnunarinnar.