Ef frumur úr krabbameinsæxli rífa sig lausar og flytjast til í líkamanum með sogæðavökva eða blóðrás, geta þær myndað ný æxli annars staðar.
Fyrirbrigðið kallast meinvörp og þau valda einna mestum erfiðleikum við að vinna bug á krabbameininu.
Nú hafa læknar hjá Keck-læknaskólanum sem er ein af deildum Kaliforníuháskóla, uppgötvað nýjan þátt í ferlinu og sá kynni að vera í aðalhlutverki við dreifingu krabbafrumna og þar með orðið að sérstöku viðfangsefni í krabbameinsmeðferð.
Þetta er sérstakt prótín sem kallast GRP78. Almennt aðstoðar þetta prótín önnur og stærri prótín við að fella sig saman í þrívítt form sem gerir þeim kleift að starfa og gegna hlutverkum sínum.
Frá fyrri rannsóknum var vitað að fyrir kemur að GRP78 sé stolið, þegar fruman er undir miklu álagi, t.d. vegna veirusýkingar eða krabbameins. Í slíkum tilvikum getur þjófnaðurinn hjálpað krabbafrumunni til að vaxa og standast krabbameinsmeðferð.
Í nýju rannsókninni kom í ljós að GRP78 er ekki bara stolið, heldur breytir það einnig staðsetningu sinni í frumunni. Þetta uppgötvaði einn vísindamannanna fyrir tilviljun, þegar hann var að rannsaka samhengið milli GRP78 og tiltekins gens sem tengist krabbameini.
Færir sig til í frumunni
Yfirleitt er prótínið GRP78 staðsett í sérstöku netverki sekkja og leiðslna í frumunni (endoplasmatic reticulum).
⇑ Þannig myndast krabbamein

Fruma skiptir sér
Fruman getur skyndilega byrjað að skipta sér óeðlilega hratt og hætt að hlýða hefðbundnum vaxtarboðum.
Fruman verður stjórnlaus
Fruman getur ekki gert við nýja galla (stökkbreytingar) í erfðavísunum sem eykur hættuna á myndun skaðlegra stökkbreytinga.
Fruman verður ódauðleg
Stökkbreytingin gerir frumuna ódauðlega, svo líkaminn verður ófær um að deyða hana. Stökkbreyttu frumurnar mynda nú æxli.
Æðar myndast
Æxlið leiðir af sér nýjar æðar til að tryggt sé að nægilegt súrefni sé fyrir krabbameinsvefinn svo hann geti stækkað frekar.
Innrás í líkamann
Krabbameinsfrumur úr æxlinu fara um líkamann með blóðrásinni, þar sem þær ráðast á ný líffæri og orsaka meinvörp.
Verði fruman fyrir streituálagi, t.d. vegna krabbameins, virðist prótínið flytja sig inn í frumukjarnann sjálfan og þar segja vísindamennirnir það geta breytt hegðun frumunnar og að lokum aukið hreyfanleika krabbafrumu og árásarhneigð.

Myndirnar sýna lungnafrumur. Blái liturinn sýnir GRP78 inni í frumukjarna krabbafrumu en hinar sýna eðlilegar frumur. Grænu litirnir merkja ýmis prótín sem veita frumunni lögun og stöðugleika, eins konar stoðkerfisprótín.
„Það kemur mjög á óvart að sjá GRP78 inni í kjarnanum sem stýrir framleiðslu prótína,“ segir Amy S. Lee prófessor í sameindalíffræði við Keck-læknaskólann og einn aðalhöfunda niðurstöðuskýrslunnar.
Hún og aðrir vísindamenn sem stóðu að rannsókninni, vona að einhvern tíma komi að því að þessi uppgötvun geti hjálpað vísindamönnum að koma í veg fyrir þessa gíslatöku í frumunum og þannig orðið til að bæta meðferðarúrræði gegn krabbameini.
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að krabbameinsfrumur ráðast til atlögu við líkamann og eyðileggja líffæri á tilteknum tímum sólarhringsins. Þessi uppgötvun hefur gert það að verkum að læknar hafa orðið að endurskoða hvernig og ekki hvað síst hvenær meðhöndla skuli krabbameinssjúklinga.