Hve langt er mannfólkið reiðubúið að ganga í hlýðni við yfirboðara sína?
Á sjöunda áratug síðustu aldar einsetti bandaríski félagssálfræðingurinn sér að finna svar við þessari spurningu.
Hann auglýsti eftir fólki til að taka þátt í rannsókn sem samkvæmt auglýsingunni átti að snúast um það hvernig refsingar hafi áhrif á lærða hegðun. 40 manns gáfu sig fram og í júlí 1961 hóf Milgram tilraunir sínar.
Þegar þátttakandi mætti í háskólann tóku tveir á móti honum, annars vegar stjórnandi rannsóknarinnar íklæddur kirtli; hinn var kynntur sem annar þátttakandi í sömu rannsókn en var í rauninni aðstoðarmaður Milgrams.
Stjórnandinn dró því næst um hlutverk „nemanda“ og „kennara“. Fyrirfram hafði Milgram þó komið því svo fyrir að hinn nýkomni þátttakandi varð alltaf kennari en aðstoðarmaðurinn fékk hlutverk nemandans.
Nemandinn var ólaður niður í stól og rafóður festar á höfuð hans. Kennarinn fékk sæti við stjórnborð með rofum sem merktir voru misjafnlega sterkum straumi, frá 15 upp í 450 volt. Merki við rofana sýndu styrk frá „vægt stuð“ upp í „hættulegt“.
Stjórnandinn bað kennarann að refsa nemanda sínum ef hann eða hún svaraði spurningum kennarans rangt. fyrir hvert rangt svar átti kennarinn að auka strauminn.
Nemandinn æpti og kvartaði yfir hjartsláttartruflunum
Kennari og nemandi voru hvor í sínu herbergi en með hljóðtengingu, þannig að kennarinn gat stöðugt fylgst með þjáningum nemandans. Í raun fékk nemandinn aldrei neitt stuð, sársaukahljóðin voru spiluð af segulbandi.
Milgram prófessor fékk alla þátttakendurna til að gefa nemanda sínum rafstuð til refsingar. Meira en helmingur féllst á að senda 450 volta straum – banvænt rafstuð.
Þegar straumstyrkurinn varð of mikill átti nemandinn að banka í vegginn, kvarta yfir hjartsláttartruflunum, æpa og að lokum þykjast hafa misst meðvitund. Ef kennarinn hikaði einhvern tíma við að gefa stuð, hvatti stjórnandinn hann til að halda áfram.
Ef þátttakandinn neitaði var tilrauninni hætt en annars var haldið áfram þar til þátttakandinn hafði sent 450 volt í gegnum líkama fórnarlambs síns.
65% notuðu banvænan styrk
Stjórnandinn fékk alla til að senda 300 volt gegnum líkama mannsins í stólnum og 65% þátttakenda reyndust reiðubúin til að fara alla leið og senda banvænan skammt, 450 volt, í líkama annarrar manneskju.
Án tillits til þess hve ákaft fórnarlambið bað um miskunn og þrátt fyrir eigin óþægindi og vanlíðan hlýddu þátttakendurnir fyrirskipunum vegna þess að yfirboðarinn – stjórnandinn – stóð fast við að þetta væri nauðsynlegt.