Með tímabelti er átt við svæði þar sem klukkan er það sama, óháð stöðu sólar á himninum.
Kanadíski verkfræðingurinn Sandford Fleming kynnti fyrstur allra til sögunnar fyrstu tímabeltin sem náðu yfir allan heiminn. Þó liðu nokkur ár áður en kerfi þetta öðlaðist útbreiðslu og það var ekki fyrr en árið 1929 sem flest stærri lönd höfðu tileinkað sér tímabeltin.
Iðnvæðingin gerði kröfur um sameiginleg tímabelti
Annmörkum reyndist háð að láta klukkuna alls staðar vera 12 á hádegi þegar sól er hæst á himninum, einkum í iðnvæddu ríkjunum þar sem járnbrautakerfið teygir sig yfir margar lengdargráður. Að sjálfsögðu var brýnt að vita hvenær lestin væri væntanleg og í því skyni var þörf fyrir sameiginlegan tíma umfram það að styðjast við sólartímann á hverjum stað.
Á hinn bóginn reyndist ekki hagkvæmt að láta hvert tímabelti ná yfir mjög stórt landfræðilegt svæði, líkt og t.d. Bandaríkin, því opinberum tíma má ekki skeika of mikið frá staðartíma sem byggir á sólargangi.
Kína ætti að skipta í fimm tímabelti
Tímabelti eru í raun málamiðlun þar sem staðartími er hafður sem næst sólartíma. Í raun og veru ætti staðartíminn að breytast eftir hverjar 15 lengdargráður en taka þarf tillit til landfræðilegra þátta, svo og stjórnarfarslegra.
Sem dæmi nær allt Kína yfir eitt tímabelti, þó svo að stærð landsins og lega þess bjóði eiginlega upp á alls fimm belti. Þess má geta að Kína skiptist í fimm belti allt fram að kínversku byltingunni árið 1949.