Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Í Hollywood-myndinni Braveheart svíkur Robert the Bruce málstað Skota og færir Englendingum William Wallace á silfurfati til grimmilegrar aftöku. Í veruleikanum var þessi skúrkur þó hetja Skota. Þótt frelsisbarátta Skota kostaði bræður hans lífið og systur hans enduðu bak við lás og slá, gafst hinn raunverulegi Braveheart aldrei upp.

BIRT: 19/04/2024

Enskur riddari knýr hest sinn sporum, beinir lensunni fram og hleypir á harðastökki í átt að konungi Skota, Robert I. eða Robert the Bruce, eftir franska nafninu „de Brus“.

 

Þegar konungurinn sér riddarann er um seinan að flýja og hann sér ekki aðra leið en að berjast, jafnvel þótt hann sé aðeins vopnaður öxi og á óvörðum hesti.

 

Þennan júnímorgun 1314 standa fylkingar Skota og Englendinga hvor gegn annarri við ána Bannockburn, um 60 km norðvestan við Edinborg.

 

Og falli konungur Skota strax áður en orrustan hefst er fyrirséð að her Skota leysist upp og von þeirra um sjálfstæði verður þar með að engu.

 

Konungurinn knýr hest sinn sporum og ríður óttalaus á móti riddaranum sem nálgast óðfluga og beinir lensunni beint að honum.

Einvígið milli enska riddarans Henrys de Bohun og Roberts the Bruce hefur öldum saman verið vinsælt myndefni breskra málara.

Augnabliki áður en lensan nær til hans, sviptir hann hesti sínum til hliðar. Lensan missir marks en konungurinn reisir sig upp í söðlinum og hamrar öxinni í höfuð riddarans um leið og hann þeysir hjá.

 

Öxin klýfur hjálminn og höfuðkúpu enska riddarans og Robert I. getur nú einbeitt sér að þeirri orrustu sem á að gera út um örlög hans. Skoski konungurinn þarf reyndar á allri vígsnilld sinni að halda því allar aðstæður eru honum andsnúnar. Her Englendinga er tvöfalt stærri og jafnvel drottningin efast um sigurmöguleika manns síns.

 

Tvær fjölskyldur takast á

Áður en kom að orrustunni við Bannockburn hafði Robert the Bruce þurft að sigrast á ýmsum erfiðleikum. Sú saga hófst 1286, þegar hann var aðeins 12 ára og taldist þá ekki af konungsætt.

 

Skotakonungur var þá nýlátinn og tvær aðalsættir tókust á um hver skyldi erfa krúnuna. Afi Roberts, lávarðurinn af Annandale, hélt því fram að faðir konungs hefði lofað sér hásætinu.

Réttarlæknar endurgerðu andlit Roberts I. úr leir fyrir fáum árum.

Robert the Bruce fékk hins vegar titilinn jarl af Carrick sem hann erfði úr móðurætt.

 

En rétt eins og lávarðurinn af Annandale gat John Balliol rakið ættir sínar til fyrri konunga og hann vísaði kröfu jarlsins á bug.

 

Til að komast hjá borgarastyrjöld fylgdu Skotar eldra fordæmi og árið 1292 báðu þeir nágranna sinn í suðri, Edward 1. konung Englands að miðla málum.

 

En Englandskonungur hafði sínar eigin hugmyndir. Hann lýsti því yfir að sá sem hann útnefndi, þyrfti að heita sér trúnaði. Lávarðurinn og Balliol féllust báðir á skilyrðið og þann 17. nóvember 1292 lýsti Edward konungur því yfir að Balliol ætti ríkari kröfu til krúnunnar.

 

Balliol ríkti þó ekki lengi. Árið 1296 eygði hann möguleika til uppreisnar vegna þess að Englendingar voru í stríði við Frakka.

 

En Edward 1. – sem nefndur var Longshanks – sendi herlið til Skotlands og í orrustunni við Dunbar mátti her Balliols þola ósigur og uppreisnarleiðtoginn fór í útlegð. Lávarðurinn af Annandale þóttist nú sjá sér færi til að setjast í hásætið en svar Edwards 1. var ekki uppörvandi:

 

„Hef ég ekkert þarfara fyrir stafni en að vinna þér kórónur?“

Árið 1996 rannsökuðu vísindamenn gamalt skoskt skrín með smurðu hjarta. Hvort það hjarta var úr Robert the Bruce var þó ekki unnt að greina.

Konungurinn varð að Braveheart eftir andlátið

Þegar Robert I. Skotakonungur lá banaleguna 54 ára 1329 gat hann verið hreykinn af afrekum sínum. Hann hafði meira að segja fengið páfann til að nema bannfæringuna úr gildi. En eitt loforð vannst honum ekki tími til að uppfylla. Hann hafði svarið þess eið að fara í krossferð til að berjast fyrir málstað Guðs almáttugs.

 

Áður en Robert the Bruce gaf upp öndina bað hann riddara sína þó að taka hjarta sitt og fara með það í hið heilaga stríð. En krossferðir til Landsins helga voru ekki á dagskrá og því fór sir James Douglas með hjartað og hóp riddara suður á Spán til að herja á múslímska Mára sem þar ríktu.

 

Sagan segir að sir James Douglas hafi þeyst fram gegn ofurefli Mára og kastað skríninu með hjartanu að þeim með þessum orðum:

 

„Onwards Braveheart, Douglas shall follow thee or die!” – Áfram, hugdjarfa hjarta, Douglas fylgir á eftir eða deyr.“

 

Sir James féll í orrustunni en þeir sem eftir lifðu tóku hjartaskrínið með sér heim til Skotlands.

Skotlandi átti framvegis að stýra frá Englandi. Enskir hermenn settust upp í öllum virkjum í Skotlandi og útsendarar Englandskonungs voru settir yfir stjórn landsins.

 

Allir skoskir aðalsmenn áttu að sverja Edward 1. trúnaðareiða – líka hinn ungi Robert the Bruce, þegar hann erfði landareign ættarinnar á landamærum Skotlands og Englands.

 

William Wallace gerir uppreisn

Hafi Englandskonungur haldið að nú tæki við friðartímabil í Skotlandi, hefur hann orðið fyrir sárum vonbrigðum. Enski landsstjórinn ríkti með slíkri harðstjórn að strax í maí 1297 braust út ný uppreisn meðal Skota.

 

Að þessu sinni var leiðtoginn hinn sögufrægi William Wallace, sonur riddara af lágaðalsætt. En án stuðnings frá háaðlinum var uppreisn hans dæmd til að mistakast.

 

Hinn ungi Robert the Bruce hjálpaði honum ekki. Árið áður hafði hann barist við hlið Englendinga í von um að skoska krúnan kæmi í hlut hans einn góðan veðurdag.

William Wallace leiddi, árið 1297, Skota til sigurs á Englendingum á Stirling Bridge. En fyrsta sjálfstæðisstríð Skotlands kostaði hann á endanum lífið.

En þegar Englandskonungur sendi þennan unga aðalsmann til Skotlands til að vinna kastala úr höndum uppreisnarmanna ákvað Robert the Bruce að skipta um lið og á þá að hafa sagt:

 

„Ég hlýt að ganga til liðs við mitt eigið fólk og þá þjóð sem ég tilheyri.“

 

Að honum frátöldum voru það sárafáir aðalsmenn sem studdu William Wallace. Af 13 skoskum jörlum áttu 9 á þessum tíma líka jarðeignir í Englandi og fóru ekki í neinar grafgötur um að uppreisn gegn Englandskonungi myndi kosta þá lén sín í Englandi, jafnvel þótt Skotar næðu sjálfstæði á endanum.

 

Eftir að uppreisnarmenn unnu mikilvæga sigra breyttist þó afstaða háaðalsins og haustið 1297 var William Wallace útnefndur æðsti hershöfðingi Skota – og þar með leiðtogi.

 

En vorið 1298 kom Edward 1. til Skotlands með gríðarfjölmennan her.

 

Yfirþyrmandi hernaðaryfirburðir Englendinga – og loforð um meira land – urðu til þess að aðallinn snerist aftur á sveif með enska konunginum.

 

Sú ákvörðun kostaði William Wallace marga af bestu hermönnum hans og í júlí 1298 voru uppreisnarmenn lagðir að velli í orrustunni við Falkirk.

 

Robert skiptir aftur um skoðun

William Wallace slapp naumlega frá Falkirk en tími hans sem leiðtogi Skota var liðinn.

Sagnfræðingar tættu söguþráð Mels Gibson í sig en myndin fékk fimm Óskarsverðlaun 1996, m.a. sem besta myndin.

Myndin Braveheart full af ósannindum

Milljónir manna hafa séð stórmynd Mels Gibson, Braveheart. Myndin jók áhuga fólks á sögu Skotlands en gaf mjög rangsnúna mynd af löngu frelsisstríði Skota.

 

Robert the Bruce sveik ekki Wallace

Í myndinni svíkur Robert the Bruce hetjuna William Wallace í úrslitaorrustunni við Falkirk. Heimildir tíunda rækilega hverjir hafi verið á staðnum en Robert the Bruce er hvergi nefndur. Hitt er þó rétt að hann skipti oftar en einu sinni um lið en ekkert bendir til að hann hafi gert það meðan Wallace stýrði uppreisninni.

 

Wallace lagði ekki undir sig ensk virki

Í myndinni leggur William Wallace undir sig York og sendir Englandskonungi afhöggvið höfuð borgarstjórans. Þetta er hreinn skáldskapur. Wallace herjaði vissulega á Norður-Englandi en lét sér nægja að ræna smáþorp. Víggirtar borgir, svo sem Berwick, féllu ekki fyrr en Robert the Bruce var orðinn konungur Skota.

 

Stríðinu lauk ekki við Bannockburn

Mynd Mels Gibson endar í tómri vitleysu. Villiam Wallace er pyntaður til bana og Edward 1. deyr á sama tíma. Í rauninni lifði hann tvö ár í viðbót – til 1307. Því næst eru Skotar sýndir ráðast gegn Englendingum við Bannockburn undir forystu Roberts the Bruce.

 

Orrustan við Bannockburn var ekki háð fyrr en 1314 og þótt henni lyki vissulega með sigri Skota tók það Robert I. og Skotana 14 ára frelsisátök til viðbótar að knýja fram sjálfstæði Skotlands.

Í hans stað ákváðu skoskir aðalsmenn að útnefna þá tvo sem töldust standa næstir í erfðaröð skosku krúnunnar sem nýja leiðtoga: Robert Bruce og John Comyn en fjölskylda hans hafði stutt John Balliol á konungsstóli.

 

Robert the Bruce áttaði sig fljótlega á því að aðallinn hafði engan áhuga á að styðja kröfu hans til krúnunnar. Þeir vildu þess í stað fá John Balliot til baka. Robert Bruce ákvað því að skipta aftur um lið árið 1302.

 

Þótt Robert Bruce væri nú yfirlýstur stuðningsmaður Edwards 1., fór hann á bak við bæði konunginn og skoska aðalinn.

 

Í leynum aflaði hann sér stuðnings til yfirgripsmikillar uppreisnar sem hann hugðist leiða sjálfur.

 

Árið 1305 tókst honum meira að segja að fá keppinaut sinn, Comyn, til að styðja kröfu sína til skosku krúnunnar – gegn því að hann fengi öll lönd Bruce-ættarinnar í Skotlandi, þegar Robert yrði krýndur.

 

Skömmu síðar skýrði Comyn konungi þó frá þessum áætlunum og Robert Bruce þurfti hið snarasta að flýja frá hirðinni.

Morðið á John Comyn var hrottalegt. Fyrst stakk Robert the Bruce keppinaut sinn niður með hníf og hálfshjuggu menn hans Comyn.

Árið eftir hefndi hann sín grimmilega. Honum tókst að lokka Comyn til fundar við sig í Dumfries-kirkjunni Skotlands megin landamæranna og inni í hinni háheilögu kirkju dró hann upp rýting sinn og banaði Comyn, að sögn uppi við altarið. Þessi óguðlega framkoma varð til þess að páfinn bannfærði Robert Bruce.

 

Nýkrýndur konungur á flótta

Sex vikum eftir morðið á Comyn lét Robert Bruce krýna sig konung Skotlands. Kirkjunnar menn studdu hann en aðallinn var enn klofinn og þeir sem stutt höfðu Comyn hugðu á hefndir.

 

Á sama tíma var enskur her á leið norður til Skotlands til að brjóta uppreisnina á bak aftur. Nýkrýndur konungur Skota réðist strax til gagnsóknar og í júní 1306 fór hann með 3.400 manna herlið til Perth þar sem 3.000 Englendingar vörðu borgarmúrana.

 

Umsátrið um borgina endaði með skelfingu. Robert I. skoraði á Englendingana að fylgja hinum óskráðu reglum riddaramennskunnar og útkljá málið í orrustu en til að vinna tíma kváðust þeir ekki munu berjast svo skömmu fyrir myrkur og orrustan yrði að bíða morguns.

 

Konungurinn nýkrýndi tók þessi rök gild og sló upp tjaldbúðum yfir nóttina.

Flestar bardagar Roberts Bruce og Englendinga áttu sér stað nálægt Edinborg, þar sem Skotland er þrengst.

Hefði Robert I. vitað að Edward konungur hafði lýst hann réttdræpan útlaga, hefði hann tæpast sýnt af sér slíka léttúð.

 

Það taldist nefnilega algerlega óskylt að standa við orð sín gagnvart réttdræpum manni og yfirmaður Englendinganna nýtti sér það. Englendingarnir réðust að tjaldbúðunum í skjóli myrkurs.

 

Bardaginn varð afar óreiðukenndur og þrír hestar voru drepnir undir Robert konungi en menn hans náðu að bjarga honum sjálfum í öll skiptin.

 

Þótt Skotarnir væru mannfleiri nýttist Englendingunum vel að koma á óvart og þeir náðu að umkringja Skotana. Á síðasta augnabliki tókst nokkrum riddurum að rjúfa skarð í umsátrið þannig að konungurinn komst undan.

 

Robert I. bjargaði lífinu en glataði her sínum og Englendingar léku nú lausum hala. Robert konungur neyddist til að láta sig hverfa.

 

Sumarkóngurinn spottaður

Englendingar hæddust opinberlega að Robert Bruce og kölluðu hann sumarkónginn vegna þess hve skamman tíma hann hafði verið við völd. Grínkviðlingar um hann fóru víða um Bretlandseyjar.

 

„Sumarkóngur situr uppi á heiði – og síst af öllu leitar mannabyggða.“ Eitthvað á þessa leið var sumt af kveðskapnum.

Samkvæmt goðsögn einni faldi Robert Bruce sig í helli þar sem hann sat og horfði á könguló reyna að spinna vef. Í sjöttu tilraun tókst köngulónni ætlunarverk sitt og rándýrið þrautseiga veitti konungi þann innblástur að gefast ekki upp.

Robert Bruce sá þó fljótlega að öryggið í skosku fjalllendi var ótryggt. Hann reyndi að senda konu sína og dóttur til Noregs, þar sem þær gætu verið öruggar en Englendingar tóku þær til fanga. Í tengslum við þessa flóttatilraun var yngsti bróðir hans pyntaður og tekinn af lífi.

 

Veturinn 1306-1307 er hann talinn hafa leitað skjóls á Innri-Suðureyjum, skammt undan strönd Skotlands, ásamt þremur eftirlifandi bræðrum sínum og fáeinum fylgismönnum. Sagan segir að þeir hafi þurft að leynast í hellum en Robert Bruce notaði þó tímann til að safna liði gegn Englendingum.

 

Hann lét til skarar skríða strax um vorið en sú uppreisn fór út um þúfur. Tveir yngri bræður hans, Alexander og Thomas töpuðu orrustu við Skota sem höfðu fylgt Comyn að málum og voru báðir teknir af lífi.

 

Tilraunir Roberts Bruce til að safna liði mistókust líka. Þegar konungur Skota gekk á land í Skotlandi réði hann einungis 600 hermönnum og innan skamms stóðu þeir andspænis 3.000 manna liði Englendinga.

Noregsdrottning sendi bróður sínum hermenn

Sumarið 1306 voru blikur á lofti og ákvað Bruce því að senda konu sína og dóttur í öruggt skjól í Noregi.

 

Ástæðan fyrir að hann valdi Noreg tengist því að systir hans – ekkjudrottningin Ísabella (1272-1358) bjó þar.

 

Ísabella fluttist til Noregs árið 1292 til að giftast Eiríki prestahatara komungi og var helsti ráðgjafi konungs allt til dauða hans.

 

 

Sem ekkja hélt Ísabella þó sterkri stöðu sinni, sótti fjölmargar opinberar samkomur og virðist hafa tekið virkan þátt í norskum stjórnmálum.

 

Ísabella sneri aldrei aftur til Skotlands en hún sendi hermenn til stuðnings frelsisbaráttu Roberts the Bruce. Hvaða Norðmenn fóru til aðstoðar er ekki vitað með vissu. Orkneyjar og Hjaltlandseyjar norður af Skotlandi tilheyrðu norsku krúnunni allt frá víkingaöld og til ársins 1470 og því er líklegt að Ísabella hafi fengið liðsauka til aðstoðar bróður sínum á eyjunum.

En Robert Bruce nýtti sér þekkingu sína á landsháttum. Hann lét hermenn sína taka sér stöðu á hæð sem var umkringd mýrlendi á tvo vegu. Þungvopnaðir enskir riddarar komust ekki yfir mýrina og neyddust til árásar beint framan frá.

 

En þar hafði Skotunum unnist tími til að grafa djúpa skurði sem hestar riddaranna féllu niður í. Skoska skáldið John Barbour lýsti orrustunni 60 árum síðar:

 

„Þá mátti heyra hryllingshljóðin þegar spjót og brynjur brustu og hinir særðu æptu og kveinkuðu sér.“

 

Að baki skurðunum og spjótavegg sínum héldu Skotarnir velli þar til óvinirnir neyddust til að hörfa frá. Robert Bruce hafði þar með unnið sigur – að vísu lítinn í sniðum en sálfræðilega mikilvægan.

 

„Fólk trúir því að Bruce muni sigra alla sem ráðast gegn honum,“ skrifaði pirraður, enskur hershöfðingi frá Skotlandi.

 

Ný hernaður

Sigurtrúin efldist til muna þegar Edward 1. lést eftir langvinn veikindi þann 7. júlí 1307, þá 68 ára gamall.

Sú sögn er til að Mary og Ísabella hafi verið í búrum utan á virkisveggjunum. Það er þó ekki rétt. Þær voru vistaðar í fangaklefum.

Systur konungsins bak við lás og slá

Þegar Robert the Bruce varð konungur Skota í mars 1306, var kona hans, Elizabeth, viðstödd og varð um leið drottning Skota. Tvær systur Roberts, Mary og Christina tóku líka þátt í athöfninni og það var Ísabella greifynja af Buchan sem setti kórónuna á höfuð Roberts.

 

Í september sama ár tóku Englendingar þessar fjórar konur til fanga og þeirra beið nú óvenju hörð refsing á mælikvarða riddaratímans.

 

Elizabeth slapp best. Hún var sett í stofufangelsi, sennilega vegna þess að hún var írskrar ættar og Englandskonungur vildi ekki efna til úlfúðar í Írlandi.

 

Yngri systir Roberts, Christina var sett í enskt klaustur þar sem henni var haldið í einangrun í klefa sínum árum saman.

 

Enn verri örlög biðu hinna tveggja. Mary, systir Roberts og greifynjan Ísabella voru lokaðar inni í fangaklefum í virkjunum Roxburgh og Berwick. Refsingunum var ætlað að auðmýkja konung Skota. Ekki fyrr en átta árum síðar, eftir sigurinn við Bannockburn, tókst Robert I. að kaupa þær lausar.

Erfinginn, Edward 2. stóð ekki styrkum fótum og þurfti tíma til að treysta völd sín.

 

Þann tíma nýtti Robert I. til að safna öllum Skotum að baki sér og þjálfa sístækkandi her. Honum var ljóst að til að eiga einhverja von gegn Englendingum þyrfti hann að þróa nýjar hernaðaraðferðir.

 

Stóru innrásarherirnir frá Englandi voru betur vopnum búnir en Skotarnir en Robert I. vissi líka að óvinurinn gat ekki haft mikinn herstyrk í Skotlandi allt árið.

 

Skoski sagnaritarinn Walter Bower lýsti stríðslist hans 100 árum síðar:

 

„Hernaðarlist Skota skal vera þessi: Fótgönguliðar, fjöll og mýrar. Nýtum skóga landsins, boga og spjót sem varnarvirki. Hættan skal ríkja í öllum þröngum skörðum og ógn stafa af öllum hópum hermanna. Látum akra landsins brenna svo heitt að óvinirnir flýi.“

Stirling-kastali gegndi afgerandi hlutverki í skosku frelsisbaráttunni en í nálægð við kastalann var orrustan við Bannockburn háð árið 1314.

Um vorið, þegar ensku herirnir komu til Skotlands, flúðu konungurinn og menn hans til fjalla eða leyndust í skógum. En þegar Englendingar fóru heim um haustið og skildu aðeins eftir fámenna herflokka, komu Skotarnir niður úr fjöllunum og tóku aftur öll virki og kastala.

 

Baráttan stóð í sjö ár og á þeim tíma tryggði Skotakonungur völd sín æ betur og víðar. Árið 1314 stóð umsátur um hernaðarlega mikilvægt virki, Stirlingkastala, mánuðum saman.

 

Englendingar sendu fjölmennan her til bjargar en í stað þess að flýja upp í fjöllin ákvað Robert I. nú að stöðva óvinina þann 23. júní við ána Bannockburn skammt suður af Sterlingkastala.

 

Her Englendinga var miklu fjölmennari. Tölur eru dálítið óvissar en Robert I. réð yfir 6-7 þúsund fótgönguliðum og um 600 riddurum sem þó voru trúlega einkum vopnaðir öxum og sverðum en Edward 2. hafði safnað saman um tvöfalt fleiri fótgönguliðum og 2-3 þúsund þungvopnuðum riddurum.

 

Oddstólpar í fallgryfjum færðu Skotum sigur við Bannockburn

Sumarið 1314 sitja Skotar um mikilvægustu herstöð Englendinga í Skotlandi, Stirlingkastala. Konungur Englands fer sjálfur með óvígan her til að stugga við Robert the Bruce og uppreisnarmönnum hans en í þetta sinn leggja þeir ekki á flótta.

Englendingar koma

23. júní nær her Edwards 2. til Stirling. Handan árinnar Bannockburn eru Skotar að fylkja liði sínu. Englendingar gera árás en margir lenda óvænt ofan í fallgryfjur sem Skotarnir hafa grafið meðfram leiðinni. Riddararnir neyðast á endanum til að ríða beint á spjótsodda skosku fótgönguliðanna.

Skotar öflugri

Meðan bardaginn geisar fer hópur riddara aftur fyrir víglínu Skota til að hindra flótta en þar bíða bakvarðasveitir Skota og hrekja þá til baka.

Slæmt náttból

Eftir orrustu dagsins fara Englendingar til austurs og yfir ána. Þeir slá upp tjaldbúðum í mýrlendi. Skoskur aðalsmaður í liði Englendinga snýr til liðs við landa sína og segir þeim að ensku hermennirnir séu niðurdregnir eftir orrustuna og lítinn nætursvefn.

Árás í dagrenningu

Þegar birtir af degi birtast skoskir fótgönguliðar með lensur fram úr skógarjaðrinum og stefna á búðirnar. Bogaskyttur Englendinga eru sendar fram en verða sjálfar fyrir örvahríð frá bogaskyttum Skota og ná því ekki að þynna raðir þeirra.

Englendingar tapa

Árnar Bannockburn og Pelstream torvelda Englendingum flóttann. Brynjur riddaranna eru of þungar. Edward konungi tekst að komast undan en hermenn hans falla eða drukkna þúsundum saman. Ósigur Englendinga er alger.

Oddstólpar í fallgryfjum færðu Skotum sigur við Bannockburn

Sumarið 1314 sitja Skotar um mikilvægustu herstöð Englendinga í Skotlandi, Stirlingkastala. Konungur Englands fer sjálfur með óvígan her til að stugga við Robert the Bruce og uppreisnarmönnum hans en í þetta sinn leggja þeir ekki á flótta.

Englendingar koma

23. júní nær her Edwards 2. til Stirling. Handan árinnar Bannockburn eru Skotar að fylkja liði sínu. Englendingar gera árás en margir lenda óvænt ofan í fallgryfjur sem Skotarnir hafa grafið meðfram leiðinni. Riddararnir neyðast á endanum til að ríða beint á spjótsodda skosku fótgönguliðanna.

Skotar öflugri

Meðan bardaginn geisar fer hópur riddara aftur fyrir víglínu Skota til að hindra flótta en þar bíða bakvarðasveitir Skota og hrekja þá til baka.

Slæmt náttból

Eftir orrustu dagsins fara Englendingar til austurs og yfir ána. Þeir slá upp tjaldbúðum í mýrlendi. Skoskur aðalsmaður í liði Englendinga snýr til liðs við landa sína og segir þeim að ensku hermennirnir séu niðurdregnir eftir orrustuna og lítinn nætursvefn.

Árás í dagrenningu

Þegar birtir af degi birtast skoskir fótgönguliðar með lensur fram úr skógarjaðrinum og stefna á búðirnar. Bogaskyttur Englendinga eru sendar fram en verða sjálfar fyrir örvahríð frá bogaskyttum Skota og ná því ekki að þynna raðir þeirra.

Englendingar tapa

Árnar Bannockburn og Pelstream torvelda Englendingum flóttann. Brynjur riddaranna eru of þungar. Edward konungi tekst að komast undan en hermenn hans falla eða drukkna þúsundum saman. Ósigur Englendinga er alger.

Það var einn þessara riddara sem var nálægt því að fella Robert I. strax áður en orrustan hófst en endaði sjálfur með klofinn haus eftir öxi konungsins.

 

Það sem eftir var dags tókst Skotum að halda stöðu sinni. Morguninn eftir áttu Englendingar von á að Skotar myndu annað hvort stinga af eða reyna að verjast áfram en þess í stað gerði her Roberts I. áhlaup gegn tvöfalt stærri her.

 

Áhlaupið kom á óvart og króaði Englendinga af milli tveggja árfarvega. Sú staða kom í veg fyrir að þeir gætu fært sér liðsmuninn í nyt og orrustan endaði með miklum ósigri enska hersins. Um kvöldið lágu um 5.000 Englendingar í valnum en Skotar höfðu aðeins misst um 500 menn.

 

Orrustan við Bannockburn var stærsti sigur Skota á Englendingum en Edward 2. náði að flýja af orrustuvellinum og baráttan hélt áfram.

 

Skotar fá frelsi

Eftir sigurinn við Bannockburn sóttu Skotar fram. Hersveitir þeirra herjuðu og rændu á lendur Englendinga.

„Ef þér missið Berwick, missið þér norðrið.“
Borgarstjóri Berwick, Maurice de Berkeley

Þyngsta höggið gagnvart Edward 2. var þó þegar þeir settust um hafnarborgina Berwick, skammt suður af núverandi landamærum.

 

Berwick var mikilvægur verslunarstaður og tolltekjur þaðan voru ríkiskassanum mikilvægar. Aðstæður í borginni voru erfiðar. Borgarstjóranum, Maurice de Berkeley tókst að koma frá sér bréfi þar sem hann grátbað konung sinn að koma til bjargar.

 

„Ég fullvissa yður herra, um að menn yðar deyja úr hungri. En þótt þér hugsið ekki um menn yðar eða borgarbúa, hugsið þá um borgina sem er yður svo kær. Ef þér missið Berwick, missið þér norðrið.“

 

En engin hjálp barst og borgin féll 1318.

 

Skotar héldu áfram ránum sem Englendingar gátu ekki brugðist við. Stríðið endaði þó í þrátefli og hvorugur aðilinn var fær um að sigrast á hinum. Robert I. reyndi að ráðast inn í Írland og hugðist afla sér stuðnings Íra en innrásin mistókst.

 

Endalok stríðsins réðust að lokum við ensku hirðina. Edward 2. átti takmörkuðum vinsældum að fagna og árið 1327 neyddu drottningin og elskhugi hennar hann til að segja af sér konungdómi. Drottningin settist að völdum í skjóli 14 ára sonar síns sem fékk heitið Edward 3.

Að sögn írsks miðaldaannáls sigldi her Edwards the Bruce til Írlands á 300 skipum.

Innrás Skota á Írland mistókst

Árið 1315 sendi Robert the Bruce eina eftirlifandi bróður sinn, Edward, til Írlands. Hann átti að sigrast á Englendingum og verða konungur Íra. En áætlunin mistókst herfilega.

 

Skotar gerðu sér vonir um að Írar myndu fylkja sér að baki þeim sem frelsurum eftir 150 ára kúgun Englendinga. En á móti hverjum írskum aðalsmanni sem gekk til liðs við Edward the Bruce, snerist einhver úr fjölskyldunni á sveif með Englendingum í von um að verða sjálfur lénsherra.

 

Samtímis ríkti hungursneyð á Írlandi og af henni leiddi að 6.000 manna herlið Skota og enn fjölmennari herir Englendinga fóru ránshendi um hinar takmörkuðu matarbirgðir. Baráttuvilji Íra varð því eðlilega afar lítill.

 

Baráttan stóð þó í þrjú ár en lokaorrustan stóð við Faughart, nálægt austurströndinni og örskammt frá núverandi landamærum Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.

 

Edward átti nú aðeins um 2.000 hermenn eftir og skipaði þeim svo dreift að Englendingar gátu auðveldlega brytjað þá niður.

 

Þessi síðasti bróðir Roberts I. féll í bardaganum. Líkið var hálshöggvið og síðan skipt í fjóra hluta sem sendir voru landshorna á milli til að sýna Írum hvað biði þeirra sem gengju í lið með Skotum.

Eftir meira en 30 ára styrjöld við Skota ásamt ófriði við Frakka og uppreisnum á Írlandi voru Englendingar að niðurlotum komnir. Hinn ungi konungur þurfti frið til endurreisnar og 17. mars 1328 var skrifað undir friðarsamninga þar sem Edward 3. afsalaði sér tilkalli til Skotlands og Robert the Bruce og ætt hans viðurkennd sem konungsætt Skota.

 

Englendingar uppnefndu samninginn „turpis pax“ eða „skammarfriðinn“ en Skotar hylltu Robert I. Hinn raunverulegi Braveheart hafði náð að skapa sjálfstætt og óhæð konungdæmi í Skotlandi.

 

Robert I. naut hásætisins þó ekki lengi. Hann lést árið eftir, 1329, 54 ára að aldri. Dánarorsökin er óljós en í Englandi var reynt að sverta nafn hans með því að hann hefði dáið úr holdsveiki, „hinum óhreina sjúkdómi“.

 

Skoskar heimildir styðja ekki þessa skýringu en gefa fremur til kynna að ofát og drykkjuskapur hafi á endanum orðið honum að fjörtjóni. Sonur hans tók við konungdómi undir nafninu Davíð II.

Lestu meira um Robert the Bruce:

Fiona Watson: Traitor, Outlaw, King, Part One: The Making of Robert Bruce, Independently published, 2018.

 

 Colm McNamee: The Wars of the Bruces: Scotland, England and Ireland 1306-1328, Birlinn, 2022.

 

HÖFUNDUR: BENJAMIN CHRISTENSEN

© Marshall, H. E./Wikimedia Commons,© S.A.Farabi/Wikimedia Commons,© David Cheskin, PA Images/Imageselect,© Shutterstock,© Sunset Boulevard/Getty Images,© Henri Félix Emmanuel Philippoteaux/Wikimedia Commons,© Wikimedia Commons,© Imageselect,© Bridgeman Images

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

6 atriði sem þú ættir að vita um skeggskottu: Gráðugur ættingi silfurskottunnar gæti brátt hertekið heimili þitt

Tækni

Lúxus eftir dómsdag: Lítum á skýli milljarðamæringanna

Menning og saga

Indiana Jones raunveruleikans leitaði að sáttmálsörkinni

Náttúran

Átvögl sjávarins geta kælt loftslagið

Lifandi Saga

Í bók frá miðöldum leyndist óþekkt portrett af Michelangelo

Tækni

Edison gegn Tesla: Meistarar rafmagnsins hötuðust

Maðurinn

7 magnaðar staðreyndir um augu þín

Tækni

Minnislisti nördanna: Búnaður

Tækni

Nú fá róbótar siðferðilegan áttavita

Heilsa

Ný tækni vekur latar sáðfrumur

Jörðin

Glóandi sprengingar skapa hljóðhöggbylgjur

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is