Hundar eru sólgnir í sætindi, líkt og við mennirnir, og myndu háma í sig súkkulaði ef þeir fengju leyfi til þess.
Það ættum við hins vegar ekki að leyfa þeim.
Súkkulaði felur nefnilega í sér þeóbrómín sem er eitrað fyrir hunda, sökum þess að þeir brjóta það langtum hægar niður en við mennirnir.
Þetta hægfara niðurbrot hefur slæm áhrif á taugakerfi hunda, hjarta- og æðakerfið, svo og nýrun.
Éti hundur of mikið súkkulaði, gera vart við sig einkenni eins og uppköst, niðurgangur, ör hjartsláttur, aukin þvaglosun, vöðvalömun og eirðarleysi.
Ef um er að ræða mjög slæma eitrun getur súkkulaðiátið haft í för með sér öndunarerfiðleika, hjartastopp og í mjög sjaldséðum tilvikum getur það dregið hundinn til dauða.
Örvæntið þó ekki ef hundurinn ykkar kemst í lítinn mola, því magnið þarf að vera verulegt áður en eitureinkennin gera vart við sig.
Hversu mikið súkkulaði hundurinn þolir ræðst af stærð hans og einnig gerð súkkulaðisins. Dökkt súkkulaði inniheldur t.d. sjöfalt meira magn af þeóbrómíni en mjólkursúkkulaði.