Tunglið snýst um sjálft sig á sama hraða og það snýst um jörðina. Þess vegna snýr það alltaf sömu hliðinni að okkur.
Nákvæmlega til tekið er tunglið 27,3 sólarhringa að fara einn hring um jörðina og snýst einn hring um sjálft sig á nákvæmlega sama tíma.
Fyrirbrigðið kallast bundinn snúningur og gildir um langflest tunglin í sólkerfinu.
Þyngdarafl jarðar læsti stöðu tunglsins
Tunglið er nú læst í bundinn snúning um jörðina og snýr því alltaf sömu hlið að okkur. Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona.
Fyrir milljörðum ára …
… var tunglið nær jörðu en nú og snerist hraðar um sjálft sig. Vegna nándarinnar togaði aðdráttarafl jarðar svo fast í tunglið að með tímanum aflagaðist það og varð örlítið sporöskjulaga.
Aflögunin virkaði …
… sem eins konar bremsa sem smám saman hægði á snúningi tunglsins. Segja má að þyngdarkraftur jarðar hafi gripið sig fastan í annan enda sporöskjulögunarinnar sem tunglið hafði tekið á sig.
Á milljörðum ára …
…hægðist smám saman á snúningi tunglsins og þyngri endi sporöskjunnar snýr nú alltaf að jörðu. Þannig læstist tunglið að lokum í núverandi ástand sem kallast bundinn snúningur.
Í fjarlægri fortíð var tunglið nær jörðu og snerist hraðar en smám saman hægðist á snúningnum vegna þyngdarafls jarðar og áhrifa flóðs fjöru. Þyngdarafl jarðar hægði á snúningi tunglsins þar til það læstist í þessari stöðu gagnvart plánetunni.
…Ennþá örlítið ringlaður? Hér er þetta útskýrt á einfaldan hátt:
Framhliðin úr hrauni, bakhliðin er hálend
Frá jörðinni sjáum við um 59% af yfirborði tunglsins og sú hlið sem að okkur snýr er í útliti verulega frábrugðin bakhliðinni. Sýnilega hliðin einkennist af stórum, myrkum svæðum sem kallast höf en eru í raun stórar sléttur úr storknu hrauni.
Á bakhliðinni er hins vegar mun hálendara og yfirborðið ójafnara. Tunglskorpan, sem samsvarar jarðskorpunni hér, er þar líka til muna þykkari en á framhliðinni.
Sovéskt geimfar myndaði bakhliðina
Mynd náðist í fyrsta sinn af hinni leyndu bakhlið tunglsins árið 1959 og þar var að verki sovéska geimfarið Luna 3. Fyrstu mennirnir sem sáu bakhliðina með eigin augum voru geimfararnir Frank Borman, Jim Lowell og William Anders sem fóru umhverfis tunglið í Apollo 8-leiðangrinum 1968.
Árið 1959 tók sovéska farið Luna 3 fyrstu myndina af bakhlið tunglsins.
Dvergplánetan Plútó og stærsta tungl hennar, Karon, hafa gengið enn lengra í bundnum snúningi og snúast um sameiginlegan þyngdarpunkt. Hér er það tunglið sem alltaf snýr sömu hlið að jörðinni en þar er þessu öfugt farið og það er Plútó sem alltaf snýr sömu hliðinni að Karon.