Hefðbundin skýring á því hvers vegna hundar velta sér upp úr því sem gefur frá sér sterkan þef, er sú að þeir séu að reyna að fela sína eigin rándýrslykt. Hugmyndin er þá sú að hundurinn – eða réttara sagt úlfaforforfeðurnir – geti þannig komist nær mögulegri bráð án þess að trufla lyktarskyn hennar.
Allt frá saur til eiturs
Listinn yfir rök og þefjandi efni er langur. Til sögunnar hafa verið nefnd saur, æla, ferskt og úldið kjöt, þvag, aska, sláturúrgangur, unnin matvæli og jafnvel skordýraeitur.
LESTU EINNIG
Hugmyndin um felulykt er ennþá sú skýring sem nýtur mestrar hylli en 2017 birtust niðurstöður rannsóknar – að vísu á refum – sem veiktu undirstöður kenningarinnar talsvert.
Stela púmulyktinni
Bandarískir vísindamenn fylgdust með púmum sem stundum hafa verið nefndar fjallaljón á íslensku, í fjöllum Kaliforníu og notuðu til þess myndavélar með hreyfiskynjurum. M.a. náðust þannig myndskeið af því þegar púmurnar neru sér utan í tré og stóra steina til að merkja sér staðina með lykt sinni – rétt eins og venjulegir húskettir gera.
En vísindamönnum til undrunar tóku vélarnar líka myndskeið þar sem grárefir á svæðinu nudduðu sér við sömu staði og helst sem fyrst á eftir púmunum. Eftir nánari athuganir töldu menn ósennilegt að refirnir hefðu viljað skilja sína lykt eftir þarna, öllu fremur hefðu þeir verið að stela sér púmulyktinni.
Vísindamennirnir telja líklegustu skýringuna vera þá að púmulyktin hafi fælingaráhrif á stærri rándýr sem mögulega gætu viljað hafa gráref í matinn. Í fjöllum í Kaliforníu eru t.d. sléttuúlfar.