Þýsku neðansjávarljósmyndararnir Kirsten og Joachim Jakobsen ætluðu að fara að ljúka skoðunarferð sinni í litlum kafbát undan strönd portúgölsku eyjarinnar Sao Jorge í Atlantshafi þegar óvenjulega sjón bar fyrir augu.
Í dimmum sjó á 800 metra dýpi sáu þau ljós frá djúpsjávarkörtufiski og næstu 25 mínútur fylgdu þau honum gegnum upptökuvél. Líffræðingar hafa síðan staðfest að um var að ræða tegundina Caulophryne jordani.
Hann og hún samvaxin
Þekking á þessum fiskum hefur fram að þessu takmarkast við dauða fiska sem lent hafa í veiðarfærum og upptakan vekur því mikinn fögnuð, ekki síst vegna þess að þetta var ekki bara einn fiskur heldur tveir, hrygna og hængur.
Það er erfitt að finna maka á þessu mikla dýpi og þegar það loksins gerist bítur hængurinn sig fastan í hrygnuna og losar ýmis ensím, sem leysa að hluta upp roðið á báðum fiskunum.
Roðið grær svo aftur og þá hafa hrygnan og hængurinn gróið saman og nánast orðið að einni lífveru. Það sem eftir er ævinnar virkar hængurinn sem sæðisbanki fyrir hrygnuna og fær í staðinn frá henni þá næringu sem hann þarf.
Sæðisbankinn með eigin vilja
Líffræðingar hafa aldrei áður getað skoðað þetta sérkennilega samlíf meðan fiskarnir eru enn með lífi og það kom þeim talsvert á óvart að þrátt fyrir samgróninginn hefur hængurinn áfram hreyfigetu sem er óháð hreyfingum hrygnunar.
Hrygnan á upptökunni er um 16 sm löng, en þær stærstu getað orðið náð 20 sm lengd. Hængurinn er mun smávaxnari, aðeins 1,6 sm að lengd.