Lifandi Saga

Áhugamenn finna ótrúlega fjársjóði

Draumurinn um falinn fjársjóð hefur löngum ýtt fólki út í leit að gulli og gersemum. Flestir hafa fátt annað en vonina upp úr krafsinu en einstaka hefur þó heppnina með sér.

BIRT: 16/02/2024

Glitrandi gullhringar, gimsteinum prýddar kórónur, svo og staflar af skínandi mynt. Gull eyðist ekki, andstætt við flest önnur efni og fyrir vikið er gull mikilvæg heimild um fortíðina og þá sem lifðu í henni.

 

Fornleifafræðingar hafa safnað ógrynni þessa skínandi og ævarandi málms. Þess ber þó að geta að margir aðrir en fræðimenn hafa tekið þátt í slíkri söfnun.

 

Margt af því mikilvægasta og almerkasta gulli sem hefur fundist, hefur ofur venjulegt fólk fundið sem hefur nánast hrasað um gullfund sinn, sumir jafnvel í orðsins fyllstu merkingu. Hefði skarpskyggni og heiðarleika þessara einstaklinga ekki verið fyrir að þakka er hætt við að umræddir fjársjóðir hefðu verið mannkyninu týndir um ókomna tíð.

 

1. Noregur

Skurðgrafarar fundu merkan víkingafjársjóð

Skurðgröftur er líkamlega erfitt starf. Erfiðisvinna þessi borgaði sig þó svo um munaði hjá fátækum leiguliða sem hafði þann starfa sumarið 1834 að ræsa fram akra við býlið Nedre Hoen í héraðinu Efri Eiker í suðausturhluta Noregs. Meðan á uppgreftrinum stóð rak Halvor nefnilega tréskóflu sína í mesta víkingafjársjóð sem fundist hefur í Noregi.

 

Ofan í rakri moldinni fann maðurinn hálshring, nokkra armhringa, gullpeninga, fingurhringa, spennur og aðra skartgripi – alls 2,5 kg og nánast allt úr skíragulli.

 

Meðal gersemanna var m.a. barmnæla sem mótuð var eins og þriggja blaða smári og telst vera eitt fegursta dæmið um frakkneska gullsmíðalist. Fornleifafræðingar telja fjársjóðinn hafa verið grafinn í jörðu á tímabilinu 875 til 900 eftir Krist. Hvort um var að ræða söluvarning, ránsfeng eða fórnir til guðanna liggur ekki ljóst fyrir.

 

Á því leikur þó enginn vafi að fjársjóðsfundurinn var finnandanum mikið lán. Þó svo að eiganda akursins hafi réttilega borið fundarlaunin, skipti hann þeim með Halvor Torstensen. Upphæðin samsvaraði 49 árslaunum venjulegs leiguliða og gerði Halvor kleift að kaupa sitt eigið býli.

 

2. Danmörk

Kniplingagerðarkona hrasaði um þriggja kílóa þungt gullhorn 

Hinn 20. júlí árið 1639 hrasaði ung kniplingagerðarkona, að nafni Kerstin Svendsdatter, um merkasta gullfund gjörvallrar Danmerkursögunnar. Hún var stödd á akri í grennd við Gallehus á Suður-Jótlandi þegar hún rak fótinn í eitthvað hart.

 

Hún skóf moldina frá og þá birtist 3,2 kg þungt gullhorn. Stúlkan lét húsbónda sinn hafa hornið en hann aftur á móti sendi það til konungsins.

Kniplingagerðarkonan Kirsten Svendsdatter fann fyrsta gullhornið á túni einu árið 1639. Konungur gaf henni pils í fundarlaun.

Hartnær 100 árum síðar, árið 1734, fann vinnumaður að nafni Erik Lassen enn þyngra horn á sama akri. Gullhornin tvö voru varðveitt á listaverksafni Kristjánsborgarhallar, allt þar til í maí árið 1802 þegar gullsmiður í fjárþörf stal þeim og bræddi upp.

 

Til allrar hamingju hafði vísindamaðurinn Ole Worm gert nákvæman uppdrátt af hornunum árið 1734 og teikningarnar gerðu kleift að smíða nákvæma eftirlíkingu af þeim.

 

Sérfræðingar töldu hornin hafa verið smíðuð á 5. öld og sögðu þau að öllum líkindum hafa verið notuð við trúarlegar athafnir. Eftir þennan gullfund breyttist sýn fræðimanna á íbúana í Danmörku á fyrri hluta járnaldar sem fram til þessa höfðu verið taldir vera frumstæðir og fátækir.

 

3. Þýskaland

Verkamenn fundu bronsaldarfjársjóð á eins metra dýpi

Þegar verkamenn nokkrir grófu grunn fyrir verksmiðjubyggingu í þýsku borginni Eberswalde norðaustur af Berlín árið 1913 varð svolítið dularfullt á vegi þeirra. Um það bil metra undir yfirborðinu rákust þeir á stórt leirílát með loki á. Verkamennirnir losuðu lokið varfærnislega og þá brá þeim verulega í brún.

 

Í leirílátinu var nefnilega að finna einstakan fjársjóð – alls 73 skálar, armhringa og aðra skartgripi úr skíragulli. Fjársjóðurinn er sá mesti sem nokkru sinni hefur fundist í Þýskalandi en hann vó alls 2,59 kg og átti samkvæmt sérfræðingum rætur að rekja til 9. aldar fyrir Krist. Líklegt þykir að munirnir hafið verið notaðir við trúarlegar athafnir á bronsöld.

 

Verkamennirnir sem fundu þessa einstæðu muni fengu síðan 10.000 þýsk gullmörk í fundarlaun en það samsvaraði sex árslaunum fyrir faglærðan verkamann.

 

Eberswalde-gullið var síðan varðveitt í forsögulega safninu í Berlín þaðan sem það raunar hvarf án nokkurra verksummerkja eftir seinna stríð. Árið 2004 fann blaðamaður fjársjóðinn í leynilegu herbergi í Pushkin-safninu í Moskvu. Þar er hann enn að finna.

 

4. Svíþjóð

Verðmætasti gullfjársjóður  Svíþjóðar færði vinnumönnum auðævi

Í nóvember árið 1904 höfðu vinnumennirnir Carl Wernlund, Per Rythén og C.H. Lantz þann starfa að jafna út malarbing í grennd við Timboholm á Vestur-Gotlandi í Svíþjóð. Skyndilegt hlé varð á verki þeirra þegar Wernlund kom auga á glitrandi mun. Í ljós kom að um var að ræða keðju gerða úr gullhringum.

 

Þegar fornleifafræðingar rannsökuðu svæðið skömmu síðar fundu þeir 26 gullhringa og tvær gullstangir. Alls vó gullið 7,4 kg sem er mesti gullfjársjóður sem fundist hefur í sænskri jörð.

 

Ef marka má sérfræðinga bendir skírleiki gullsins til að um hafi verið að ræða rómverska gullpeninga, svokallaða „solidus-peninga“ sem hafi verið bræddir upp á 5. öld. Þetta mikla magn gulls, þ.e. 7,4 kg, hefur krafist minnst 1.500 slíkra gullpeninga sem álitið er að hefði nægt til að greiða 300 rómverskum hermönnum laun í heilt ár.

 

Gullpeningarnir hafa að öllum líkindum borist til Svíþjóðar sem gjafir til tiginna manna eða sem ránsfengur. Mennirnir þrír fengu fyrir sinn snúð alls 20.000 sænskar krónur sem þeir skiptu með sér en upphæðin samsvarar á að giska einni milljón sænskra króna að núvirði.

 

5. Búlgaría

Bræður fundu fjársjóð Þrakíukonungs

Í desember árið 1949 unnu bræðurnir Pavel, Petko og Michail Deikov við að grafa upp leir fyrir tígulsteinsverksmiðjuna í búlgarska bænum Panagyurishte, þegar þeir fundu einn stærsta gullfjársjóðinn sem fundist hefur í gjörvallri Evrópu.

 

Ofan í leirnum rákust þeir á sjö skreytta drykkjarbikara, skál og vasa, allt gert úr skíragulli. Munirnir vógu alls 6,1 kg. Bræðurnir héldu fyrst að um látúnsmuni væri að ræða en komust að hinu sanna þegar safnstjórinn á svæðinu kom á staðinn.

 

Sérfræðingar telja munina hafa tilheyrt konungnum Seuthes 3. af Þrakíu en á fornöld náði Þrakía yfir hluta þess sem nú telst til Búlgaríu. Seuthes var uppi á 4. öld fyrir Krist og var einn af síðustu konungum ríkisins áður en það var lagt undir Makedóníu.

 

Ekki er vitað hvers vegna fjársjóðinn var að finna í Panagyurishte en víst er að bræðurnir þrír öðluðust frægð fyrir vikið.

 

6. England

Gullfundur breytti gangi sögunnar í Englandi

Dimmt, dauflegt og fátækt. Þannig lýstu breskir sagnfræðingar löngum Englandi á framanverðum miðöldum. Þessi skoðun átti eftir að taka algerum stakkaskiptum árið 1939 þegar áhugafornleifafræðingurinn Basil Brown stakk uppgraftarskeið sinni í jörðu í grennd við Sutton Hoo í Suffolk í suðausturhluta Englands.

 

Athuganir Browns leiddu í ljós gröf fulla af hinum ótrúlegustu auðævum. Meðal dýrgripanna sem allir áttu rætur að rekja til 7. aldar, var hjálmur með gyllingum, axlaskraut úr gulli og eðalsteinum, ásamt beltissylgju úr ríflega 400 grömmum af gulli.

 

Spennan var skreytt 13 slöngum sem vöfðust hver utan um aðra en um var að ræða vinsælt myndefni á germönskum listmunum þess tíma.

 

Sérfræðingar ætla að gröfin hafi tilheyrt Ráðvaldi, konungi engilsaxneska konungdæmisins Austur-Anglíu. Gullfundurinn varpaði nýju ljósi á fyrrum skoðanir manna um að England hefði einkennst af myrku tímabili, sneyddu listum og menningu.

 

7. Pólland

Ómetanlegar konungsgersemar grafnar í jörðu í pólskum bæ

Karl 4. af Lúxemborg var aðeins 31 árs að aldri þegar hann réð ríkjum yfir Þýskalandi og Bæheimi en tignir titlar nægðu honum þó ekki. Karl sem var ákaflega metorðagjarn, vildi verða keisari yfir heilaga þýsk-rómverska ríkinu sem fól í sér yfirráð yfir mestallri Evrópu.

 

Í því skyni að ná þessu markmiði sínu hafði Karl þörf fyrir fé – í rauninni vantaði hann ógrynni fjár. Konungurinn tók fyrir vikið mikið lán hjá gyðingum og er hann meira að segja sagður hafa veðsett kórónu eiginkonu sinnar. Áform hans heppnuðust, því Karl var krýndur sem rómverskur keisari í apríl árið 1355.

 

Veðsettu eignirnar gufuðu hins vegar upp og komu fyrst aftur í ljós árið 1988 þegar verkamenn sem störfuðu við að rífa hús rákust á fjársjóð sem samanstóð af gulli og silfri og grafinn hafði verið í jörðu í pólska bænum Sroda Slaska.

 

Bær þessi heyrði undir Bæheim á 14. öld og sagnfræðingar telja veðmangara af gyðingaættum hafa grafið fjársjóðinn í jörð á tímum gyðingaofsókna sem geisuðu í kjölfarið á Svartadauða sem braust út árið 1347.

 

Meðal þeirra muna sem fundust aftur voru kóróna sem tilheyrði fyrrverandi eiginkonu Karls 4. Fjársjóðurinn í Sroda Slaska er álitinn vera allt að 100 milljón Bandaríkjadala virði.

 

8. Holland

Peningar frá örlagaríku tímabili Rómarveldis á ávaxtaplantekru

Málmleitartækið gaf frá sér kunnugleg hljóð árið 2016 þegar hollenskur áhugafornleifafræðingur, að nafni Mark Volleberg, rannsakaði jarðveginn við ávaxtaplantekru eina. Volleberg tók upp skóflu sína og skömmu síðar hafði hann fundið 23 rómverska „solidus“ peninga úr gulli.

 

Þegar gullfundurinn var tilkynntur upplýstu tveir aðrir málmleitarmenn að þeir einnig hefðu fundið „solidus“-peninga á sama stað. Þegar allt var talið saman kom í ljós að ýmsir aðilar höfðu fundið alls 42 gullpeninga á þessu svæði, þannig að um var að ræða verðmætasta gullpeningafundinn í gjörvöllu Hollandi.

 

Rannsóknir leiddu í ljós að yngstu gullpeningarnir áttu rætur að rekja til daga Júlíusar Majorianusar keisara en hann lést árið 461, einungis 15 árum eftir fall vestrómverska ríkisins.

 

Ef marka má sérfræðinga kunna gullpeningarnir að hafa verið notaðir til þess að greiða frakkneskum stríðsmönnum fyrir aðstoð þeirra við rómverska hershöfðingja í örvæntingarfullri baráttu þeirra síðarnefndu gegn öðrum stríðandi fylkingum sem réðust inn á ríkið á þessum tíma.

 

9. Ísrael

Logagylltir gullpeningar veittu nýja vitneskju um fornaldarborg

Glitrandi sælgætisbréf? Þetta var fyrsta hugboð kafarans Zvika Fayers þegar hann sá glitta í eitthvað á hafsbotni úti fyrir fornaldarborginni Caesarea árið 2015 þar sem nú heitir Ísrael. Þegar Fayer tók hlutinn upp sá hann strax að grunsemd hans reyndist ekki vera rétt.

 

Glitrandi munurinn reyndist nefnilega vera gullpeningur, svokallaður „dínar“ frá 11. öld sem sleginn hafði verið í íslamska kalífadæminu sem nefndist Fatimide. Næstu daga þar á eftir tókst ísraelskum fornleifafræðingum, með aðstoð Fayers, að ná upp rösklega 2.000 áþekkum peningum.

 

Gullfundur þessi kom fræðimönnum verulega á óvart. Caesarea hafði tekið við hlutverki Jerúsalemborgar sem helsta borg svæðisins á dögum Rómverja. Fræðimennirnir höfðu hins vegar talið borginni hafa hnignað eftir að múslímar náðu völdum yfir henni árið 640.

 

Gullpeningar Fayers sem hefðu getað nægt fyrir launum 2.000 hermanna í heilan mánuð á þessum tíma, hafa sennilega fallið útbyrðis úr kaupskipi en þeir gefa til kynna að Caesarea hafi enn verið mikilvæg og mikið notuð hafnarborg á 12. öld.

 

10. Bandaríkin

Einþykkur Bandaríkjamaður fann gullflota Spánverja

Hinn 31. júlí árið 1715 sukku ellefu skip í sjó úti fyrir austurströnd Flórída í óveðri sem þar geisaði. Um borð í skipunum voru 1.500 sjómenn sem allir drukknuðu og þar hafði einnig verið að finna ógrynnin öll af gulli, silfri og öðrum gersemum frá landareignum Spánverja í Ameríku.

 

Spænskum björgunarmönnum tókst skömmu síðar að ná verulegum auðævum upp úr þeim skipsflökum sem lágu á litlu dýpi og unnt var að komast að. Mestallur fjársjóðurinn lá hins vegar áfram á hafsbotni.

 

Þar lá hann enn undir lok 6. áratugar síðustu aldar þegar verktaki að nafni Kip Wagner fann veðraðan spænskan silfurpening á ströndinni fyrir framan heimili sitt í Wabasso í Flórída. Skömmu síðar rak svo á fjörur hans fleiri peninga sömu tegundar.

 

Wagner þekkti frásögnina af skipbrotinu árið 1715 og ákvað að freista þess að finna fleiri gullpeninga. Hann leigði litla einkaflugvél, kom sér upp gömlu sjókorti sem hann fann á þjóðskjalasafninu og hóf að leita meðfram strandlengjunni.

 

Lánið lék við hann og honum tókst að ná upp úr sjónum ótalmörgum gullmunum, m.a. 10.000 spænskum gullpeningum sem er mesta magn sinnar tegundar sem fundist hefur í einu. Enn er ekki búið að leita á öllu skipbrotssvæðinu og fjársjóðsleitendur finna enn gull á fjöru.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen

© Imageselect,© Christian Ringbæk/Ritzau Scanpix,© Niels Simonsen, 1859, Statens Museum for Kunst, open.smk.dk, public domain,© Andreas Praefcke,© Historiska museet,© Maurice Savage/Imageselect,© Shutterstock,© Forum Polska Agencja Fotografów,© VU & Shutterstock,© Ariel Schalit/AP/Ritzau Scanpix,© Bob Gomel/Shutterstock/Ritzau Scanpix & Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

Náttúran

Greind í heimi dýranna

Alheimurinn

Hér eru sannanirnar fyrir Miklahvelli

Náttúran

Nýfundin risaeðla með furðu smáa framlimi

Lifandi Saga

Veislubúningar varðmanna Nixons aðhlátursefni

Náttúran

Hvað eru doppleráhrif?

Spurningar og svör

Af hverju eru sítrónur súrar?

Maðurinn

Hvernig framleiðir líkaminn orku úr fæðunni?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.