49 árum eftir að síðustu geimfararnir yfirgáfu tunglið hafa nýjar greiningar á sýnum frá Apollo-leiðöngrum NASA upp úr 1970 gjörbreytt hugmyndum manna um forsögu tunglsins.
Öfugt við jörðina hefur tunglið nú ekki neitt segulsvið til verndar gegn geimgeislun.
En á áttunda áratugnum athuguðu stjarnjarðfræðingar þá steina sem Apollo-geimfarar höfðu flutt þaðan og komust að þeirri niðurstöðu að tunglið hefði haft mjög öflugt segulsvið fyrir um 3,7 milljörðum ára.
Fyrstu greiningarnar á sýnunum sem safnað var á tunglinu árið 1972 sýndu að tunglið hafði eitt sinn öflugt segulsvið. Nú hefur komið í ljós að sú tilgáta var röng.
Kenningin byggðist á því að fundist höfðu ummerki um segulmögnun í steinum frá tunglinu.
Af því drógu menn þá ályktun að í kjarna tunglsins hefðu verið fljótandi, rafleiðandi efni sem hefðu getað viðhaldið stöðugu segulsviði rétt eins og rafsegull gerir.
Nýjar greiningar sýna nú að mönnum skjátlaðist í þessu efni. Annars vegar er nú vitað að kjarni tunglsins er að líkindum of lítill og þéttur til að geta haft rafseguláhrif og hins vegar má hugsa sér miklu líklegri skýringar á segulmögnun þessara steina.
Ósegulmagnaðir steinar á tunglinu hafa orðið segulmagnaðir þegar þeir komust í snertingu við segulmagn.
Tungleiðangur árið 2024
Ástæða þess að greina má ummerki segulmögnunar á tunglinu er sú að þar hafa fallið niður segulmagnaðir loftsteinar og halastjörnur um milljarða ára.
NASA skipuleggur nú leiðangur til tunglsins 2024 og þessi nýja uppgötvun er áhugaverð fyrir slíka framtíðarleiðangra. Fjarvist segulsviðs merki nefnilega að á tunglinu er sennilega meira af sjaldgæfum málmum en álitið hefur verið.
382
kg af efni frá tunglinu tóku geimfarar Apollo-leiðangranna upp úr 1970 og fluttu með sér til jarðar.