Fiskveiðar losa 25% meiri koltvísýring en áður var talið, ef marka má niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem gerð var af vísindamönnum við Kaliforníuháskóla og Montpellier háskólann í Frakklandi.
Sá koltvísýringur sem fiskurinn losar eftir að hann hefur verið veiddur hafði nefnilega ekki verið talinn með til þessa.
Kolefni geymist á hafsbotni
Til þessa hefur einkum verið einblínt á kolefnisfótsporið sem verður til vegna eldneytisnotkunar fiskiskipanna. Ef marka má vísindamenn hefur hluti af útgerðarmenguninni alveg gleymst en með því er átt við að fiskar fela í sér kolefni líkt og allar aðrar lífverur.
Stórir fiskar, í líkingu við túnfiska, hákarla og sverðfiska, fela til dæmis í sér allt að 15% af kolefni. Þegar fiskarnir eru dregnir á land og brotna smám saman niður, t.d. þegar þeir rotna eða eru snæddir, mun kolefnið að endingu bindast súrefni og losna út í andrúmsloftið sem koltvísýringur.
Að öllu jöfnu sökkva fiskar annars niður á hafbotn þegar þeir drepast. Þar grafast þeir, ásamt kolefni sínu, undir lag lífrænna agna, svo og steinefnaagna sem fyrirfinnast á hafsbotni. Kolefnið frá dauðu fiskunum er þar með kyrrt og kemst ekki út í andrúmsloftið sem koltvísýringur. Það væri svo ekki fyrr en kolefnið yrði grafið upp sem það hugsanlega gæti losnað úr hafsbotninum.
Fiskarnir nýtast fyrir hringrás kolefnis í umhverfi okkar, þ.e. sem geymslustaður fyrir koltvísýring í sjónum.
Fiskar menga eins og 4,5 milljónir bíla
Rannsóknir vísindamanna á áhrifum hringrásar kolefnis auka skilning manna á kolefnisfótspori fiskveiðanna. Ef koltvísýringslosun fiska er talin með hefur útgerðin losað minnst 730 milljón tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið frá árinu 1950.
Sé einungis litið til ársins 2014 orsakaði útgerðin jafnmikla koltvísýringslosun allt það ár og losunin af völdum 4,5 milljóna bifreiða, svo dæmi sé tekið.
LESTU EINNIG
Gaël Mariani, vísindamaður við Montpellier-háskóla, upplýsti rannsóknarveituna Futurity um það að niðurstöður nýrra rannsókna gæfu til kynna að stunda þyrfti fiskveiðar á afmörkuðum tímabilum með sjálfbærari hætti en tíðkast hefur hingað til. Þá þyrfti einkum að vernda stærri fiska þannig að þeir fengju að deyja eðlilegum dauðdaga og grafa kolefni sitt með sér á hafsbotni.
Góðu fréttirnar eru þær að nánast helmingur af truflun fiskveiða á hringrás kolefnis á sér stað á svæðum þar sem fiskveiðar eru ekki ábatasamar.
Á slíkum svæðum geta fiskveiðar einungis staðið undir sér séu þær styrktar af hinu opinbera, ef marka má vísindamennina.
Fjárhagslega óarðbærar fiskveiðar sem jafnframt reynast umhverfinu skaðlegar, ætti því ekki að vera erfitt að stöðva, ef marka má skynsemisraddir vísindamannanna.