UM SÓLBLETTI
Sólin er í þann veg að hlaða upp í næsta hámark sveiflunnar, líkt og gerist á ellefu ára fresti og þetta gefa dökkir blettir nú þegar til kynna á yfirborði sólar.
Sólblettirnir myndast þar sem öflug og flókin segulsvið eru fyrir hendi en þau koma í veg fyrir að hitinn innan frá streymi út.
Fyrir vikið verða svæði þessi kaldari en umhverfið og virðast fyrir vikið verða dökk í samanburði við það.
Skýring á fyrirbærinu: Sólblettir leysa úr læðingi urmul smáagna
Dökku blettirnir á yfirborði sólar stafa af öflugum segulsviðum sem varpa stormi hlaðinna agna út í sólkerfið.
1. Segulsvið hefta hitaútgeislun í átt að yfirborði sólar og orsaka tiltölulega svöl svæði, þ.e. sólbletti.
2. Meðfram segulsviðinu myndast svonefnd sólgos sem senda frá sér mikla geislun og ofurhraðar róteindir.
3. Sólgosum fylgja í mörgum tilvikum svokallaðar kórónuskvettur sem þeyta gasi langar vegalengdir frá sólu.
Nú í ár má gera ráð fyrir að u.þ.b. 49 sólblettir myndist í mánuði hverjum. Fyrir aðeins einu ári voru blettirnir einungis 16 á mánuði og að ári liðnu má gera því skóna að þeir verði 78.
Búist er við hámarki árið 2025 þegar gera má ráð fyrir 114 sólblettum á mánuði að meðaltali. Segulsvið sólblettanna valda svonefndum sólgosum sem leysa úr læðingi ský ofurhraðra róteinda.
Hér á jörðu kallast fyrirbæri þessi sólstormar. Hraði róteindanna nemur u.þ.b. helmingi af hraða ljóssins en til allrar hamingju ver segulsvið jarðar okkur gegn þeim.
LESTU EINNIG
Í kjölfarið á róteindaskýjum verður oft vart við gastegundir sem varpað er út í svokölluðum kórónuskvettum.
Skvetturnar geta falið í sér milljarða tonna af efni en þó svo að jörðin í raun sé í skotfæri, er ekkert að óttast.
Á hinn bóginn getum við hlakkað til þess að njóta norður- og suðurljósanna sem myndast þegar hlaðnar agnir lenda á frumeindunum í gufuhvolfi jarðar.
UPPLÝSINGAR UM SÓLBLETTI
Dökki kjarninn í sólbletti nefnist alskuggi. Í honum er hitastigið á bilinu 3.500-4.000 °C.
Fyrst og fremst: Gætið augnanna vel! Horfið aldrei beint í sólina og alls ekki í gegnum sjónauka. Notið t.d. sólmyrkvagleraugu eða verðið ykkur úti um kíki með sambærilegri þynnu.
Hægt er að nota lítinn sjónauka með sólarsíu og láta hann hvíla á þrífæti eða t.d. girðingu ef skoða á sólbletti. Sólblettir eru jafnframt sýnilegir með sólmyrkvagleraugum án notkunar kíkis.
Sé ætlunin að ljósmynda sólbletti næst bestur árangur með sjónauka sem útbúinn er sólsíu. Festið myndavél eða snjallsíma á sjónaukann til þess að geta tekið álíka skarpar myndir og hér eru sýndar.