Enginn í litla hafnarbænum Çesme hafði minnsta grun um þá hættu sem fyrir 3.600 árum steðjaði að samfélagi þeirra. Langt úti á Eyjahafi var risavaxin flóðbylgja á leiðinni.
Á meira en 500 km hraða æddi flóðbylgjan í gegnum hafið djúpt undir yfirborðinu. Skipverjar og minni bátar úti á hafi urðu einskis vör – í mesta lagi einhverjar minniháttar drunur.
Það var fyrst þegar flóðbylgjan náði upp á grunnsævi undan Çesme þar sem núna er Tyrkland sem þetta ósýnilega skrímsli reis upp úr hafinu.
Í fyrstu gátu furðu lostnir íbúarnir einungis séð hvíta rönd við sjóndeildarhringinn en síðan reis flóðbylgjan upp. Grunnur sjórinn í flóanum undan Çesme hafði dregið nokkuð úr hraða bylgjunnar en hins vegar þrýstist nú sjórinn upp í allt að fimm metra hæð.
Nú lék enginn vafi á því að hamfarir væru yfirvofandi því um allan bæinn mátti heyra ærandi hávaðann frá hafinu. Og ógjörningur var að flýja.
Risabylgjan æddi inn yfir ströndina og hélt áfram í átt að bænum sem var í minna en 100 km fjarlægð. Einmitt þar stóð ungur 18 ára gamall maður.
Kannski reyndi hann að flýja eða hann vonaðist til að varnarmúr bæjarins myndi vernda hann gegn flóðbylgjunni. Sérfræðingar nútímans vita það ekki. Hitt vita þeir að flóðbylgjan var það síðasta sem hann upplifði.
Beinagrind unga mannsins í Çesme fannst undir rústunum.
Þegar fornleifafræðingar fundu beinagrind hans í ævafornum rústum Çesme árið 2021 vakti það undrun um heim allan.
Samkvæmt forstöðumanni uppgreftrarins, Vasıf Sahoglu, var ungi maðurinn fórnarlamb einhverra verstu náttúruhamfara fornaldar: Eldgosið á grísku eyjunni Þeru sem liggur um 200 km suðvestur af Çesme og nefnist núna Santorini.
Eldgosið var svo öflugt að stór hluti eyjunnar sökk niður í hafið og kann þetta að vera upphafið að goðsögunni um hið forna Atlantis.
Hamfarirnar orsökuðu margar flóðbylgjur sem trúlega áttu sinn þátt í því að hin öfluga mínóska siðmenning á eyjunni Krít leið undir lok.
Þessar gríðarlegu flóðbylgjur hljóta að hafa drepið þúsundir manna við strendur meðfram austurhluta Miðjarðarhafs. Engu að síður hafa fræðimenn ekki fundið eitt einasta fórnarlamb – fyrr en nú.
Krít var stórveldi Miðjarðarhafs
Á öldunum fyrir eldgosið á Þeru var eyjan mikilvægur verslunarstaður fyrir eina af þróuðustu siðmenningum bronsaldar: mínósku sæfarana.
Mínósk menning blómstraði á eyjunni Krít um 2000 f.Kr. Rannsóknir fórnleifafræðinga sýna að Krít hafði á þessum tímapunkti verið miðstöð verslunar á kopar frá grísku smáeyjunum í Eyjahafi og tini frá Litlu-Asíu. Þessir tveir málmar eru helstu innihaldsefnin í framleiðslunni á bronsi sem var ein eftirsóttasta varan á þessum tíma.
Verslunin með málmana gerði íbúa á Krít afar auðuga og risavaxnar hallir spruttu upp í mörgum bæjum eyjarinnar, þ.á m. í Mallia, Faistos og Knossos.
Veggmálverk frá bænum Akrotini sýna m.a. mínóskan skipaflota sem siglir í fylkingu, mögulega við hátíðarhöld.
Mínóar ferðuðust til hinnar fögru Þeru
Margt bendir til að eyjan Þera hafi verið í hávegum höfð meðal Mínóa á Krít. Þar gátu þeir lagt kaupskipum sínum á leiðinni til og frá gríska Eyjahafinu í norðri og Litlu-Asíu í austri.
Þegar fyrir 6.000 árum lokkaði milt loftslag og gjöful fiskimið menn til Þeru. Í þá tíð var eyjan nánast eins og lokuð skeifa í kringum eldfjallaeyju í miðjunni.
Mögulega varð það einmitt þetta góða hafnarlægi sem dró Mínóa til eyjunnar um 2000 f.Kr. Þar byggðist aðalbær eyjunnar, Akrotiri og varð að mikilli verslunarmiðstöð. Kaupmenn á leiðinni milli Eyjahafs og Krítar lögðust við höfn Þeru og skiptust á vörum í ríkum mæli.
Fundur á styttum bendir til að Þera hafi verið mikilvægur verslunarstaður með kopar sem ásamt tini var notað í brons. Viðskiptin gerðu eyjuna afar stönduga – Akrotiri hafði fráveitukerfi og mörg steinhúsanna voru skreytt með litríkum veggmálverkum.
Eftir eldgos sem var um 1600 f.Kr. var Þera yfirgefin. Síðar hafa fornleifafræðingar grafið upp yfirgefnar mublur og stórar krukkur undir þykku öskulaginu. En til þessa hafa engin lík manna fundist.
Aliquam sit amet aliquet lacus. Nunc sit amet tincidunt enim. Maecenas eget dignissim dolor, non varius tortor. Fusce nec pretium quam, sit amet condimentum mi.
Þegar fornleifafræðingurinn Arthur Evans gróf upp Knossos-höllina í byrjun 20. aldar fann hann einstök veggmálverk, með m.a. ungum mönnum og konum sem sýna fimi sína á baki risastórra nauta. Veggmálverkin, ásamt fundi á táknrænum nautshornum, benda til að Krít hafi verið miðstöð átrúnaðar á nautgripi.
Þessi sérstaka menning, ásamt völundarhúsinu í Knossos höllinni minntu Arthur Evans á grísku goðsögnina Mínós konung á Krít en eiginkona hans fæddi son sem var hálfur maður og hálft naut.
Samkvæmt goðsögunni lokaði Mínós konungur skrímslið sem fékk nafnið Mínótaur, inni í völundarhúsi í höllinni. Goðsögnin fékk Evans til að nefna þessa nýfundnu siðmenningu, „mínóska“.
Ein frægasta veggmynd Knossos-hallarinnar.
Þökk sé heppilegri staðsetningu Krítar í miðjum austurhluta Miðjarðarhafs gátu Mínóar verslað með vörur, við bæði Grikki frá fastalandinu, Egypta og fjölmargar aðrar þjóðir í Miðausturlöndum. Á skömmum tíma var Krít þannig verslunarveldi með öflugan flota sem sigldi með verslunarvarning um allt austanvert Miðjarðarhaf.
Á siglingum sínum stofnuðu Mínóar bæi og verslunarstöðvar á grísku smáeyjunum og var ein mikilvægasta þeirra stofnuð um 140 km norðan við Krít á eyjunni Þeru.
Þar byggðist bærinn Akrotiri með húsum, veggmálverkjum og steinilögðum götum í mínóskum stíl. Um árið 1600 f.Kr. er talið að bærinn hafi talið allt að 30.000 íbúa.
En djúpt niðri í jörðinni undir Þeru blunduðu hamfarirnar.
Þera var tifandi sprengja
Þegar Mínóar settust niður á Þeru höfðu þeir enga hugmynd um að þessi gróskumikla eyja væri á hættulegu misgengi á flekaskilum – milli hins afríska og þess evrasíska. Í fortíðinni höfðu þessir tveir flekar orsakað öfluga jarðskjálfta og eldgos.
Mitt í blátærum flóanum þar sem skip Mínóa lögðust að bryggju var lítil eyja sem var leifarnar af ævafornu eldfjalli. Þar hafði ekki gosið í manna minnum þannig að enginn íbúanna vissi að þeir byggju á sannkallaðri sprengju með óskiljanlegu afli.
„Hverirnir sem voru á eyjunni fyrir eldgosið urðu skyndilega mun heitari og svo komu fjölmargir jarðskjálftar“
Samkvæmt Walter Ludwig Friedrich jarðfræðingi við Árhúsaháskóla
Samkvæmt Walter Ludwig Friedrich jarðfræðingi við Árhúsaháskóla fengu íbúarnir þó torræða viðvörun nokkrum mánuðum fyrir eldgosið.
„Hverirnir sem voru á eyjunni fyrir eldgosið urðu skyndilega mun heitari og svo komu fjölmargir jarðskjálftar“ útskýrir hann fyrir Lifandi sögu.
Vísindamannateymi Friedrichs var fyrst til þess að slá því föstu að bronsaldareldfjallið á Þeru var ekki að finna á Þeru sjálfri heldur á aðskildri eyju í flóanum sem var umlukin af hinni hringlaga Þeru.
Fornleifafræðingar hafa í meira en 150 ár grafið í höfuðborg Þeru, Akrotiri sem kallast stundum Pompeii bronsaldar. En ólíkt hinum fræga rómverska eldfjallabæ hafa sérfræðingarnir ekki fundið eitt einasta fórnarlamb í Akrotiri.
„Við reiknum með að Mínóar hafi náð að flýja“, útskýrði Friedrich.
Samkvæmt jarðfræðinni hefur gríðarlegur hávaði borist frá eldgosinu, „þannig að íbúarnir gerðu sér skjótt grein fyrir hættunni“, útskýrir Friedrich.
Í Akrotiri hafa fornleifafræðingar fundið tröppur og húsveggi sem hafa hrunið í jarðskjálftanum.
Þegar fornleifafræðingarnir grófu upp helstu borg Thera, Akrotiri, fundu þeir stór hús og malbikaðar götur. Húsin voru grafin undir þykku lagi af vikur og ösku frá eldfjallinu.
Mínóar hafa mögulega náð að sigla burt í fyrsta fasa eldgossins en síðan fylgdi því risavaxin súla úr glóandi ösku, gasi og vikri sem þeyttist lóðrétt upp í loftið frá eldfjallinu.
Vindurinn blés öskuskýinu alla leið norðaustur til strandar Tyrklands. Fornleifafundir í Akrotiri sýna að síðustu íbúarnir náðu að fjarlægja matvörur og aðrar eigur sínar áður en þeir flúðu.
En síðan skullu hamfarirnar á.
Flóðbylgja stefndi að Litlu-Asíu
Ólíkt t.d. eldfjallinu Vesúvíusi sem gjöreyddi rómversku borginni Pompeii árið 79 e.Kr., er ekki að finna neina sjónarvotta frá eldgosinu í Þeru. En á eyjunni er 60 metra þykkt lag af ösku til vitnis um þá ægilegu krafta sem þarna voru að verki.
Samkvæmt sérfræðingum náði eldgosið á Þeru gildinu 7,1 af 8 á svonefndum VEI-skala sem mælir m.a. magn hrauns og gass sem þeytist upp.
Til samanburðar fær eldgosið í Vesúvíusi gildið 5. Það felur í sér að eldgosið á Þeru hafi verið meira en 100 sinnum ofsafengnara og þar með eitt af þeim sem hefur valdið hvað mestri eyðileggingu á sögulegum tímum.
Vísindamenn eru ekki sammála um hvernig eldgosið gekk fyrir sig. En ljóst er að hin risavaxna öskusúla sem þeyttist upp úr eldfjallinu í fyrsta fasa gossins náði í allt að 40 km hæð í loft upp.
LESTU EINNIG
Eftir því sem öskusúlan fór hærra kólnaði hún niður og að lokum hélst askan ekki lengur á lofti. Þessi gríðarlega súla hrundi yfir eyjuna og rann á ofsahraða eftir hlíðum eldfjallsins og áfram út í hafið.
Samtímis víkkaði gígurinn, barmar hans tóku að springa og það varð til þess að sjórinn náði inn í rauðglóandi iður eldfjallsins. Snertingin milli sjávarins og mörg þúsund gráðu heitrar kvikunnar inni í eldfjallinu orsakaði þannig ægilegar sprengingar og hraunklumpar sem voru meira en einn metri í þvermál þeyttust í gegnum loftið og moluðu múra í Akrotiri – í um 10 kílómetra fjarlægð.
Að lokum hafði svo mikið efni kastast út úr eldfjallinu að bæði kvikuhólfið og gígurinn hrundu saman. Sjórinn fossaði þá óhindrað niður í heitt eldfjallið og framkallaði ægilega sprengingu sem tætti Þeru í þrjá hluta.
Þera fornaldar skiptist nú í eyjarnar Santorini – Þerasia og Aspronisi. Í miðjum flóanum eru tvær litlar eldfjallaeyjar sem mynduðust síðar.
Trúlega var það hrun öskusúlunnar og þær skriður sem fylgdu í kjölfarið sem leystu úr læðingi fyrstu og stærstu flóðbylgjuna. Við hrunið fór feiknarlegur vatnsmassi á hreyfingu og myndaði gríðarlega flóðbylgju sem stefndi í átt að m.a. Çesme á vesturströnd Tyrklands 227 km frá eldgosinu.
Bylgjan gleypti unga manninn
Á tímanum fyrir eldgosið var strandbærinn Çesme-Baglararasi sem liggur í núverandi borginni Çesme, tengipunktur fyrir verslun svæðisins. Þegar fornleifafræðingurinn Vasıf Sahoglu frá háskólanum í Ankara tók að grafa árið 2009 á svæðinu hafði enginn fundið eitt einasta fórnarlamb frá þessum hamförum.
Fyrstu fundir af vel varðveittum húsum og götum í Çesme bentu heldur ekki til tengingar við Þeru. En síðan tóku ummerkin um hamfarir að dúkka upp: hrundir múrar, þykkt öskulag, brotnir leirpottar og aðrir munir.
Þegar vísindamenn rannsökuðu öskulögin nánar fundu þau agnarsmá brot af glerungi í öskunni sem er einkennandi fyrir eldgos. Jafnframt sýndu kolefnis-14 greiningar á lífrænu efni í jarðlögunum að hamfarirnar urðu ekki síðar en 1612 f.Kr.
LESTU EINNIG
Ártalið samsvarar aldursgreiningu eldgossins sem Walter Ludwig Friedrich hefur einnig tímasett. Á Þeru fann Friedrich og teymi hans árið 2006 kolaleifar af tveimur ólífutrjám í lagi af ösku sem eldfjallið tengdi við eyjuna. Trén voru aldurstengd til 1613 f.Kr. +/- þrettán ár.
„Þetta er núna sú nákvæmasta aldursgreining sem við höfum vitneskju um“, útskýrir Friedrich.
Fyrir Sahoglu og teymi hans í Çesme kom loksins nokkuð markvert í ljós árið 2021 þegar það fannst beinagrind af ungum manni sem lá grafinn í lagi af eðju og múrbrotum. Drengurinn sneri andliti niður að jörðu og var með áverka sem samsvara þeim er finnast oft á fórnarlömbum flóðbylgja nútímans, eftir að hafa lamist í gegnum húsarústir með flóðbylgjum.
Þetta, ásamt fundi á skeljum og svifi úr hafi meðal múrbrotanna, sannfærði Sahoglu um að þeir hefðu fundið þarna fyrsta fórnarlamb hamfaranna í Þeru.
„Það var í rauninni ekki hæð flóðbylgjunnar heldur umfang hennar sem rústaði staðnum“.
Vasıf Şahoğlu fornleifafræðingur um flóðbylgjuna við Çesme.
Nærri þessu 18 ára gamla fórnarlambi var að finna beinagrind af hundi sem fannst í niðurhrundu dyraopi. Rétt fyrir ofan manninn virtist vera sem einhver hafi grafið holu. Mögulega var það einhver eftirlifandi í leit að vinum eða ættingjum. Sá hafði þó gefist upp á uppgreftrinum einungis einum metra fyrir ofan lík unga mannsins.
Hve há flóðbylgjan var þegar hún skall á byggðinni vita vísindamenn ekki með vissu en giska á um 5 metra.
„Það var í rauninni ekki hæð flóðbylgjunnar heldur umfang hennar sem rústaði staðnum“, segir Vasıf Sahoglu.
„Bærinn snýr ekki beint að flóðbylgjunni sem kom úr suðri. Flóðbylgjan barst inn í flóann og þar sem rýmið þar er takmarkað jókst styrkur hennar. Eyðileggingarmáttur flóðbylgjunnar var skelfilegur“ útskýrir hann.
Çesme var yfirgefin
Rannsóknir Sahoglus sýna að Çesme varð fyrir minnst fjórum flóðbylgjum. Sú fyrsta og stærsta skall á varnarmúrunum og byggingum að baki þeim með svo miklum krafti að veggirnir hrundu saman og ungi maðurinn glataði lífi sínu.
Fáeinum tímum síðar kom næsta flóðbylgja og nokkru seinna fylgdi sú þriðja og öllu minni. Þegar sjórinn kyrrðist að endingu sneri hópur eftirlifandi manna heim og byrjaði að grafa eftir hinum látnu.
En friðurinn var skammvinnur. Eftir nokkra daga kom síðasta öfluga flóðbylgjan sem fyllti upp í holurnar eftir leit íbúanna að ættingjum sínum.
Fyrir utan Çesme hafa vísindamenn til þessa einungis fundið sex staði með greinileg spor eftir flóðbylgjurnar, þar af þrjá öllu sunnar á tyrkneskri strönd og þrjá á norðausturhluta Krítar.
„Við erum vissir um að það muni finnast fleiri fórnarlömb víðsvegar við Eyjahafið“.
Vasıf Şahoğlu fornleifafræðingur um týnd fórnarlömb Thera hörmunganna.
Á þessum stöðum hafa fornleifafræðingarnir þó ekki fundið nein fórnarlömb, þrátt fyrir að flóðbylgjurnar hljóti að hafa kostað þúsundir manna lífið meðfram austurströndum Miðjarðarhafs samkvæmt sérfræðingum. Ein kenning er sú að þau fórnarlömb sem ekki fóru í hafið hafi mögulega verið lögð í fjöldagrafir sem hafa ekki fundist.
Vasıf Sahoglu er í engum vafa um að þær muni koma síðar í ljós:
„Við erum vissir um að það muni finnast fleiri fórnarlömb víðsvegar við Eyjahafið. Við teljum að mörg þeirra hafi þegar fundist en að uppgreftirnir hafi einfaldlega ekki verið tengdir við hamfarirnar fyrr en nú“.
Samkvæmt fornleifafræðingum höfðu flóðbylgjurnar einnig langvarandi afleiðingar fyrir Çesme.
Á næstu mánuðum eftir eldgosið var líklega ómögulegt að veiða í Eyjahafi vegna þess gríðarlega magns af brennisteini, trjám og rústum sem var að finna í hafinu. Saltur sjórinn hafði auk þess eyðilagt landbúnaðarsvæði næst hafinu.
Eftir hamfarirnar var Çesme því yfirgefinn í minnst 100 ár. En þessi litli bær varð samt ekki verst úti þegar þessi ósköp gengu yfir.
Samkvæmt Platoni hvarf Atlantis í hafið eftir flóðbylgur og jarðskjálfta. Lýsingin minnir á endalok Þeru.
Sprungin eyja er kannski hin horfna Atlantis
Samkvæmt gríska heimspekingnum Platoni hvarf hið volduga ríki Atlantis í hafið. Margir telja að Þera kunni að hafa verið þessi goðsagnakennda eyja.
Árið 360 f.Kr. ritaði heimspekingurinn Platon samræðurnar „Krítías“ og „Tímajos“ en í báðum bókunum er minnst á hið horfna eyríki Atlantis. Samkvæmt Platoni myndaðist þar voldug siðmenning sem réði ríkjum á hafi með miklum flota.
Platon greinir einnig frá því að á Atlantis hafi verið að finna þróaðan og íburðarmikinn arkitektúr og þegar fornleifafræðingar á 19. öld grófu upp nokkurra hæða hús með litríkum veggmálverkum á Þeru kom fram sú hugmynd að hér væri fundin sjálf Atlantis.
Þera hefur einnig önnur líkindi við þetta horfna ríki. Platon lýsir t.d. því hvernig eyjan hafi samanstaðið að sammiðja hringjum þar sem skiptist á sjór og land. Þetta minnir nokkuð á Þeru sem upprunalega lá í hring í kringum eldfjallaeyju í flóanum.
Endalok eyjunnar voru samkvæmt Platoni refsing guðanna fyrir oflæti íbúanna og minna á örlög Þeru:
„En síðar komu miklir jarðskjálftar og flóðbylgjur og á einum degi (…) hvarf eyjan Atlantis í djúp hafsins“, skrifar Platon.
Enn þann dag í dag telja margir sérfræðingar að Þera sé Atlantis rétt eins og Platon ritaði. Efasemdarmenn benda hins vegar á fjölmörg vandkvæði við þá tilgátu. Ein þeirra er sú að Platon telur eyjuna hafa horfið heilum 9.000 árum fyrir hans tíma en Þera rústaðist í eldgosi um 1.200 árum fyrir tíma Platons.
Platon skrifaði einnig að Atlantis hafi verið í Atlantshafi. Raunin er hins vegar sú að Þera er í austurhluta Miðjarðarhafs. Þrátt fyrir þessa ónákvæmni virðist Þera samt enn vera besti kandidatinn fyrir Atlantis.
Endalok mínóskrar siðmenningar
Á mánuðinum eftir eldgosið skyggði öskulag á himni fyrir geisla sólar og leiddi til hungursneyðar á svæðum langt frá Þeru. Aska hefur m.a. fundið í íslögum á Grænlandi og rit frá kínverska Qin-keisaradæminu greinir frá hungri, flóðum og langvarandi þurrkum í Kína á 17. öld f.Kr.
Verst úti varð þó hin mínóska siðmenning á Krít, um 140 kílómetrum sunnan við Þeru. Samkvæmt útreikningum tók það einungis um 13 mínútur fyrir fyrstu flóðbylgjurnar að ná til norðurstrandar Krítar. Fornleifafræðingurinn Alexander McGillivray sem er sérfræðingur í eldgosinu á Þeru, hefur áætlað að hamfarirnar hafi kostað allt að 30.000 mannslíf, bara á strandsvæðum Krítar.
Höllin í höfuðborginni Knossos var 60 metra yfir sjávarmáli og varð ekki fyrir skemmdum en fjölmargir jarðskjálftar sem fylgdu eldgosinu eyðilögðu hluta hallarinnar og bæinn. Þrátt fyrir að Mínóar hefðu lifað af bæði eldgosið og flóðbylgjurnar voru dagar siðmenningarinnar taldnir.
Mínóar skildu eftir sig eilífar minningar
Í höllum Krítar hafa fornleifafræðingar fundið ríkar vísbendingar um háþróaða menningu Mínóa.
Bæði veggmálverk Mínóa og innsigli sýna víðfræga nautafimleika eyjaskeggjanna.
Í Knossos á Krít fann fornleifafræðingurinn Arthur Evans styttu sem táknar annað hvort gyðju eða hofmey.
Fundirnir á Krít sýna hversu mikið Mínóar líktust okkur á mörgum sviðum. Hér má sjá leirstyttu af litlu barni að skemmta sér í rólu.
Þessi 26 cm hái nautahaus er meðal þeirra frægustu frá Knossos.
Rétt eins og í Çesme eyðilagði saltið í flóðbylgjunni líkast nær landbúnaðarsvæði nærri ströndum og vatnsból á staðnum hafa mengast. Þá er nokkuð ljóst að mestur hluti flota Mínóa hafi eyðilagst í þessum hamförum.
Þrátt fyrir að hægt væri að smíða ný skip var eitt helsta vígi Mínóa í viðskiptum, eyjan Þera, gjörónýt.
„Þetta var gríðarlegur skaði. Fyrir eldgosið var Þera mikil verslunarmiðstöð í Eyjahafi en allt í einu var hún horfin“, útskýrir Walter Ludwig Friedrich.
Við þetta bætist að margir aðrir hafnarbæir sem Mínóar áttu í viðskiptum við í austurhluta Miðjarðarhafs hafi einnig orðið illa úti á þessum tíma.
Kóngarnir á Krít gátu því ekki lengur viðhaldið stöðu Mínóa sem stórveldis Miðjarðarhafs. Á gríska fastalandinu tók annað þjóðarbrot, Mýkenar, að hvessa sverð sín.
Um árið 1450 f.Kr. réðust þeir inn í Krít og lögðu eyjuna undir sig. Mýkenska siðmenningin kom smám saman í stað hinnar mínósku og á næstu 350 árum hurfu Mínóar úr sögunni.
Knossos var stærsta höllin á Krít og var einnig um langt skeið stjórnarsetur eyjaskeggja.
Hallir á Krít rústuðust
Á öldunum eftir eldgosið á Þeru voru allar mínóskar hallir á Krít eyðilagðar. Ekki er vitað hverjir voru þar að verki.
Eftir eldgosið á Þeru tókst Mínóum á Krít að endurbyggja hallir og bæi sem höfðu eyðilagst í hamförunum.
Hallirnar voru mikilvægar því í þeim var líklega að finna stjórnsýslustöðvar nærliggjandi svæða. Mögulega voru þær aðsetur stjórnarherra. Hvað sem því líður stóð sá friður ekki lengi.
Á 13. öld f.Kr. voru allar fjórar stærstu hallirnar eyðilagðar í bruna og margar aðrar byggingar lagðar í rúst. Ekki er enn vitað með vissu hverjir voru þar að verki.
Ein tilgátan er sú að íbúar eyjarinnar hafi gert uppreisn gegn drottnurum sínum sem eftir hamfarirnar á Þeru voru ófærir um að brauðfæða alla.
Önnur tilgáta er sú að eyðileggingin tengist innrás frá gríska fastalandinu þar sem herskáir Mýkear hafi löngum reynt að bæla niður völd Mínóa.
Uppgröftur bendir einnig til að Mýkear hafi undir lok 13. aldar nánast tekið yfir öll mikilvægustu búsvæði á Krít.
Um árið 1300 f.Kr. var Knossos-höllin síðast eyðilögð og yfirgefin.
Lesið meira um Þeru og Mínóa
- W.L. Friedrich: Fire in the Sea: The Santorini Volcano: Natural History and the Legend of Atlantis, Cambridge University Press, 2000
- L. Vance Watrous: Minoan Crete: An Introduction, Cambridge University Press, 2021