Flest tengjum við gler sennilega við t.d. glugga. Gler er að finna í náttúrunni en þó ekki sem gegnsætt efni.
Í vísindum hefur orðið gler mun víðtækari merkingu og er einfaldlega samheiti yfir föst efni sem ekki hafa kristalsbyggingu og sýna „glereiginleika“ við hitun. Þetta þýðir að við hitun breytist efnið úr hörðu og brothættu ástandi í seigfljótandi og gúmmíkennt ástand.
Í náttúrunni myndast gler helst í tengslum við eldgos. Til þess þarf efnasamsetning hraunsins að samsvara því sem neðanjarðar yrði að graníti, ef það fengi tíma til að storkna hægt. Þegar þessi glóðheiti hraunmassi þeytist upp á yfirborðið og storknar hratt, myndar hann ekki mismunandi kristölluð steinefni heldur storknar sem einsleitur massi án kristalsbyggingar.
Sérkennilegast þessara glerefna er hrafntinna sem myndast þegar hraun með sérstakri efnasamsetningu snöggkólnar. Þessi bergtegund er svört eða dökkgrænleit. Sé reynt að vinna hrafntinnu brotnar hún tilviljanakennt og myndar oft mjög hvassar broteggjar, mjög svipað því sem tinnusteinn gerir, enda var hrafntinna líka notuð í hnífa eða spjótsodda á steinöld.