Það er hægt að mæla viðbrögð líkamans við sársauka, t.d. púlsinn en ekki sjálfa skynjun sársaukans.
Skynjun okkar á sársauka ræðst nefnilega í samspili líkamlegra, sálrænna og félagslegra þátta. Sársaukinn er alltaf einstaklingsbundinn, mismunandi eftir aðstæðum og því ógerlegt að mæla hann eins og t.d. kólesteról í blóði.
Læknar segja að sársauki sé „það sem sjúklingurinn segir að hann sé“. Þeir geta einungis reynt að skapa sér mynd af sársaukanum með því að láta sjúklinginn lýsa annars vegar óþægindunum og hins vegar hve ákafur sársaukinn sé.
Sjúklingurinn getur t.d. verið beðinn að ákvarða sársaukastigið á kvarðanum 1-10.
Lýsingu sjúklingsins geta læknarnir síðan borið saman við mælingar á þeim líkamlegu þáttum sem unnt er að mæla, svo sem hækkuðum púlsi eða aukinni virkni í tilteknum heilastöðvum.
Stofnunin „Center for Sensory-Motor Interaction“ við Álaborgarháskóla í Danmörku er einn þeirra staða þar sem sársauki er mældur í rannsóknaskyni.
Þar eru tilraunaþátttakendur látnir undirgangast stungur, rafstuð, kulda og hita og skráð hvenær þeir skynja áhrifin og hvenær sársaukinn verður óbærilegur. Hið síðarnefnda kallast sársaukaþröskuldur og hann er reyndar mælanlegur – t.d. liggur hann við 45°C hita.
Í sársaukarannsóknastofunni er líka reynt að afhjúpa sársaukaáhrif ákveðinna sjúkdóma, svo sem krabbameins, mígrenis og kviðverkja. Markmiðið er að þróa nákvæmari aðferðir til verkjastillingar þegar þessir sjúkdómar eru annars vegar.
Hvers vegna sumt fólk er viðkvæmara fyrir sársauka en annað er talið eiga sér ýmsar skýringar.
Lítil virkni, skortur á sjálfstrausti, kvíði og streita hafa neikvæð áhrif á skynjun okkar á sársauka. Nýjar rannsóknir sýna að konur og karlar bregðast ekki eins við sársauka og bæði er mat kynjanna og viðbrögð mismunandi.
Konur í rannsókninni skynjuðu ákafari sársauka en karlarnir en þær áttu á hinn bóginn mun auðveldara með að bregðast við en karlarnir.
Sumir vísindamenn telja að skýringuna á þessari mismunandi sársaukaupplifun kynjanna sé að finna í hormónamun milli þeirra.