María Antonía drottning og fleiri einstaklingar eru sögð hafa orðið hvíthærð nóttina fyrir aftöku þeirra.
Öllum sögunum fylgir að hárliturinn hafi breyst í skyndingu vegna gríðarlegs sálræns áfalls sem fólkið varð fyrir.
Kynhárin urðu hvít
Í einstaka tilvikum var það ekki aðeins hárið á höfðinu sem varð hvítt, en í grein einni frá árinu 1902 er því lýst í breska læknablaðinu British Medical Journal að ung kona hafi orðið fyrir því að kynhár hennar urðu hvít daginn eftir að hún varð vitni að morði á annarri konu.
Vandinn við þessar sögur er sá að eini hlutinn af hári sem er lifandi er rótin, en hana er að finna ofan í hársverðinum. Sjálft hárstráið, sem er dautt, er hins vegar fullt af litarefni.
Litur hárs getur fyrir vikið einungis breyst úr rótinni, jafnframt því sem hárið vex, og slíkt tekur ekki aðeins eina nótt, heldur margar vikur eða jafnvel mánuði.
Hársræturnar tæmast af litarefni
Eftir því sem aldurinn færist yfir okkur fara hársræturnar að framleiða minna af litarefni og hárið verður sífellt ljósara.
1. Liturinn blandast í hársrótunum
Í hársrótunum er að finna litfrumur, svokallaðar sortufrumur, sem framleiða litarefnið melanín. Til eru nokkrar gerðir af litarefninu og það er samsetning þeirra sem ræður hárlitnum.
2. Liturinn vex út með hárinu
Hársræturnar flytja litarefnið í sjálft hárstráið á meðan það vex. Hárstráið samanstendur að öðru leyti einungis af litlausa próteininu keratíni og án mélaníns úr hársrótunum myndi hárið vera með öllu litlaust.
3. Litaforðinn klárast
Þegar aldurinn færist yfir okkur missa litfrumurnar í hársrótunum virkni sína og hárstráin fá í sig minna af melaníni. Hárið missir fyrir vikið lit sinn, allt þar til melanínframleiðslan hættir alveg og hárið verður hvítt.
Þeir sem eru með blettaskalla (alopecia areata) geta þó orðið fyrir því að hárliturinn breytist örar en ella. Sjúkdómurinn veldur truflunum í ónæmiskerfi líkamans, sem leiðir til þess að hann losar sig við hluta af sér, einkum hárin.
Myndin t.h. er tekin sex mánuðum eftir að sjúklingurinn fékk blettaskallakast.
Ekki er vitað hvað veldur, en sjúkdómurinn leggst einkum á hár með litarefnum í. Stór hluti af því hári dettur af og þetta getur gerst á örfáum klukkustundum. Niðurstaðan verður miklu þynnra hár, sem að sama skapi er langtum ljósara en ella.