Þegar 60 metra vindmylluspaði klýfur loftið á 150 km hraða myndast hávaði sem getur orðið mjög óþægilegur fyrir íbúa í grenndinni.
Vindmyllur gefa frá sér hljóð á lágri tíðni (10-60 rið) og innhljóð (4-20 rið). Hljóð sem mannseyrað greinir eru yfirleitt á bilinu frá 50 til 12.500 rið.
Innhljóðið liggur þar með utan þess tíðnisviðs sem við heyrum en nokkuð af lágtíðnihljóðinu getum við þó heyrt. Slík hljóð þekkjum við t.d. sem djúp bassahljóð frá loftþjöppum, spennubreytum eða dísilvélum.
Ef þú stendur mjög nálægt vindmyllu er hávaðinn ámóta og frá sláttuvél eða vélsög en strax í 100 metra fjarlægð er hávaðinn kominn niður í að samsvara venjulegu samtali.
Hávaðinn eykst með stærð – en minnkar með fjarlægð
Stórar vindmyllur hafa hærra en litlar. Hávaði frá 100 metra hárri vindmyllu telst ásættanlegur ef næstu nágrannar eru að lágmarki í 400 metra fjarlægð.
Gargar eins og sláttuvél
Rétt hjá vindmyllunni er hávaðinn ámóta og frá garðsláttuvél, um 105 dB en í 30 metra fjarlægð er hávaðinn svipaður og í hárþurrku (um 90 dB).
Svipað og samræður
í 40-50 metra fjarlægð er hávaðinn kominn niður í 80 dB sem samsvarar ryksugu og í 80-90 metra fjarlægð er hljóðstyrkurinn svipaður og í samræðum fólks.
Líkt og suð í kæliskáp
Í 400 metra fjarlægð er hljóðið frá vindmyllunni komið niður í 40 dB sem samsvarar suði í kæliskáp. Næstu nágrannar 100 metra hárrar vindmyllu búa oftast að lágmarki í 400-500 metra fjarlægð.
Margar rannsóknir hafa sýnt að bæði innhljóðin og lágtíðnihljóðin eru langt innan þeirra marka sem t.d. gilda í vindmyllulandinu Danmörku.
Árið 2014 lögðu vísindamenn hjá MIT í Bandaríkjunum fram viðamikla rannsókn á áhrifum vindmyllna á heilsu fólks.
Niðurstaðan varð sú að hljóðið frá vindmyllum hafi ekki bein áhrif en geti þó valdið nægjanlegu áreiti á sumt fólk til að valda t.d. svefnleysi eða höfuðverk. Aðrar og nýrri rannsóknir hafa sýnt hið sama.
Rannsóknir hafa líka sýnt að sjái maður vindmylluna frá heimili sínu valdi hún fremur óþægindum – en valdi t.d. síður óþægindum ef maður hefur sjálfur peningalegra hagsmuna að gæta.