Það er nú ekki alveg rétt að forfeður okkar hafi ekki burstað tennurnar. Svo langt aftur sem á steinöld hafa fundist merki um að tennur hafi verið hreinsaðar. Á þeim tíma voru forfeður okkar safnarar, veiðimenn og sjómenn.
Þeir lifðu á kjöti, fiski, berjum, ávöxtum og hnetum, en aldrei sykri – nema náttúrusykri í berjum og ávöxtum. Og fornleifafundir frá þeim tíma sýna sumir hverjir glæsilegar tennur án skemmda. En við upphaf landbúnaðar fóru þeir Karíus og Baktus að láta til sín taka fyrir alvöru.
Ástæðan er að bændur borðuðu hafragraut og brauð, þ.e.a.s. mat sem inniheldur kolvetni, sem festist við tennurnar. Rannsóknir sýna t.d. að víkingarnir hafi haft mjög svo skemmdar tennur. Tannburstun hefur þó ekki alltaf verið eins nauðsynleg og hún er í dag. „Skúrkinn“ er hægt að finna í mataræði okkar. Og þar er sykur fremstur í flokki.
Til viðbótar við sælgæti, gos, kökur og annað, fáum við líka mikið magn sykurs úr matvælum sem við tengjum venjulega ekki við sykur. Unnin matvæli innihalda oft á tíðum mikið magn sykurs, til dæmis brauð, pylsur og annað álegg.