Þannig má forðast gular tennur

Ávextir, áfengi, kóladrykkir og kaffi óhreinka Colgate-brosið og skilja eftir sig gulbrúnar litaútfellingar, svo og efni sem tæra glerunginn. Til allrar hamingju er þó unnt að vinna bug á þessu með ýmsu móti.

BIRT: 13/06/2022

LESTÍMI:

4 mínútur

 

Tennurnar skína líkt og nýpússað fílabein á stjörnunum í Hollywood en virðast ekki alltaf jafn skínandi hvítar í baðspeglinum heima hjá okkur.

 

Þó svo að tennur gulni með aldrinum, eðli málsins samkvæmt, þá er hægt að grípa til ýmissa ráða til að forðast dökkar tennur.

 

Hér að neðan má sjá hverjar eru helstu ástæður gulra tanna og hvað unnt er að gera til að vinna bug á þeim.

 

Glerungurinn er lykill að skilningi á gulum tönnum

Ysta lag tannanna, glerungurinn, er harðasta efni líkamans, sem inniheldur 98% hýdroxýapatít, sem er afar harðgert steinefnaform kalsíumfosfats. En þó svo að glerungurinn sé harður er hann samt ekki sléttur og jafn, heldur nánast hrufóttur og fyrir vikið geta utanaðsteðjandi efni hæglega sest á hann  og breytt hvítum lit hans.

1. Forðist litríkar fæðutegundir

Sumar fæðutegundir fela í sér hátt innihald svonefndra krómógena, þ.e. sameinda með miklu litamagni sem setjast fyrir á glerungi tannanna og valda litabreytingum þar.

 

Efni þessi fyrirfinnast einkum í dökkum matvælum í líkingu við kaffi, rauðvín, kóladrykki, lakkrís, svo og ýmsum í ávöxtum á borð við vínber, bláber og granatepli.

 

Hollráð: Venjið ykkur á góða tannhirðu sem felst í tíðri tannburstun og notkunar tannþráðar. Venjið ykkur á að sjúga m.a. þeytta ávaxtadrykki og ískaffi í gegnum rör til þess að litarefni komist í sem minnsta snertingu við tennurnar.

 

gule-tænder

Óslétt rákamynstur gerir tennurnar viðkvæmar

Glerungur samanstendur af steinefnaformi kalsíumfosfats sem raðast í þéttar rákir. Rákamynstrið er sterklega gert, en jafnframt óslétt og hrufótt, og fyrir bragðið geta litheldnar sameindir hæglega fest sig á tennurnar og mislitað þær.

2. Minnkið magn barksýrunnar

Tannín, öðru nafni barksýra, er plöntupólýfenól sem m.a. ljær fæðutegundum eins og rauðvíni, svörtu tei og dökku súkkulaði beiska bragðið. Barksýran gerir krómógenum því miður einnig auðveldara fyrir að festast við glerunginn.

 

Þetta skýrir hvers vegna rauðvín, sem felur í sér mikið magn af krómógenum og barksýru, á sök á gulum tönnum.

 

Hollráð: Inntökutíðnin og -lengdin skipta máli, svo ráðlegra þykir að drekka nokkra snögga tebolla á viku umfram það að sitja lengi yfir þremur svörtum tebollum alla morgna yfir langt tímabil.

 

3. Varist sýruríkan mat og drykk

Sítrónu- og fosfórsýra í sódavatni, svo og ávaxtasýra í m.a. sítrónum, eplum, vínberjum og nánast öllum sítrussafa, valda niðurbroti kalks í glerungnum og eiga þátt í að mynda rifur og sprungur sem litarefnin geta sest í.

 

Kóladrykkir eru súrari en flestir aðrir drykkir, með pH-gildi sem nemur 2,4, og þar sem drykkirnir innihalda jafnframt krómógen eru þeir bestu vinir gulu tannanna.

 

Hollráð: Borðið einn ávöxt öðru hverju í stað þess að narta í sífellu í vínber. Skolið munninn með vatni eftir að hafa neytt ávaxta og gosdrykkja en gætið þess þó að bursta tennurnar ekki strax því glerungurinn er viðkvæmur rétt eftir sýruárás. Blandið mjólk saman við ávaxtaþeytinga og bætið ávöxtum saman við súrmjólk og jógúrt því mjólkurafurðirnar koma jafnvægi á sýrurnar.

 

Sýrubað laðar að sér litarefni

Hrufóttur glerungurinn verður enn rákóttari og ósléttari þegar sýrur úr mat og drykk tæra hann upp. Sítrónusýra úr ávöxtum, svo og vínsýra, geta orsakað pH-gildi undir 5,5 sem gerir það að verkum að glerungurinn fer að tærast, en slíkt ferli nefnist úrkölkun. Sýrubaðið orsakar fleiri ójöfnur og rifur á tönnunum, sem kallast svörfun, og litarefni úr m.a. lakkrís, bláberjum og kaffi geta hæglega fest sig þar.

 

Rannsóknir hafa leitt í ljós að allt að sjötti hver unglingur er með sýruskemmdir í tönnunum og er fyrir vikið hættara við gulum tönnum en ella.

 

1. Sítrónusýra (t.v.) lendir á glerungnum og losar frá sér vetnisjónir (t.h.).

2. Vetnisjónirnar hvarfast við kalksteinefnið hýdróxýpatít (neðst)

3. Kalkið sundrast í einstakar jónir og bæði vetnisfosfat (t.h.) og kalk (t.v.) geta losnað úr glerungnum. Við þetta myndast rákir og sprungur.

4. Hættið að reykja

Tóbak veldur verri mislitun en bæði kaffi, kóladrykkir og rauðvín, sökum þess að tjara og nikótín festast auðveldlega við glerunginn. Unnt er að eyða brúngula litnum með tannhreinsun en þegar fram líða stundir geta litarefnin komist inn í sjálfa tönnina og orðið viðvarandi þar.

 

Stórreykingafólk á einnig á hættu að sjálft tannholdið fái á sig brúnleitan lit, en slíkt kallast sortnun.

 

gule-tænder_nikotin

Niktótín laðar að litríkar bakteríur

Helsta efnið í tóbaksreyk gerir það að verkum að ysta himna glerungsins myndar svonefnd Y-prótein sem auðvelda bakteríum að festast við tennurnar. Bakteríurnar mynda litarefni sem valda litabreytingum.

 

BIRT: 13/06/2022

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is