Eru heilar skordýra nógu þróaðir til að dýrin geti brugðist við sársauka?
Til að dýr geti skynjað sársauka þarf það að hafa einhvers konar líkamsvitund eða athygli.
Vellíðunartilfinning þarf líka að vera til staðar til viðmiðunar – eðlilegt ástand þegar sársaukinn hverfur.
Meðvitund finnur sársauka
Hvort skordýr skynji sársauka ræðst þess vegna af því hvort þau hafi tiltekið form meðvitundar.
Flestir vísindmenn efast, enda hafa fæst skordýr nema um 250.000 heilafrumur og langflestar þeirra tengjast t.d. sjón og annarri skynjun umhverfisins. Til samanburðar hefur brúna rotta um 200 milljón heilafrumur.
Kakkalakkar hafa um milljón heilafruma – og stærsta skordýraheilann.
Skordýr eru líka mjög langt frá okkur á ættartré þróunarsögunnar og mögulegt sársaukaskyn þeirra gæti því reynst erfitt að finna.
Öfugt við þetta erum við t.d. ekki í neinum vafa þegar hundur finnur til. Bæði gefur hann frá svipuð hljóð og sýnir svipuð viðbrögð og við gerum sjálf.
Skynfrumur eins og spendýr
Tilraunir með bananaflugur hafa engu að síður sýnt að í húð þeirra eru skynfrumur sem bregðast við sköddun í líkamsvef og samsvara þannig tilfinningafrumum spendýra á vissan hátt.
Í spendýrum eru tilfinningafrumur dreifðar um allan líkamann og senda heilanum boð, sem þá skynjar sársauka.
Hvort eitthvað svipað gerist í skordýrum vita vísindamenn enn ekki.
Bananaflugulirfa vindur sér til
Í tilraun til að ákvarða hvort skordýr skynji sársauka skoðuðu vísindamenn lirfu bananaflugu um leið og þeir potuðu í hana pinna.
Þegar pinninn var ekki hitaður brást lirfan ekki við potinu.
Þegar pinninn var hitaður upp í 40 gráður vatt lirfan upp á sig með hreyfingum sem minntu helst á tappatogara.
Viðbrögðin sýndu að lirfan hafði skynfrumur í húðinni, en hitt er óvíst hvort hún skynjaði sárskauka eða sýndi bara ósjálfráð flóttaviðbrögð.