Eftir áreksturinn rigndi glóandi niður gasblönduðum bergsandi, lífsskilyrði á jörðinni gjörbreyttust og risaeðlurnar dóu út.
Loftsteinninn sem skall niður fyrir um 65-66 milljónum ára er vel þekktur sem einn öflugasti drápari jarðsögunnar.
Nú hafa vísindamenn hjá Michganháskóla gert vandað tölvulíkan sem sýnir þá ofboðslegu flóðbylgju sem loftsteinninn hefur valdið. Líkanið sýnir að hún hefur verið mörg þúsund sinnum öflugri en stærstu flóðbylgjur sem sögur fara af.
„Allar flóðbylgjur á sögulegum tíma blikna í samanburðinum,“ segja vísindamennirnir í niðurstöðum sínum.
Hér eru fimm banvænustu flóðbylgjurnar
1. Indlandshaf, 2004
Orsök: Jarðskjálfti
Tala látinna: 230.000
Sikiley, Ítalía, 1908
Orsök: Jarðskjálfti
Tala látinna: 75.000
Lissabon, Portúgal, 1755
Orsök: Jarðskjálfti
Tala látinna: 40-50.000
Krakatau, Indónesía, 1883
Orsök: Eldgos
Tala látinna: 40.000
Tōhoku, Japan, 2011
Orsök: Jarðskjálfti
Tala látinna: 18.000
30.000 meiri orka
Þessi rannsókn er ein hinna fyrstu sem gerðar eru á hnattrænum áhrifum þessarar forsögulegu flóðbylgju og birtar í ritrýndum tímaritum.
Líkan vísindamannanna sýnir að flóðbylgjan hefur verið nógu öflug til að breyta hafsbotni í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá árekstrarstaðnum á strönd Yucatanskaga í Mexíkó og hún hefur trúlega náð 300 metra hæð um klukkutíma eftir að loftsteinninn skall niður.
Útreikningarnir sýna líka að eyðingarmáttur flóðbylgjunnar var 30.000 sinnum meiri en eyðingarafl hinn frægu flóðbylgju sem skall á ströndum 14 ríkja við Indlandshaf á annan í jólum 2004 og kostaði meira en 225.000 mannslíf. Sú flóðbylgja var eins sú stærsta á sögulegum tíma.
Sjáðu tölvugerða mynd sem sýnir flóðbylgjuna breiða úr sér á Indlandshafi árið 2004
Þann 26. desember, annan í jólum árið 2004, skall flóðbylgja af áður óþekktri stærð og krafti yfir 14 lönd umhverfis Indlandshaf. Að minnsta kosti 226.000 manns fórust. Þetta myndband sýnir ferð flóðbylgjunnar frá upptökum jarðskjálftans nálægt Súmötru.
Lóðréttur múr skellur á ströndum
Til að leggja raunhæft mat á niðurstöður tölvulíkansins rannsökuðu vísindamennirnir líka 120 mismunandi sýni úr jarðlögum bæði frá því fyrir og eftir árekstur loftsteinsins.
Þannig fundust sannanir fyrir því að flóðbylgjan hefði náð alla leð þangað sem Nýja-Sjáland er nú og breytingar hefðu orðið á sjávarbotni um hálfan hnöttinn.
Vísindamennirnir skoðuðu ekki sérstaklega hve háar bylgjur hefðu skollið á ströndum, en þeir lýsa því engu að síður hvernig bylgjurnar hljóti að hafa risið ofboðslega hátt þegar þær bárust inn á grynningar þar bylgjubilið styttist og vatnið þrýstist upp í samfelldan vegg sem fellur svo af miklu afli inn á þurrlendið.