Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

Á HM í Bandaríkjunum 1994 hafa eiturlyfjabarónarnir lagt stórfé undir og veðjað á að Kólumbía næði langt á mótinu. En þessu suður-ameríska liði gengur afar illa og innan skamms fara morðhótanir að berast.

BIRT: 17/06/2024

Svitinn perlar á enni Franciscos Maturana. Kólumbíski landsliðsþjálfarinn þjáist af sárum höfuðverk eftir hrakfarirnar gegn Rúmeníu í fyrsta leik liðsins á HM 1994.

 

 

Kólumbíska landsliðið er meðal þeirra sem flestir telja líklega sigurvegara mótsins en strax eftir örfáa daga er liðið komið í slæma stöðu. Eitt tap í viðbót og lið Maturanas er að fara heim.

 

Aftur og aftur reynir hann að finna skýringar á tapinu og leggja upp leikskipulag til að sigra gestgjafana, Bandaríkjamenn, í næsta leik.

„Sigrið BNA eða óttist um líf ykkar.“

Hótun sem blasti við leikmönnum á hótelherbergjum 20. júní 1994.

Landsliðsþjálfarinn situr inni á hótelherberginu sínu með litla skipulagstöflu í höndunum, þegar síminn truflar hugsanir hans. Hann lyftir símtólinu og heyrir rödd sem hann þekkir ekki.

 

„Maturana, nú skaltu hlusta og skrifa niður. Á móti Bandaríkjunum á miðvikudaginn tekur þú Barrabas Gomez úr liðinu og setur Pitufo de Avila í staðinn. Ef þú gerir það ekki munt þú og leikmenn þínir deyja!“ Svo skellir óþekkti maðurinn á.

 

Þegar Maturana hittir leikmenn sína á töflufundi skömmu síðar getur hann ekki haldið aftur af tárunum. „Það var eins og að horfa á föður sinn gráta,“ rifjaði landsliðsmaðurinn Leonel Alvarez upp síðar.

 

Maturana segir frá símtalinu og skömmu síðar eru allir komnir með tár í augun. Á síðasta tug 20. aldar ríkir mikil vargöld í Kólumbíu og eiturlyfjabarónar heyja stríð sín á milli og taka hiklaust af lífi alla sem standa í vegi þeirra.

Pablo Escobar eyddi miklu af kókaíngróða sínum í fótbolta.

Eiturlyfjabaróninn skemmti sér með landsliðsmönnum

Margir landliðsmenn í liði Kólumbíu 1994 áttu í vináttusambandi við alræmdasta eiturlyfjabarón Kólumbíu. Hann hélt verndarhendi sinni yfir þeim allt til dauðadags.

 

Pablo Escobar var kallaður „Kókaínkóngurinn“. Á níunda áratugnum og fram á þann tíunda var hann illræmdasti mafíósi Kólumbíu en jafnframt mikill áhugamaður um fótbolta.

 

Escobar eyddi hluta af 30 milljarða dollara auðævum sínum í fótboltaklúbbinn Atletico Nacional í heimaborg sinni, Medellin. Sex landsliðsmannanna 1994 léku fyrir klúbbinn, þeirra á meðal Andres Escobar sem var myrtur. Þrátt fyrir nafnið var hann ekki skyldur kókaínkónginum.

 

Margir leikmanna Atletico voru persónulegir vinir kókaínkóngsins og þeim var iðulega boðið til veisluhalda og í skemmtibolta á gríðarstóru setri hans.

 

Meðan Pablo Escobar réði Medellin þorði enginn að skerða hár á höfði leikmannanna en árið fyrir HM í Bandaríkjunum var hann skotinn í bardaga við eiturlyfjalögregluna og þar með hvarf öryggisnet leikmanna skyndilega.

Þjálfarinn og flestir leikmennirnir álíta að hótunina verði að taka alvarlega og þeir fáu sem efast sjá fljótlega að þeir höfðu rangt fyrir sér. Eftir töflufundinn fara þeir til herbergja sinna til að hvílast en í staðinn fyrir rólegheitakvöld fyrir framan sjónvarpið bíður þeirra ógnvekjandi sjón. Það er þegar búið að kveikja á sjónvarpstækjunum og stilla þau á tiltekna innanhússrás. Á skjánum blasir við stórt skilti:

 

„Sigrið BNA eða óttist um líf ykkar,“ stendur þar.

 

Dauðahótunin hvílir þungt á leikmönnunum fyrir hinn mikilvæga leik gegn Bandaríkjunum. Allir titra af ótta við að gera alvarleg mistök. En það er einmitt það sem hendir einn þeirra. Og skömmu síðar koma til hans þrír vopnaðir menn.

 

Kólumbía auðmýkti Argentínu

Í september 1993, tæpu ári fyrir HM, var landslið Kólumbíu stjörnulið sem allir dáðust að. Liðið fór til Buenos Aires og mætti þar argentínska landsliðinu sem talið var eitt best mannaða landslið heims.

 

Með því að sigra Argentínu gat kólumbíska liðið tryggt sér sæti á HM í Bandaríkjunum en lið Argentínu var ríkjandi álfumeistari í Suður-Ameríku og hafði spilað til úrslita á HM 1990. Að auki voru liðin sex ár síðan Argentínumenn töpuðu síðast á heimavelli.

 

Í upphafi leiks hélt Andres Escobar kólumbísku vörninni saman af mikilli yfirvegun en framlínumennirnir Asprilla, Rincon og Valencia nýttu hvert tækifæri til að ógna marki Argentínu.

Escobar spilaði óaðfinnanlega í stjörnum prýddu landsliði, þar sem m.a. voru fyrirliðinn Carlos Valderrama og Faustino Asprilla (nr. 1 og 2 frá vinstri í fremri röðinni).

Kólumbía vann 5-0 og argentínskir áhorfendur klöppuðu liðinu lof í lófa að leik loknum en engum duldist að Kólumbíumennirnir voru miklu betri.

 

Það leiddi svo af þessum úrslitum að ekki aðeins hafði kólumbíska liðið tryggt sig inn á HM, heldur var líka allt í einu tekið að tala um liðið sem líklegan sigurvegara á mótinu.

 

„Í mínum augum er Kólumbía með besta liðið. Það þýðir ekki að Kólumbía muni vinna heimsmeistaratitilinn en þetta lið verður án efa meðal fjögurra efstu,“ sagði brasilíska goðsögnin Pele.

 

Samhengi milli fíkniefna og fótbolta

Kólumbíumenn nutu aðdáunar heimsins á landsliðinu en árangurinn náði þó ekki að leyna þeim myrku skuggum sem fíkniefnaverslunin varpaði yfir Kólumbíu upp úr 1990.

 

Kólumbía var stærsti kókaínútflytjandi heims og mafíósarnir græddu á tá og fingri. Svonefndir eiturlyfjabarónar þurftu að hvítþvo milljónir á milljónir ofan af svörtum peningum og fótboltaklúbbarnir reyndust fullkomin lausn á því vandamáli.

 

Ásamt fleiri mafíósum dældi „kókaínkóngurinn“ Pablo Escobar milljónum í fótboltaklúbba í landinu.

 

Fyrir þetta illa fengna fé var hægt að byggja stórbætta þjálfunaraðstöðu, leigja góða erlenda þjálfara og bjóða efnilegum ungum knattspyrnumönnum svo há laun að þeir hreyfðu sig ekki þótt stærstu félögin í Evrópu reyndu að fá þá til sín.

 

Þegar ungu mennirnir höfðu þroskast upp í stjörnuleikmenn seldu eiturlyfjabarónarnir þá og fengu skjannahvíta peninga í hendurnar.

 

Sala leikmanna var þó ekki eina aðferðin, heldur stunduðu mafíósarnir líka veðmál í miklum mæli og mikið af fíkniefnaágóðanum fór til veðmangara um allan heim.

HM 1994 var engin undantekning og árangurinn í riðlakeppninni kom eiturlyfjabarónum til að veðja milljónum á að Kólumbía myndi ná langt.

 

Banaslys olli áhyggjum

Mótið í Bandaríkjunum hófst þó ekki jafn glæsilega og spilaglaðir eiturlyfjabarónar höfðu gert ráð fyrir. Kólumbíumenn vanmátu Rúmena í fyrsta leik og urðu að sætta sig við tap 1-3.

 

„Margir fjárhættuspilarar töpuðu stórfé og sumir mafíósar voru afar ósáttir við frammistöðu leikmannanna,“ segir kólumbíski blaðamaðurinn Cesar Mauricio Velasquez.

 

Ósigurinn var þó einungis upphafið að hræðilegri viku landsliðsmannanna. Daginn eftir þennan fyrsta leik fékk varnarmaðurinn Luis Fernando Herrera að vita að bróðir hans hefði farist í umferðarslysi heima í Kólumbíu.

 

Þetta dauðsfall olli óróleika meðal leikmanna, því sá orðrómur fór á kreik að þetta hefði í raun ekki verið slys, heldur hefnd fíkniefnabarónanna fyrir tapið gegn Rúmeníu. Tárvotur hugðist Herrera fara beint heim en félagi hans, Andres Escobar, bað hann að hugsa málið betur:

 

„Örlög Kólumbíu eru í þínum höndum. Þetta er eina tækifærið sem við fáum nokkurn tíma til að vinna HM,“ útskýrði hann og Herrera ákvað að vera kyrr og láta landsliðið ganga fyrir.

„El Caballero del Futbol“ – heiðursmaður fóboltans – var Andres Escobar kallaður, enda þekktur fyrir vinsemd og heiðarlegan leik.

Um fótbolta var ekki mikið rætt þennan dag, því lamandi ótti skyggði á allt annað. „Það komst ekkert annað að í hausnum en áhyggjur og þannig á það ekki vera fyrir mikilvægan leik,“ rifjaði miðjumaðurinn Leonel Alvarez upp.

 

Hver á fætur öðrum hringdu landsliðsmennirnir heim til að fullvissa sig um að allt væri í lagi hjá fjölskyldum sínum. Og til að róa leikmennina voru lögreglumenn hafðir á verði við heimili þeirra.

 

Strax daginn eftir barst Maturana svo líflátshótunin í símtalinu. Hann valdi á endanum að láta undan þrýstingnum og setja Avila í byrjunarliðið, eins og maðurinn í símanum hafði krafist.

 

„Ég gat ekki teflt lífi annarra í tvísýnu,“ útskýrði Maturana síðar.

 

Sjálfsmark slökkti vonir Kólumbíumanna

Áhorfendur á leiknum og sjónvarpsáhorfendur um heim allan sáu greinilega að leikgleðin var horfin úr kólumbíska liðinu þegar það gekk inn á völlinn til að spila við Bandaríkin 22. júní 1994.

 

Engu að síður tókst liðinu að koma sér í marktækifæri í upphafi leiks og smám saman virtist taugaveiklunin vera að lina tök sín. En eftir 35 mínútur kom áfallið sem þessi leikur hefur síðan verið þekktur fyrir og átti eftir að kosta hinn glæsilega varnarmann, Andres Escobar, lífið.

„Þetta hefur verið ótrúleg og sjaldgæf upplifun. Við sjáumst bráðum aftur.“

Andres Escobar í blaðagrein örfáum dögum fyrir dauða sinn.

Escobar var 27 ára og naut virðingar í Kólumbíu vegna baráttu sinnar gegn ofbeldi og drápum en ein mistök dugðu til að gera hann sjálfan að skotskífu haturs og hefndar.

 

Bandaríkjamaður sendi fasta fyrirgjöf utan af vítateigslínunni og Escobar fleygði sér niður til að koma boltanum aftur fyrir.

 

Kólumbíumaðurinn teygði úr löngum fótunum eins og hann framast gat og tókst að komast í veg fyrir boltann. En boltinn fór ekki aftur fyrir, heldur í markið. Escobar hafði skorað sjálfsmark.

 

Heima í Kólumbíu horfði systir Escobars á leikinn í sjónvarpi og þegar boltinn fór í markið, sagði níu ára sonur hennar: „Nú drepa þeir Andres.“

 

Flestum að óvörum unnu Bandaríkjamennirnir leikinn 2-1 og Kólumbía var þar með úr leik á HM. Á leiðinni heim á hótelið eftir leikinn voru flestir á einu máli um að það væri ekki skynsamlegt að fara strax heim – betra að taka nokkurra vikna frí í útlöndum, þannig að verstu vonbrigðin yrðu liðin hjá.

 

Andres Escobar áleit ekki að leikmennirnir ættu að fara í felur. Eftir síðasta leikinn í riðlinum, þýðingarlausan leik gegn Sviss, fór hann heim og leyfði hverjum blaðamanninum á fætur öðrum að taka viðtöl um hvernig í ósköpunum þetta gat endað svona illa.

 

Hann féllst líka á að skrifa grein í blað. Hún fékk titilinn „Þetta er ekki heimsendir“ og fjallaði bæði um fótbolta og þá bylgju ofbeldis sem fíkniefnaviðskiptin leiddu af sér:

 

„Svo erfitt sem þetta virðist, eigum við ekki annarra kosta völ en að rísa upp aftur. Við eigum bara um tvennt að velja í lífinu – láta reiðina lama okkur og ofbeldið halda áfram eða sigrast á erfiðleikunum og koma öðru fólki til hjálpar. Valið er okkar,“ skrifaði Escobar.

 

Greinin endaði svo á orðum sem mögulega gætu verið úr penna manns sem veit að hann á ekki langt eftir: „Kærustu kveðjur til ykkar allra. Þetta hefur verið ótrúleg og sjaldgæf upplifun. Við sjáumst bráðum aftur, því þetta er ekki heimsendir.“

 

Skotinn sex sinnum

Tíu dögum eftir niðurlægingarleikinn taldi Escobar að íbúum Kólumbíu hefði gefist tími til að melta vonbrigðin og hann ákvað að fara í bæinn í Medellin, þar sem hann átti heima. Landsliðsmaðurinn fór á bílnum og gekk inn á næturklúbbinn El Indio, þar sem hann hitti m.a. fyrir eiturlyfjabarónana Juan og Pedro Gallon.

HM stóð enn yfir þegar Escobar var myrtur. Á mörgum keppnisvöllum minntust áhorfendur þessa kólumbíska leikmanns með borðum.

Flestir á barnum sýndu varnarmanninum skilning og hrósuðu honum fyrir kjarkinn en Gallon-bræður drógu hann hins vegar sundur og saman í háði.

 

Klukkan þrjú um nóttina yfirgaf Escobar klúbbinn, enda búinn að fá nóg af ókvæðisorðum bræðranna. Þegar hann var sestur inn í bílinn nálguðust þrír menn. Escobar ætlaði að skrúfa niður rúðuna og útskýra mál sitt einu sinni enn en horfði nú beint inn í skammbyssuhlaup.

 

Svo gullu við sex skot og sagt er að eftir hvert skot hafi morðinginn hrópað „mark“ í sama tónfalli og sjónvarpslýsandinn hafði gert þegar Escobar skoraði sjálfsmarkið í hinum örlagaþrungna leik.

 

Morðinginn hraðaði sér burtu en Escobar sat eftir helsærður í bílnum. Hann lést 45 mínútum síðar á sjúkrahúsinu í Medellin. Þegar lík hans var jarðsett fylgdu 120 þúsund manns kistu hans gegnum borgina.

Sex sinnum hrópaði morðinginn „mark“ þegar hann skaut landsliðsmanninn.

Morðinginn slapp vel

Humberto Munoz Castro hét maðurinn sem átti að hafa skotið þessum sex skotum að Andres Escobar. Hann var lífvörður tveggja fíkniefnabaróna – bræðranna Juans og Pedros Callon – og hafði að sögn vitna skotið á Escobar í gegnum hliðarrúðuna.

 

Ýmislegt þykir þó benda til að Castro þessi hafi einungis framfylgt þeirri skipun að taka á sig refsinguna fyrir ódæðið. Meðan réttarhöldin stóðu yfir fullyrtu nokkrir blaðamenn að í rauninni hafi annar Gallon-bræðranna myrt Escobar og ástæðan sögð sú að bræðurnir höfðu tapað stórfé með því að veðja á Kólumbíu á HM í Bandaríkjunum.

 

Castro var dæmdur í 42 ára fangelsi en svo lengi sat hann ekki inni. Spilltir dómarar voru landlægt vandamál í Kólumbíu á síðasta tug aldarinnar. Með háum mútugreiðslum tókst að fá dóminn styttan, fyrst í 26 ár og síðan í 11 ár. Castro var látinn laus 2005.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Frederik Palle

© Joblo, © Alloverpress, © Getty Images, © El Mundo Medellin

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is