Kveikiþráður reiðinnar: Það tekur þig tvær sekúndur að springa

Líkami þinn er tifandi tímasprengja. En þú gerir þér enga grein fyrir að heilinn er stöðugt í startholunum og það tekur hann ekki nema tvær sekúndur að láta reiðina springa út. Vísindin kafa nú í líkamann og afhjúpa þróun reiðinnar í sekúndubrotum.

BIRT: 16/03/2023

LESTÍMI:

4 mínútur

 

Öldum saman hafa vísindamenn leitað eftir leyndardómum reiðinnar og fundið ummerki hennar allsstaðar í líkamanum.

 

Þungamiðjan er þó í heilanum. Þar heyja heilastöðvarnar baráttu til að úrskurða hvort þú eigir að hafa stjórn á tilfinningunum, eða sleppa þeim lausum í reiðikasti.

 

Það líða aðeins tvær sekúndur frá því að þú sérð atburð sem kveikir reiði og þar til allar hömlur eru horfnar. Ef þú vilt halda sjálfsstjórninni þarftu að bíða og telja upp að tveimur.

 

En hér sökkvum við okkur niður í líffærafræði reiðinnar á þessum örstutta tíma.

0 SEKÚNDUR

Skilningarvit kveikja skyndihvöt

Þú sérð það á honum, skynjar það á svipbrigðunum á andliti hans og heyrir það í röddinni, sem verður ögn stríðnislegri. Þér verður ljóst að hann er í þann veginn að fara að segja öllum hinum við borðið frá einmitt því atviki í lífi þínu, sem þú vilt síst af öllu að sé á allra vitorði.

 

Skilningarvit þín eru skerpt til hins ýtrasta.

 

90 milljón sjónfrumur senda boð á hraðferð til sjónstöðva heilans aftast í heilaberkinum.

 

Rafboð þjóta fram og aftur um heilann. Meðal annars enda þau í heiladrekanum (hippocampus), tveimur bogalaga svæðum djúpt inni í heilanum.

 

Þar eru skynhrifin borin saman við gamlar minningar og þannig raða saman eins konar púslmynd, sem á stóran þátt í viðbragðaákvörðun heilans.

 

0,5 SEKÚNDUR

Skynsemin og reiðin takast á

Urrrgh! Þetta er óþolandi. Nú byrjar hann að blaðra og að segja frá þessu atviki, sem gerðist þegar þið voruð miklu yngri – til þess eins að koma öllum við borðið til að hlæja að þér. Kannski geturðu stöðvað hann áður en hann kemst að aðalatriðinu í sögunni. Þú reyndir einu sinni að tala um fyrir honum en það hreif ekki. Hann verður að læra þetta í eitt skipti fyrir öll, en þú vilt ekki segja neitt sem gæti lagt vináttu ykkar í rúst.

 

Enn er ekki liðin hálf sekúnda, en heilaboðin hafa nú náð til heilamöndlunnar (amygdala) og fram í ennisblöðin.

 

Heilamandlan er tilfinningamiðstöð og þar blandast ný skynhrif heilum hvirfilbyl af minningum um eldri tilfinningasprengingar.

 

Án þess að þú gerir þér nokkra grein fyrir því þyrlar heilamandlan upp baráttuanda í heilanum og býr sig undir að senda æsingaboð út í hverja taug.

 

Skynsemin getur þó enn náð yfirhöndinni. Ennisblöðin, rétt innan við ennið, eru í eins konar dómarasæti og ákvarða hvort tilefni sé til að gefa reiðinni lausan tauminn.

 

Þessar heilastöðvar greina orsakir ástandsins og reyna að meta afleiðingarnar af því sem gerist næst.

 

Taugaboð frá ennisblöðunum hafa vald til að hemja hina kraumandi reiði í miðstöð tilfinninganna.

1 SEKÚNDA

Reiðin breiðist út um líkamann

Þetta yfirþyrmandi skilningsleysi hans gagnvart tilfinningum þínum hefur valdið þér vanlíðan í langan tíma og nú er nóg komið!

 

Óteljandi minningar um eldri vanlíðan hella olíu á eldinn í heilamöndlunni og skynsemistöðvarnar í ennisblöðunum taka að hallast að því að snögg árás sé besta leiðin.

 

Reiðin nær nú valdi á heilanum. Engar heilastöðvar standa lengur í vegi fyrir heilamöndlunni og hún lætur taugaboðum rigna gegnum mænuna og áfram út um allan líkamann.

 

Meðal mikilvægustu móttakenda eru nýrnahetturnar, sem staðsettar efst á hvoru nýra.

 

Í þeim eru frumur sem virkjast af boðunum frá heilamöndlunni og taka strax að dæla adrenalíni út í blóðið.

Reiði skapar þér velgengni í lífinu

Yfirdrifin reiði er skaðleg, en vísindin hafa hins vegar sýnt að það borgar sig ekki að halda reiðinni alltaf í skefjum.

 

Reiðin skapar ánægju

Í stórri rannsókn spurðu vísindamenn hjá Harvardháskóla í Bandaríkjunum fólk hvernig það tækist á við reiðina, og hvort það væri ánægt í einkalífi sínu og á vinnustað. Niðurstöðurnar sýndu að það fólk sem lét reiði sína í ljós var ánægðara með sjálft sig.

 

Reiðin hjálpar við ákvarðanatöku

Í annarri rannsókn voru þátttakendur beinlínis reittir til reiði og síðan látnir lesa lista yfir röksemdir, sem ýmist voru góðar eða slæmar. Þátttakendur sem höfðu reiðst reyndust eiga auðveldara með að sjá í gegnum slæmar röksemdir.

 

Reiði yfirvinnur ótta

Rannsóknir hafa sýnt að við aðstæður sem vekja ótta, er gott að reiðast. Reitt fólk er líklegra til að taka áhættu og það verður líka bjartsýnna varðandi það að komast úr hinum ógnvekjandi aðstæðum.

1,5 SEKÚNDUR

Adrenalín býr líkamann undir bardaga

Þú finnur hitann í andlitinu og sviti byrjar að perla á enninu. Þú finnur hjartað slá hraðar og hraðar og lungun starfa í jötunmóð við að draga súrefni inn í líkamann. Það liggur við að braki í tönnunum, svo fast pressa kjálkarnir þær saman, og hnefarnir kreppast svo fast að hnúarnir hvítna. Sjáöldrin víkka þannig að aukið ljósmagn streymir inn og reiðin blindar þig.

 

Heilt syndaflóð af taugaboðum fossar inn í líffærin og styrkist af adrenalíninu.

 

Svitakirtlarnir eru farnir að losa vökva út á yfirborð húðarinnar, en vöðvar kringum æðar ýmist draga sig saman eða slakna til að breyta blóðflæðinu.

 

Fínstillt netverk taugaboða sem stýrir hjartslættinum, algerlega án þinnar vitundar, eykur taktinn.

 

Þindin fær sömu meðferð og hún fer að toga fastar í lungun til að þau nái að flytja blóðinu meira súrefni.

 

Og um allan líkamann fá vöðvarnir  skipanir um að viðbragðsstöðu fyrir bardaga, þar til allar vöðvatrefjar eru þandar til hins ýtrasta.

 

Boðskapur reiðinnar berst líka í lifrina og lifrarfrumur losa ýmis ensím sem taka að skera í sykurbirgðir lifrarinnar.

 

Litlar sykursameindir, sem þannig losna, eru samstundis sendar út í blóðið.

 

Ásamt auknu súrefnisflæði frá lungunum og hraðari blóðrás skapar þessi viðbótarsykur hinn fullkomna fellibyl fyrir virkilega öflugt æðiskast.

2 SEKÚNDUR

Frumurnar knýja reiðikastið

Það er heil flóðbylgja orku sem nú streymir um allan líkamann. Þér finnst þú sterkari en nokkru sinni fyrr. Þó eru aðeins liðnar tvær skúndur síðan upphaf sögunnar við matarborðið byrjaði að erta skilningarvitin. Nú er runnið á þig æði við tilhugsunina um að láta slag standa og leyfa reiðikastinu að springa út.

 

Allar vöðvatrefjar í líkamanum soga til sín súrefni og sykur úr blóðinu. Þessar aflöngu frumur flytja hið lífræna eldsneyti til orkukornanna sem nýta sér efnahvörf til að umbreyta sykursameindunum í efnið ATP.

 

ATP kemur tveimur prótínstrengjum, sem liggja langsum gegnum vöðvafrumuna, til að grípa hvor um annan og toga enda vöðvafrumunnar saman. Vöðvafrumurnar styttast, sem í rauninni þýðir að allur vöðvinn dregur sig saman.

 

Þannig nær skynsemin yfirhöndinni

En ennisblöðin eru enn starfandi. Þau geta enn náð að senda stríðan straum boða til heilamöndlunnar og stöðva æðiskastið áður en þú gengur of langt.

 

Þegar boð heilamöndlunnar stöðvast, deyr reiðin út og líkaminn róast aftur.

 

Þess vegna þarftu að einbeita þér. Teldu sekúndurnar og láttu skynsemina vinna sigur á reiðinni.

BIRT: 16/03/2023

HÖFUNDUR: Andreas Andersen, Nanna Vium

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.