Maðurinn

Hinar dónalegu hugsanir okkar

Aðhyllist þið konur eða karla? Ást eða svipuhögg? Nánd eða kynsvall? Óháð því hvað ykkur dreymir um þá hafa vísindamenn komist að raun um hvað það er sem stjórnar hugsunum okkar.

BIRT: 30/08/2023

Handjárn, svipa og bindi fyrir augum – þetta hljómar hugsanlega líkt og kynórar nokkurra undantekningartilfella. Það er það bara engan veginn.

 

Liðlega helmingur okkar er með hugaróra um að hafa taumlaus yfirráð í rúminu ellegar þá að vera háður stjórn hins aðilans að öllu leyti. Um þriðjungur allra lætur sig dreyma um að vera þvingaður til að stunda kynlíf.

 

Hugarórar þessir kunna að virka óeðlilegir en nýleg belgísk rannsókn hefur hins vegar leitt í ljós að draumórar okkar um sársauka og niðurlægingu eiga sér ofur eðlilegar skýringar. Vísindamennirnir rannsökuðu pör sem tóku þátt í kynlífsathöfnum sem byggðu á yfirráðum og undirgefni og fundu ýmsar afgerandi vísbendingar í blóði þátttakendanna.

 

Belgísku vísindamennirnir eru ekki einir um þessar ályktanir.

Sérkennilegir kynórar eru ekki eins sjaldgæfir og margir halda. Samkvæmt belgískri tilraun er þessi á myndinni nokkuð aðlaðandi vegna nokkurra sérstakra hormóna í blóðinu.

Kynlíf er vandmeðfarið viðfangsefni í heimi vísindanna og vísindamenn víðs vegar um heim eru farnir að rannsaka hvað það er sem fær löngun okkar til að aukast og hvers vegna. Rannsóknarvinna vísindamannanna hefur leitt þá aftur til fjarlægra forfeðra okkar og lengst ofan í erfðaefni okkar og þeir hafa m.a. komist að raun um að milljóna ára framþróun hefur leitt af sér greinilegan mun milli karla og kvenna en jafnframt einnig furðumikil líkindi.

 

Vísindamenn uppræta kynlífsmýtur

Kynórar eru tengdir mýmörgum mýtum og staðalímyndum, einkum hvað áhrærir muninn á órum karla og kvenna. Á undanförnum árum hafa fræðimennirnir rýnt frekar í fyrirbærið sökum þess að munurinn á kynjunum kann að gagnast við að leiða í ljós líffræðina að baki órunum. Í sumum hugmyndunum kann að leynast sannleikskorn, í öðrum ekki.

 

Ein goðsagnanna snýst um það að karlar leiði hugann að kynlífi á sjö sekúndna fresti. Þetta myndi leiða af sér liðlega 8.000 kynlífshugsanir dag hvern. Árið 2011 tókst að sýna fram á í bandarískri rannsókn að þetta er fjarri því að vera satt. Karlarnir sem tóku þátt í rannsókninni sögðust hugsa um kynlíf nítján sinnum á dag.

 63% karla hafa gert sér í hugarlund hvernig væri að sjá tiltekinn aðila afklæðast.

Joyal et al., 2015

 

Karlar í tilrauninni hugleiddu kynlíf raunar þó nokkuð oftar en kvenkyns þátttakendurnir sem kváðust einungis leiða hugann að kynlífi tíu sinnum á dag.

 

Karlmenn hafa enn fremur orð á sér fyrir að laðast helst að fólki sem er talsvert yngra en þeir sjálfir, á meðan konur eru að öllu jöfnu sagðar hallast að maka sem er eldri en þær.

 

Í rannsókn einni sem gerð var í Kanada árið 2015 voru 1.516 tilraunaþátttakendur spurðir út í kynóra þeirra. Rannsóknin sýndi, svo ekki varð um villst, að karlana dreymdi sannarlega langtum oftar en konurnar um að stunda kynlíf með einhverjum sem var talsvert yngri en þeir sjálfir en karlarnir áttu raunar að sama skapi einnig vinninginn í hugarórum um að stunda kynlíf með sér eldra fólki.

Menn og konur láta sig dreyma ólíka hluti

Milljóna ára framþróun hefur haft í för með sér ólíkar kynlífslanganir fyrir karla og konur. Tilteknir kynórar eru þó sameiginlegir báðum kynjum.

Konur hafa opnari hug

Konur geta oft fengið löngun í bæði kynin en karlar halda sig frekar við annað kynið. Þróunarlega skýringin er sennilega sú að karlar hafi í gegnum tíðina verið meira leitandi hvað kynlíf snertir en við hefur átt um konur og fyrir vikið sé makaval þeirra markvissara.

Karla dreymir um ókunnuga

Hugarórar um ókunnuga bólfélaga eru algengari meðal karla en kvenna. Ástæðan kann að vera sú að karlar séu gagnrýnni í vali á rekkjunaut sökum þess að þeir þurfi ekki að leggja jafn mikið af mörkum fyrir hugsanlegt afkvæmi og konan verður að gera.

Öll vilja stunda kynlíf á salerninu

Langflestir menn og konur ímynda sér kynlíf á óhefðbundnum stöðum, svo sem eins og á skrifstofunni eða almenningssalerni. Óþekkt umhverfið og hættan á að vera gómaður skerpa sennilega skilningarvitin og færa fólki nautnartilfinningu.

Þriðja rótgróna mýtan gengur út á það að kynórar kvenna séu miklu blíðlegri og innilegri en órar karla en þetta á heldur ekki við rök að styðjast.

 

Alls 92 prósent kvennanna í kanadísku rannsókninni lögðu áherslu á að ást yrði að vera til staðar í kynlífssamböndum en hlutfall karla í sömu sporum var einungis lítið eitt lægra en það nam alls 88%.

 

Alls 86% kvenna sögðu andrúmsloftið og umhverfið skipta sköpum og karlarnir komust nálægt þessu, því alls 81% þeirra var sömu skoðunar. Þegar svo vísindamennirnir skoðuðu tíu algengustu hugarórana hjá hvoru kyni fyrir sig, kom í ljós að helmingur þeirra átti við um bæði kynin.

 

Kynin tvö eru sem sé líkari en margar mýtur gefa til kynna. Þess ber þó að geta að munurinn er að sama skapi mjög skýr og margir vísindamenn telja ástæðuna vera af þróunarlegum toga.

 

Framþróunin höll undir hópkynlíf

Kanadísku vísindamennirnir sýndu fram á að karla dreymi langtum oftar um kynlíf með tveimur konum heldur en að konur ímyndi sér slíkt hið sama með tveimur körlum. Alls 75% karlanna í tilrauninni voru meira að segja með hugaróra um að sofa hjá þremur konum í senn.

 

Vísindamennirnir telja orsökina leynast í þeim hlutverkum sem karlar og konur hafa leikið árum saman hvað áhrærir fjölgun. Konurnar ganga með væntanleg afkvæmi í líkömum sínum, fæða þau og næra þar á eftir, með þar af leiðandi hættu fyrir eigin heilsu, á meðan karlarnir geta sloppið mjög auðveldlega, eins og stundum er bent á.

LESTU EINNIG

Það kostar manninn mjög lítið að skilja eftir arfbera sína og það er einmitt ástæðan fyrir því að menn fá oftar mikla kynlífslöngun, velta bólfélaganum ekki eins mikið fyrir sér og konur gera og láta sig frekar dreyma um nokkra rekkjunauta í senn en við á um konur.

 

Í augum konunnar er fórnarkostnaðurinn hár og fyrir bragðið hefur framþróunin sennilega hvatt konur til að vera aðgætnari og gagnrýnni í aðgengi þeirra að kynlífi.

 

Samanburðurinn við karla er þó eilítið misvísandi, því þó svo að konur dreymi að öllu jöfnu síður um nokkra bólfélaga en við á um karla, þá dreymdi liðlega helming kvennanna í kanadísku rannsókninni um að stunda kynlíf með tveimur körlum. Eins furðulega og það kann að hljóma, þá er skýringuna sennilega einnig að finna í líffræði kvenna og framþróun þeirra.

57 prósent kvenna dreymir um að stunda kynlíf með tveimur körlum í senn og alls 28% hefur dreymt um fleiri en þrjá bólfélaga á sama tíma.

Í heimi dýranna eðla kvendýrin sig oft með nokkrum karldýrum innan sama fengitíma og á síðustu áratugum hefur vísindamönnum tekist að leiða í ljós hvað veldur. Þetta framferði kvendýranna veldur alls ekki fleiri afkvæmum, heldur gagnast aðferðin þeim við að eignast bestu afkvæmin sem völ er á.

 

Kvendýrið hefur þegar valið sér maka með hliðsjón af ytri einkennum á borð við útlit, stærð og atferli en innan í líkamanum getur svo enn fremur átt sér stað viðlíka mikilvægt val.

 

Þegar kvendýrið hefur yfir að ráða nokkrum ólíkum sæðisfrumum í líkamanum, munu þær keppa í m.a. sundhraða og kvendýrið yrði þar með frjóvgað með eggi frjósamasta karldýrsins. Eggfruma kvendýrsins og efnaumhverfi hennar geta hugsanlega valið sæðisfrumu með sérstaka erfðafræðilega drætti þannig að eggið verði frjóvgað af karldýri sem hefur yfir ákjósanlegustu erfðavísunum að ráða.

 

Svipan jafnast á við aðfangadagskvöld

Löngunin til að vera með fleiri en einn bólfélaga á sér því greinilegar líffræðilegar skýringar. Öllu erfiðara reynist að koma auga á röksemdirnar að baki hugarórum sem felast í því að stinga bolta upp í munninn á bólfélaganum eða að láta hann fá rafstuð. Sama máli gegnir um kynóra sem fela alls ekki í sér aðra mannveru, því margir verða fyrir örvun af völdum efnisins latex eða af öðrum lífvana hlutum.

 

Slíkir hugarórar eru sennilega alveg ótengdir framþróuninni heldur eiga rætur að rekja til hugsanaferlis heilans.

36% kvenna hafa ímyndað sér hvernig sé að láta slá sig með svipu eða flengja sig meðan á kynlífsathöfn stendur.

Joyal et al., 2015

Annarleg blæti geta orðið til vegna tilviljanakenndra tenginga. Í tilraun einni sem gerð var á rottum klæddu vísindamennirnir karlrotturnar í litla jakka áður en þeir eðluðu sig með kvendýrum í fyrsta sinn. Annar rottuhópur var látinn eðla sig í fyrsta sinn jakkalaus.

 

Vísindamennirnir tóku því næst helminginn af rottunum úr jökkunum og létu helming af karlrottunum í hinum hópnum klæðast jakka. Að lokum voru öll karldýrin sett innan um kvendýr.

 

Flestir eðluðu þeir sig án nokkurra vandkvæða en þó ekki karldýrin sem höfðu verið klæddir í jakka fyrir fyrstu eðlunina og áttu nú að ganga í eina sæng með kvenrottu jakkalausir. Þeim tókst sem sé ekki að vinna upp nægilega mikla örvun án jakkans. Jakkinn hafði breyst í blæti í þeirra huga, því heilar þeirra tengdu jakka við fyrstu samfarakynni þeirra.

Heilinn löðrandi í kynlífi

Kynlífsórar leiða oft af sér heila svallveislu af heilastarfsemi sem reynir á ýmsar heilastöðvar og sameinar minni, ímyndunarhæfileika, svo og nautn.

 

1 –  Mandla heilans eykur kynlífslöngunina

Heilasvæðið sem nefnist mandla stjórnar því hvernig við bregðumst við tilfinningalegum og kynferðislegum áhrifum og hefur fyrir vikið drjúg áhrif á kynferðislega örvun. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk með stóra möndlu hefur meiri löngun í kynlíf en aðrir.

 

2. Dreki heilans kallar fram dónalegar minningar

Minnisstöð heilans sem nefnist dreki, gagnast okkur við að mynda, geyma og endurheimta minningar. Minnisstöð þessi er virkjuð í tengslum við kynferðislega örvun og reynir að öllum líkindum að sækja hugmyndir í minnið þegar við ímyndum okkur kynlíf.

 

3. Ennisblaðið sér fyrir sér nautn

Ennisblað heilans tengir skynhrif við hugsanir og á þátt í að skapa nautn. Það hefur að sama skapi áhrif á hugmyndaflug okkar og fyrir bragðið skipar það mikilvægan sess þegar við sjáum fyrir okkur kynlíf í höfðinu.

Svonefndir BDSM-órar sem geta m.a. falið í sér handjárn og svipu eru þó af öðrum toga. Í rannsókn einni sem gerð var í Belgíu árið 2020 söfnuðu vísindamenn blóðsýnum úr 35 BDSM-pörum fyrir og eftir samfarir. Blóðsýnin leiddu í ljós að kynlífsiðkun paranna hafði í för með sér aukningu hormóna á borð við endókannabínóíða og kortísól, einkum þó hjá undirgefna aðilanum.

 

Áður hafði verið sýnt fram á að endókannabínóíðar leysa úr læðingi kynferðislega nautn en kortísól er að öllu jöfnu tengt við streitu. Aukningu kortísólmagnsins segja vísindamennirnir að baki tilrauninni stafa af sársaukaþættinum í BDSM-kynlífi.

 

Kortísól er raunar ekki einvörðungu streituhormón. Það hefur enn fremur áhrif á nautnastöðvar heilans og gegnir mikilvægu hlutverki í tengslum við ávanabindingu. Efnið á m.a. þátt í þeirri yfirþyrmandi tilfinningu um tilhlökkun sem börn skynja dagana fyrir aðfangadagskvöld.

 

Blandan af endókannabínóíðum og kortísóli segja belgísku vísindamennirnir vera ástæðu þess að þeir sem leggja stund á BDSM finni fyrir eins konar ávanabindandi vímu á meðan leikar standa sem hæst.

 

Erfðavísar segja til um hlutverkaskipan

Ein helsta ráðgátan á sviði dónalegra hugrenninga felur í sér aukaleikarana í hugarórum okkar. Hvað ræður því hvort hinir leikararnir tilheyra sama kyni og við sjálf, öndverðu kyni eða hvoru tveggja?

 

Hugarórar um einstaklinga af sama kyni koma ekki á óvart, ekki síst þegar um er að ræða samkynhneigða. Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að erfðavísar skipta sköpum hvað samkynhneigð snertir. Ef samkynhneigð kona á eineggja tvíburasystur eru 48% líkur á að systirin sé einnig samkynhneigð. Sé um tvíeggja tvíbura að ræða eru líkurnar einungis 16% og sé systirin einungis stjúpsystir lækkar hlutfallið niður í sex af hundraði. Sambærilegar tölur eiga við um karla.

 

Niðurstöðurnar sýna, svo ekki verður um villst, mikilvægi arfberanna en vísindamönnum hefur löngum reynst torvelt að komast að raun um hvaða gen það eru nákvæmlega sem stjórna kynhneigð okkar. Nú hefur nýleg rannsókn fært fræðimennina ívið nær svarinu en fyrr

21 prósent karlanna í kanadísku rannsókninni frá árinu 2015 hafði gert sér í hugarlund að stunda kynlíf með öðrum karlmanni. Aðeins 11% karlanna töldu sig samt vera sam- eða tvíkynhneigða.

Hópur vísindamanna víðs vegar að rannsakaði árið 2021 erfðaefni alls 800.000 einstaklinga og hafði helmingur þeirra aldrei átt þátt í samkynhneigðu kynlífi en hinn helmingurinn hafði lagt stund á það minnst einu sinni.

 

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að margir úr síðarnefnda hópnum áttu það sameiginlegt að búa yfir sérlegum upprunaeinkennum sem var umtalsvert minna um í fyrrgreinda hópnum. Arfberarnir sem um ræddi tengdust einkum þefskyni og kynhormónum. Vísindamennirnir gátu einnig sýnt fram á að erfðaeiginleikar eru aðeins lítið brot af þeim þáttum sem ákvarða kynhneigð okkar.

 

Það sem mest kom á óvart í rannsókninni var hins vegar ekki það að tilteknir erfðavísar hefðu áhrif á kynhneigðina heldur það að þróunarlegur ávinningur sé fólginn í þessum sérlegu erfðaeiginleikum.

 

Mótefni einkenna heilann

Þeir erfðaeiginleikar sem hafa þau áhrif að einstaklingar verða samkynhneigðir munu að öllum líkindum hverfa úr þýðinu ef sömu einstaklingar hafa ekki erfðafræðilegan ávinning af samkynhneigðinni hvað áhrærir fjölgun eða getu til að komast af.

 

Sé litið nánar á þátttakendur tilraunarinnar kemur í ljós að ávinningurinn er ekki svo lítill. Þeir sem hafa átt í gagnkynhneigðum ástarsamböndum með mörgum höfðu yfir ívið fleiri þessara einkenna að ráða en þeir sem aðeins höfðu átt fáa bólfélaga.

 

Eiginleikarnir virtust að sama skapi vera algengir meðal fólks sem var með svokallaðan opinn persónuleika eða voru líkamlega aðlaðandi. Erfðaeiginleikarnir sem stuðla að samkynhneigð virtust með öðrum orðum ýta undir atferli eða líkamseinkenni sem að öllu jöfnu auka líkurnar á að genin berist áfram.

LESTU EINNIG

Sumir aðrir vísindamenn hafa raunar gagnrýnt rannsóknina. Þeir benda á að þeir sem stundað hafi kynlíf með bólfélaga af sama kyni þurfi ekki endilega að vera samkynhneigðir og að þeir sem aldrei hafi átt bólfélaga af sama kyni og þeir sjálfir, þurfi alls ekki að vera gagnkynhneigðir. Því þurfi erfðaeiginleikarnir ekki endilega að tengjast því hvoru kyninu fólk laðast að, heldur því hvort það leyfir sér að gefa kynórum sínum lausan tauminn.

 

Annan líffræðilegan þátt má þó mjög sennilega tengja beint við samkynhneigð og hann hefur ekkert með erfðavísa að gera.

 

Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að fjöldi eldri bræðra í systkinahópi hefur afgerandi áhrif á það hvort piltar verða samkynhneigðir eður ei.

 

Í könnun einni komust vísindamenn að raun um að líkurnar á að piltur verði samkynhneigður aukist um alls 33% fyrir hvern eldri bróður sem pilturinn á.

Eldri bræður hafa áhrif á kynhneigð

Hjá karlmönnum aukast líkurnar á samkynhneigð fyrir hvern eldri bróður sem þeir eiga. Skýringuna er sennilega að finna í samspilinu á milli drengjafóstra og ónæmiskerfis móður þeirra.

Elsti sonurinn kallar fram mótefni

Drengir hafa yfir að ráða próteini sem nefnist NLGN4Y (blátt) sem konur búa ekki yfir. Þegar kona gengur með fyrsta soninn kannast ónæmiskerfi hennar ekki við próteinið og hún byrjar að framleiða mótefni (rautt) sem beinast að próteininu.

Mótefni leita uppi heila yngri bróður

Ef konan gengur með son á nýjan leik myndar ónæmiskerfið fljótt mótefni gegn NLGN4Y og magn mótefnanna verður fyrir vikið meira en við átti í fyrri meðgöngunni. Mótefnin tengjast próteininu í heila barnsins.

Heilinn þroskast með öðru móti

Mótefnin hafa að öllum líkindum áhrif á þroska heilans en vísindamenn vita enn ekki fyrir víst á hvern hátt. Sumar rannsóknir benda raunar til þess að munur sé á tilteknum heilastöðvum gagn- og samkynhneigðra karla, m.a. í heilastúkunni.

Þetta mikilvægi eldri bræðra á sennilega rætur að rekja til þess að ónæmiskerfi móðurinnar framleiðir fleiri mótefni gegn próteinum sonanna í hvert skipti sem hún gengur með dreng. Mótefnin hafa svo áhrif á heila ófæddu drengjanna, fyrir einhverjar sakir en beina þeim í átt að samkynhneigð.

 

Fyrirbærið hefur að öllum líkindum í för með sér þróunarlegan ávinning sem vísindamönnum er þó enn ókunnugt um. Þó er einnig hugsanlegt að um sé að ræða tilviljanakenndan fylgifisk í líffræðilegri samsetningu manna.

 

Hugarórar styrkja heilann

Ímyndanir okkar eru ekki ætíð í samræmi við kynhegðunina. Á meðan 37% kvenna í kanadísku rannsókninni frá árinu 2015 sögðust hafa ímyndað sér kynlíf með annarri konu töldu aðeins 19% sömu kvenna sig vera sam- eða tvíkynhneigðar. Önnur rannsókn leiddi í ljós að einungis 8,7% kvenna hafa í raun stundað kynlíf með bólfélaga af sama kyni.

 

Hugaróra er þó unnt að upplifa á annan veg en einungis með öðrum aðila. Á netinu er hægt að upplifa hvers kyns hugaróra og ef marka má tékkneska rannsókn frá árinu 2018 horfir 72% ungs fólks á klám og er skiptingin milli kynjanna 96% pilta og 59% stúlkna.

46 prósent karla höfðu látið sig dreyma um að vera bundnir á meðan þeir stunduðu kynlíf.

Joyal et al., 2015

 

Klámið gerir fólki kleift að upplifa langanir sem teygja sig sennilega lengra en fólk leggur stund á sjálft með rekkjunaut sínum og fyrir vikið getur klám orðið eins konar vímuvaldur. Ýmsar rannsóknir gefa til kynna að klám valdi eins konar fíkn í heilanum og geti í sumum tilvikið haft eyðileggjandi áhrif á kynlíf fólks.

 

Því skyldi umgangast klám af varfærni. Á hinn bóginn er margt sem bendir til þess að kynferðislegir dagdraumar gagnist heilanum vel.

 

Árið 2006 fengu bandarískir vísindamenn hóp tilraunaþátttakenda til að leysa verkefni sem kröfðust góðrar sköpunargáfu. Áður en að þessu kom höfðu þátttakendurnir verið beðnir um að leiða hugann að vel heppnuðu stefnumóti sem annað hvort hefði aðeins átt sér stað einu sinni ellegar markað upphafið að lengra ástarsambandi.

 

Tilraunin leiddi í ljós að hugarórarnir betrumbættu frammistöðu þátttakendanna í sköpunarverkefninu. Hvað karlmennina áhrærði átti það bæði við um hugaróra í tengslum við skammtímasambönd og þau sem lengra höfðu varað, á meðan sköpunargleði kvenna varð einkum fyrir örvun af ímyndunum um langvarandi sambönd. Hugsanir um ást og kynlíf bæta með öðrum orðum getu okkar til að hugsa út fyrir kassann.

 

Ímyndun um kynlíf gagnast með öðrum orðum vel þeim sem eiga í basli með erfitt verkefni á vinnustað.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: LEA MILLING KORSHOLM

Shutterstock, © Shutterstock & Lotte Fredslund,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Jól

Hver er uppruni jólanna?

Alheimurinn

Fjórar óskiljanlegar FFH-kenningar

Alheimurinn

Úr hverju er alheimur?

Heilsa

Sérstakar svefnvenjur geta aukið hættuna á hjartasjúkdómum um 26 prósent

Náttúran

Bessadýr: Harðgerðustu lífverur Jarðar

Maðurinn

Þess vegna er óreiða góð fyrir sköpunargáfu þína

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.