Kjarnorkusprengja getur – allavega fræðilega séð – stöðvað loftstein. Aðferðin getur þó trúlega aðeins komið til greina sem allra síðasta neyðarúrræði. Það var niðurstaða nákvæmrar athugunar bandarískra vísindamanna 2021.
Stjarneðlisfræðingurinn Patrick King hjá John Hopkins-háskóla veitti verkefninu forstöðu og í niðurstöðunum er undirstrikað að besta lausnin sé að uppgötva slíkan loftstein mörgum árum áður en hann rekst á jörðina.
Það veitir tækifæri til að ýta við honum, t.d. með DART-kerfinu sem NASA þróaði og var prófað í fyrsta sinn í september 2022. Þetta breytir stefnu loftsteinsins ekki nema örlítið en sé það gert nógu snemma dugar það til að loftsteinninn fari fram hjá í öruggri fjarlægð.
LESTU EINNIG
Smærri loftsteinar geta komist mjög nálægt áður en þeir finnast og við slíkar aðstæður kæmi kjarnorkan til álita.
Patrick King og félagar hans keyrðu tölvulíkön af sprengingum á loftsteinum, 100 metra í þvermál sem ættu eftir allt frá hálfs árs niður í viku ferð til jarðar.
Kjarnorkusprengja líkansins var eitt megatonn eða um 65 sinnum öflugri en sprengjan sem varpað var á Hírósíma og slík sprengja reyndist sundra loftsteini í smámola.
Kjarnavopn geta bjargað hnettinum
Bandarískir og rússneskir vísindamenn hafa reiknað út hvernig nota megi kjarnorkusprengjur til að sundra hættulegum loftsteinum.
1. Sprengjan er neyðarlausn
Ef loftsteinn kemur nálægt jörðu getur sprenging verið besta lausnin. Jafnvel öflugar kjarnasprengjur eru undir tonni að þyngd og eldflaugar ráða vel við að bera þær.
2. Steinninn splundrast
Sprengjan á að geta splundrað loftsteininum. Útreikningar sýna að 1 megatonn dugar til að mola 100 metra loftstein í smátt.
3. Aðeins fáeinir smásteinar
Því fyrr sem loftsteinninn er sprengdur, því betra. Gerist það þegar hann á tvo mánuði eftir, nær aðeins 0,1% af massanum til jarðar.
Árið 2018 rannsökuðu rússneskir vísindamenn þann möguleika að sprengja stærri loftstein um 200 metra í þvermál. Greiningar þeirra sýndu að þriggja megatonna sprengja dygði en áhrifin yrðu líka meiri eftir því sem sprengjan væri nær miðju steinsins, t.d. ofan á gíg.
Beinar tilraunir með loftsteinasprengingar eru erfiðleikum bundnar þar eð alþjóðasáttmálar banna kjarnavopn í geimnum. En standi hnettinum í raun ógn af loftsteini verða trúlega flest ríki reiðubúin til undantekninga.