Hvernig virkar pillan?- Hversu örugg er pillan? – Hvaða aukaverkanir eru af völdum pillunnar? – Geta karlar tekið inn pilluna?
Pillan frelsaði konurnar
„Engin kona getur sagst vera frjáls fyrr en hún getur ráðið sjálf yfir líkama sínum“, sagði kvenréttindakonan Margaret Sanger. Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á kvenfrelsi og Margaret þessi.
Á sjötta áratug síðustu aldar fékk hún milljónaerfingjann Katharine McCormick til að leggja 40.000 Bandaríkjadali í þróun „töfratöflu“ fyrir konur og var pillunni ætlað að koma í veg fyrir óæskilega þungun.
Maðurinn sem hugðist hrinda í framkvæmd þessum gamla draumi Margaretar um getnaðarvörn í pilluformi, var bandaríski líffræðingurinn Gregory Pincus.
,,Engin kona getur sagst vera frjáls fyrr en hún getur sjálf ráðið yfir líkama sínum.”
Margaret Sanger, bandarísk kvenréttindakona
Gregory Pincus og starfsbróðir hans, Min-Chueh Chang, stunduðu tilraunir með dýr á 4. áratug síðustu aldar þar sem hormónagjöf var beitt í getnaðarvarnarskyni og útkoma þessara tilrauna var svo notuð í getnaðarvarnarpillunni sem kom á markað í Bandaríkjunum árið 1960 og barst svo til Íslands sex árum síðar.
Margaret Sanger lést árið 1966 og varð fyrir bragðið ekki vitni að þeim gífurlegu áhrifum sem pillan hafði á kynlífsbyltingu kvenna, svo og aukinni atvinnuþátttöku þeirra sem pillan kom til leiðar þegar konur loks fóru að ráða yfir líkömum sínum.
Í dag taka rösklega hundrað milljón konur um gjörvallan heim pilluna dags daglega og árið 1993 hlaut pillan tilnefningu sem eitt af sjö undrum nútímaheimsins í tímaritinu The Economist.
Tímalína getnaðarvarnarpillunnar
Pillan kom fyrst á markað fyrir sextíu árum. Allar götur síðan hefur þessi litla pilla verið ein mest notaða getnaðarvörn heims.
– 1955
Tilraunir með pilluna á fólki í fyrsta sinn.
– 1960
Fyrsta getnaðarvarnarpilla heims, Enovid, kom á markað í Bandaríkjunum.
– 1966
Pillan kom á markað á Íslandi. Sex árum síðar notaði um þriðjungur íslenskra kvenna á aldrinum 15-44 pilluna.
– 1980-1990
Á Íslandi dró verulega úr barneignum eftir 1960 en þá eignuðust konur að meðaltali ríflega fjögur börn en einungis áratug síðar, þ.e. eftir að pillan kom á markað, var talan komin niður í 2,81.
– Í dag
Í dag notar alls 151 milljón kvenna pilluna á heimsvísu. Algengasta getnaðarvörn heims er engu að síður fólgin í ófrjósemisaðgerð sem 219 milljón konur um heiminn allan hafa valið.
Hvernig virkar pillan?
Þó svo að pillan hafi haft gríðarleg og margþætt áhrif á samfélagið allt þá er hún í raun einkar einföld hvað samsetningu snertir.
Pillan samanstendur af tveimur framleiddum kynhormónum, ethínýlestradíól (hormónið estrógen) og gestagen (hormónið prógesterón).
Þessi tilbúnu kynhormón koma í veg fyrir þungun með því að bæla FSH- og LH-hormónin sem myndast í heiladinglinum.
FSH og LH eru yfirstýrandi hormón sem eiga þátt í egglosun og án þessara hormóna á þungun sér ekki stað.
Svona virkar pillan
Getnaðarvarnarpillan felur í sér framleidd hormón sem hefta framleiðslu kynhormóna sem stuðla að egglosun. Auk þess verður slímið í leghálsinum þykkara svo sáðfrumur komast síður upp í legið.
3. Kynhormónum fjölgar
Pillan er tekin inn. Hún hefur að geyma tvö framleidd kynhormón sem kvenlíkaminn að öllu jöfnu framleiðir. Um er að ræða ethínýlestradíól (hormónið estrógen) og gestagen (hormónið prógesterón).
2. Hormónaframleiðslan bæld
Aukið magn þessara framleiddu hormóna bælir losun gulbússtýrihormóns (LH) og eggjastokkaörvandi hormóns (FSH) í heiladinglinum en um er að ræða lítinn kirtil í heila.
3. Ekkert egglos verður
LH veldur því að frjóvgað egg losnar úr eggjastokk í eggjaleiðara en FSH veldur því að eggjastokkarnir stækka. Án þessara hormóna verður ekkert egglos. Gestagen gerir það að verkum að slímið í leghálsinum verður þykkara og sáðfrumurnar komast ekki í gegn.
Hversu örugg er pillan?
Pillan er ein öruggasta getnaðarvörnin sem fyrirfinnst og ef hún er tekin inn á réttan hátt er 99,9% öruggt að konur verða ekki þungaðar.
Engu að síður hendir það 1-2% kvenna hér á landi að verða óléttar, þrátt fyrir að vera á pillunni. Ástæðan er sú að konur gleyma að taka pilluna og þá stoppar eðlileg hindrun á LH- og FSH-hormónum.
Í rannsókn einni sem birtist í vísindatímaritinu Science Translational Medicine árið 2019 greindu vísindamenn frá því að á bilinu 40-50 prósent kvenna missi úr eina pillu á hverju þriggja mánaða tímabili sem þær nota getnaðarvarnarpillur.
Hvað gerist ef karlmaður tekur pilluna?
Verði karlmanni það á að gleypa eina pillu eða tvær, kemur það ekki að sök.
Ef hins vegar karlmenn taka pilluna inn reglulega munu framleiddu kvenhormónin í töflunum hafa væg „kvenleg“ áhrif, þannig að maðurinn gæti fengið breiðari mjaðmir, mýkri húð og stærri brjóst.
Estrógenskammturinn í pillunni er aðeins tíundihluti af því sem transkonur taka inn í því skyni að leiðrétta kyn. Míní-pillan sem aðeins hefur að geyma prógesterón, myndi fyrst og fremst valda fækkun sáðfrumna og draga úr kynhvötinni í körlum.
Hvaða aukaverkanir hefur pillan í för með sér?
Þó svo að enginn vafi leiki á að pillan geri það gagn sem henni er ætlað, hafa hugsanlegar aukaverkanir hennar verið ræddar í þaula allar götur frá því að pillan fyrst kom á markað á 7. áratugnum.
Fyrsta getnaðarvarnarpillan fól í sér 100 μg estrógens og þessi stóri skammtur af kvenhormóninu hafði það í för með sér að konur á pillunni fundu fyrir meðgöngueinkennum í líkingu við flökurleika, þyngdaraukningu, höfuðverk og skapsveiflur.
Hættulegasta aukaverkunin í tengslum við notkun pillunnar er aukin hætta á myndun blóðtappa.
Gera má ráð fyrir að tvær til þrjár konur af hverjum tíu þúsund sem hvorki eru þungaðar né á pillunni, fái blóðtappa í slagæð eða bláæð. Ef einungis eru taldar konur sem eru á pillunni, eykst fjöldinn upp í sex til níu konur af hverjum 10.000.
Vísindamenn: Pillan hefur áhrif á skapgerð og ónæmiskerfi
Þessi lítillega aukna hætta á blóðtappa hefur löngum litað alla umræðu um aukaverkanir pillunnar. Nú gefa ýmsar rannsóknir til kynna að pillan kunni jafnframt að hafa neikvæð áhrif á geðslag, streitu og ónæmiskerfi.
Í dansk-bandarískri rannsókn frá árinu 2020 tókst að sýna fram á að konur sem taka pilluna séu með meira magn af oxýtósíni, því sem kallast kærleikshormónið.
Þetta kann í fljótu bragði að virðast jákvætt en í raun réttri kann það að hafa neikvæð áhrif á skapið. Þetta er sökum þess að aukið oxýtósínmagn kann að leiða til þess að konurnar skynji ekki sömu gleði, t.d. í tengslum við hlátur eða ást.
Skapferlið kann því fyrir vikið að verða flatara sem kann að útskýra hvers vegna vísindamenn áður fyrr hafa rekist á bein tengsl á milli getnaðarvarnarpillunnar og notkunar þunglyndislyfja.
Vísindaverkefni ætlað að gefa svör
Bundnar eru vonir við að danskt vísindaverkefni færi okkur einhver svör á næstu mánuðum og hægt verði að komast að raun um hvort pillan í raun ýti undir hættu á þunglyndi.
Tilraun þessi mun felast í því að 20 heilbrigðar konur sem hafa ekki tekið pilluna áður, verði heilaskannaðar alls þrisvar. Í fyrsta sinn áður en þær taka allra fyrstu pilluna, þá þremur mánuðum síðar og loks í þriðja skipti eftir að hafa tekið þriggja mánaða hlé frá pillunni. Á öllu tímabilinu verður fylgst grannt með andlegri líðan kvennanna.
Samkvæmt upplýsingum vísindamannanna að baki verkefninu hefur slík rannsókn aldrei verið gerð áður.
Auk þess að hafa áhrif á þunglyndi benda aðrar rannsóknir til þess að konur sem taka pilluna séu með meira af streituhormóninu kortísóli en gerist og gengur og að pillan geti aukið hættuna á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, á borð við MS og exem.
Er til getnaðarvarnarpilla fyrir karla?
Eftir að pillan kom á markað hafa eftirfarandi úrræði bæst á listann yfir getnaðarvarnir fyrir konur: hormónalykkja, koparlykkja, hormónastafur, hormónaplástur og hormónahringur.
Enn sem komið er er smokkurinn eina fáanlega getnaðarvörnin fyrir karla (að undanskilinni ófrjósemisaðgerð) en brátt verður hugsanlega unnt að bæta getnaðarvarnarpillum á þennan stutta lista.
Árið 2018 fór fram tilraun við háskólann í Washington sem fólst í því að rannsaka áhrif nýrrar töflu sem felur í sér efni sem kallast DMAU, á eitt hundrað körlum.
Líkt og við á um pilluna fyrir konur bælir efnið kynhormónin en þar sem um er að ræða karla táknar það að framleiðsla sáðfrumna stöðvast.
Getnaðarvarnarpilla fyrir karlmenn stöðvar sáðframleiðslu
Pillan sem ætluð er körlum felur í sér framleidd kynhormón sem stöðva framleiðslu sáðfrumna með því að bæla tiltekin hormón í heiladinglinum.
Fyrri tilraunir með þróun getnaðarvarnartaflna fyrir karla höfðu í för með sér óæskilegar aukaverkanir í líkingu við þunglyndi, óreglulegan hjartslátt, vöðvaverki, aukna kynhvöt, graftarbólur, auk þess sem frjósemi minnkaði eftir lyfjanotkunina.
Af þeim eitt hundrað körlum sem tóku þátt í tilrauninni fundu mjög fáir fyrir verulegum aukaverkunum á borð við höfuðverk, minnkaða kynhvöt og graftarbólur.
Karlmenn skyldu þó ekki vænta þess að geta haft smokkinn óhreyfðan í seðlaveskinu um ókomna framtíð. Tilraunir með getnaðarvarnarpillur fyrir karla eru enn sem komið er á frumstigi og óvíst hvenær og hvort þær eiga eftir að koma á markaðinn.
Krem hugsanlega ný getnaðarvörn fyrir karla
Vísindamenn hafa gert tilraunir með sérstakt hlaupkennt krem sem körlum er ætlað að bera á húðina til að stöðva framleiðslu sáðfrumna.
Líkt og við á um pilluna fyrir karla felur hlaup þetta í sér blöndu af framleiddu prógesteróni og testósteróni sem hefta myndun sáðfrumna og sjá til þess að testósterónmagn karlmannsins haldist eðlilegt.
Krem þetta er borið á öxl og verið er að gera tilraunir með það á mönnum í Englandi sem stendur. Sambærilegar tilraunir eru á döfinni í Bandaríkjunum.
Enn sem komið er hafa þessi nýju getnaðarvarnarúrræði ekki haft í för með sér óæskilegar þunganir, né heldur aukaverkanir sem orð er á gerandi.