Náttúran

Háhyrningurinn: líklega skæðasta ránspendýr sögunnar

Háhyrningar eru útbreiddasta spendýrategund hnattarins á eftir okkur mönnum. Þessi farsæld þeirra byggir á mikilli greind og háþróuðum veiðiaðferðum, en nú ógnar gamalt og þrálátt eitur tilvist háhyrninganna.

BIRT: 05/04/2024

Háhyrningar eru stærstir allra í höfrungaættinni og einhver skæðustu dráparar úthafanna.

 

Tarfarnir verða á milli sex og átta metra langir og vega um sex tonn, sem er álíka mikið og fullvaxinn fíll. Kýrnar eru öllu minni, en geta státað af allt að fimm tonnum og lengd sem nemur sex til sjö metrum.

 

Háhyrningurinn er með um 50 banvænar og oddhvassar tennur. Þær eru næstum því jafn margar og í krókódílum og geta þær orðið allt að 10 cm langar, næstum helmingi stærri en tennur hvítháfsins.

Höfuðkúpa háhyrnings sýnir hve stórar tennurnar eru í raun.

Háhyrningar eru bráðgáfaðir

Háhyrningar, rétt eins og margar aðrar tegundir hvala og höfrunga, búa yfir mikilli greind – reyndar eru þeir með næst stærsta heila meðal allra sjávadýra, sé miðað við heilamassa og stærð.

 

Háhyrningar eiga í samskiptum sín á milli með einkennandi flautuhljóðum og smellum, og hver hópur er með sinn eigin flóknu mállýsku.

 

Rannsóknir hafa jafnvel sýnt að þeir geti lært að tala sama „tungumál“ og höfrungar, ef þeir eru lengi í félagsskap með þeim.

Af hverju heita þeir háhyrningar?

Nafnið háhyrningur er vegna þess að bakuggi þeirra er sá langhæsti meðal höfrunga og getur orðið allt að 1,8 metra hár. Bakuggi þessi nefnist einnig horn á íslensku og þannig er nafnið tilkomið.

Háhyrningar eru afar mikil félagsdýr og lifa jafnan í fjölskylduhópum, sem geta spannað fjórar kynslóðir.

 

Þeim er stundum skipt í tvo flokka:

 

– Staðbundnir hópar

 

– Flökkuhópar

 

Staðbundnu hóparnir samanstanda af 7 til 50 háhyrningum, sem lifa einkum á fiski, meðan flökkuhóparnir telja í hæsta lagi sjö dýr sem lifa einkum á sjávardýrum eins og sæljónum og selum.

 

Flokkarnir nota mismunandi sérkennandi veiðiaðferðir sem að berast frá kynslóð til kynslóðar og oft þarf mikla samvinnu til að veiðarnar gangi upp.

Einkennandi svartir og hvítir litir háhyrninga virka eins og dulargervi, sem gerir bráðinni örðugara að greina skepnuna fyrr en það er of seint.

Staðreyndir um háhyrninga

Latneskt heiti: Orcinus orca

 

Stærð: Yfirleitt verða karldýr 6 – 8 metra löng og vega 3,5 til 6 tonn. Kvendýr eru öllu minni. Stærsti háhyrningur sem hefur nokkurn tíma verið mældur reyndist vera tæpir tíu metrar og vóg heil tíu tonn.

 

Lífaldur: Í náttúrunni geta karldýr orðið allt að 60 ára, meðan kvendýrin geta náð 90 ára aldri. Háhyrningar í haldi manna verða aldrei svo gamlir.

 

Hámarkshraði: Háhyrningar geta synt með allt að 56 km/klst.

 

Búsvæði: Út um heim allan – bæði nærri ströndum og úti á reginhafi.

 

Einkenni: Háhyrningar eru svartir og hvítir með einkennandi gráan blett á bakugga, sem er stundum nefndur söðulblettur. Litir háhyrninga eru dulargervi hans. Svart bakið gerir t.d. bráðinni erfitt að sjá háhyrninga ef hún er stödd á yfirborðinu og rýnir niður í djúpið. Hvítur kviðurinn hefur sömu áhrif þegar bráðin er fyrir neðan og horfir upp að ljósu sjávarborðinu. Háhyrningurinn er með stærsta bakugga allra sjávardýra, og getur hann orðið allt að 180 cm. Bakugginn er stundum boginn og ein tilgáta segir þetta stafa af niðurbroti collagens vegna of mikils lofthita. Bognir bakuggar sjást gjarnan hjá háhyrningum í haldi og slíkir háhyrningar eru oft í heitu lofti vegna stöðugra sýninga sinna og brella, sem þeir eru látnir framkvæma.

Hvar lifa háhyrningar?

Á eftir manninum eru háhyrningar útbreiddasta spendýr jarðar og finnast þeir í öllum heimshöfum. Allt frá hitabeltinu til ískaldra skautanna.

 

Vilji maður sjá háhyrninga í sínu náttúrulega umhverfi er hægur vandi að fara með hvalaskoðunarskipum á mörgum stöðum hér á landi.

 

Háhyrningar sem að finnast á mörgum svæðum jarðar (blátt) eru útbreiddasta spendýr jarðar á eftir manneskjunni.

Háhyrningar lifa bæði úti á reginhafi og eins við strendur. Athuganir benda þó til að háhyrningar kjósi fremur að lifa nærri ströndum.

 

Núna eru um 59 háhyrningar í haldi í mismunandi skemmtigörðum víðsvegar í heiminum. Þriðjungur þeirra er í BNA í vatnaskemmtigörðum eins og t.d. Sea World. Árið 2017 tilkynnti Sea World að þeir muni leggja niður ræktun á háhyrningum.

 

LESTU EINNIG

Hvað étur háhyrningurinn?

Háhyrningurinn étur að meðaltali 250 kg á degi hverjum.

 

Matseðill hans er afar fjölbreyttur og er þar að finna nokkur hundruð tegundir, allt frá smokkfiskum og mörgæsum yfir í sæljón, seli og hákarla. Einnig hafa veiðst háhyrningar sem hafa étið hirti og elgi, þegar þeir hafa vogað sér of langt út til sunds.

 

Háhyrningar eru einnig með nokkur mannslíf á samviskunni, en það stafar ekki af því að þeir séu sérlega sólgnir í mannakjöt.

 

Þeir háhyrningar sem hafa drepið menn hafa allir lifað í haldi manna og þær manneskjur sem hafa glatað lífi eru einkum þjálfarar þeirra. Í öllum tilvikum hafa háhyrningar gert árás vegna þess að þeim fannst sér vera ógnað.

 

Eitt þekktasta slysið átti sér stað árið 2010 þegar 40 ára kvenkyns þjálfari var drepin af háhyrningnum Tilikum í bandaríska Sea World – garðinum í Orlando, Flórída.

 

Háhyrningurinn Tilikum átti þátt í þremur dauðsföllum. Þegar þjálfarinn Keltie Byrne rann til og féll í laug háhyrningsins árið 1991 var Tilikum einn þeirra háhyrninga sem dró hana undir vatnið og hún drukknaði. Árið 1999 fannst ungur maður látinn í laug Tilikum eftir að hann hafi stokkið niður til háhyrningsins eftir lokun skemmtigarðsins. Og árið 2010 dró Tilikum hina 40 ára gömlu Dawn Branshau niður í vatnið eftir sýningu. Hún hlaut margvísleg meiðsl og drukknaði.

Hvernig veiða háhyrningar?

Háhyrningar veiða með mismunandi aðferðum, allt eftir því í hvaða flokki þeir lifa.

 

Sumir hópar sérhæfa sig í að reka saman fiskitorfur og gæða sér síðan á réttunum. Aðrir vinna saman að því að mynda öflugar bylgjur í vatninu sem skola selum niður af ísjökum og í gin þeirra.

 

Sumir háhyrningar kasta sér jafnvel alla leið upp á land til að læsa tönnum í sæljón og seli og draga bráðina síðan út í sjóinn.

 

Þeir hika ekki við að ráðast á dýr sem eru mun stærri en þeir sjálfir. Það eru til fjölmörg dæmi um hópa sem sameiginlega hafa ráðið niðurlögum hvítháfa og jafnvel steypireyðar.

 

Svona veiðir háhyrningurinn

Háhyrningar veiða í hópum og nýta sér mismunandi veiðiaðferðir. Og veiðin á sér ekki einungis stað úti í sjónum. Stundum láta háhyrningarnir sig stranda viljandi til að næla sér í feitan sel.

Umbreyta fiskitorfu í hlaðborð

Með því að blása loftbólum og busla með uggunum þvinga háhyrningar fiskana til að þétta sig saman. Þegar búið er að króa fiskana þannig af gæða háhyrningar sér á torfunni.

Brjóta björgunarfleka sela

Þegar háhyrningar koma auga á sel á ísjaka ráðast þeir á ísjakann. Rándýrin mola smám saman ísjakann þar til að selurinn fellur á endanum í sjóinn.

Kasta sér upp á land

Selir geta ekki einu sinni verið öryggir um sig á landi. Háhyrningar eru þekktir fyrir að vaða upp á ströndina til að læsa tönnunum í sæljón og seli sem hvíla sig þar.

Gamalt eitur ógnar háhyrningum

Meira en helmingur af háhyrningum heims eru á barmi útrýmingar og eiga á hættu að deyja alveg út eftir 30 – 50 ár. Þá eru þeir sagðir aldauða. Þetta má lesa í dapurlegri skýrslu en rannsókn þessi var birt í viðurkennda tímaritinu Science árið 2018.

 

Vísindamennirnir að baki rannsókninni hafa grandskoðað meira en 350 háhyrninga frá 19 flokkum um heim allan. Þar með er þetta umfangsmesta rannsókn á háhyrningum í sögunni. Sökudólgurinn sem ógnar nú tilvist háhyrninganna er þó hvorki ofveiðar né loftslagsbreytingar, heldur bannað eiturefni sem nefnist PCB.

 

PCB var vinsælt efnasamband í byggingarefnum en hefur verið bannað frá árinu 1986 þegar menn uppgötvuðu skaðsemi þess, bæði gagnvart mönnum og dýrum.

 

Þrátt fyrir að PCB hafi verið bannað í fjóra áratugi safnast eitrið ennþá upp í fæðukeðju náttúrunnar og þá sérstaklega í fitu rándýra og mest hjá þeim sem eru efst í fæðukeðjunni.

 

Háhyrningskálfur nærist á mjólk hjá móður sinni í allt að tvö ár.

Háhyrningar eru í sérstakri hættu því afkvæmi þeirra taka upp mikið magn af PCB fá feitri móðurmjólkinni, þar sem hún á sinni löngu ævi lifir á bráð með hárri fituprósentu.

 

Vistsvæði háhyrninga

Háhyrningar eru útbreiddir um allan hnöttinn og talið er að stofnstærð þeirra sé núna um 100.000 dýr.

 

Hér eru þeir fimm staðir þar sem stofnarnir eru taldir vera hvað stærstir:

 

– Suðurskautið
Stofnstærð: 70 – 80.000

 

– Kyrrahaf-hitabelti
Stofnstærð: Um 8000

 

– Japan
Stofnstærð: Um 2000

 

– Norðaustur Kyrrahaf
Stofnstærð: Um 1500

 

– Noregur og Ísland
Stofnstærð: Um 2000

75 háhyrningar leggja steypireiði að velli

Háhyrningar hafa fengið viðurnefnið „úlfar hafsins“, því rétt eins og úlfarnir veiða þessi greindu rándýr bráðina í hópum og nýta sér útpældar veiðiaðferðir.

 

Yfirleitt samanstendur matseðillinn af minni bráð, en í undantekningartilvikum ráðast háhyrningar jafnvel á dýr sem eru langtum stærri en þeir.

 

Slík árás var skrásett um 20 km undan ströndum Ástralíu þann 21. mars 2021.

 

Þá réðist hópur um 75 háhyrninga hvað eftir annað á 15 metra langa steypireiðinn sem var líklega á milli 30 og 40 tonn.

 

Myndskeið: Sjáið háhyrninga drepa steypireiði

Steypireiður getur orðið allt að 25 metra löng og er því næstum því fjórum sinnum stærri en margir öflugir háhyrningar.

Sérfræðingar telja að flokkurinn hafi samanstaðið af 5 – 6 háhyrningafjölskyldum, sem ákváðu sameiginlega að ráðast að þessari stóru skepnu.

 

Árásin samanstóð af þremur mismunandi aðgerðum.

 

Sumir háhyrninganna syntu beint með trjónuna í kvið steypireiðarinnar af gríðarlegu afli og fyrir vikið fékk hún fékk innri blæðingar. Annar hópur hindruðu steypireiðinni að komast upp á yfirborðið og draga andann með því að stökkva upp á bak hennar og þrýsta henni niður. Síðasti hópur háhyrninganna beit sig fastan í stóra kjálka hvalsins.

 

Eftir þriggja tíma þrotlausa baráttu var búið að murka lífið úr steypireiðinni og háhyrningarnir gátu skipt afrakstrinum á milli sín.

 

Árás þessi á steypireiðina er einstök því ekki hefur áður tekist að skrásetja hvernig háhyrningar þvert á fjölskyldubönd vinna saman með slíkum hætti.

 

Steypireiður er þó alls ekki fyrsta stóra bráðin sem endar í kjafti þessum ógurlegu rándýra.

 

Í Suður – Afríku hafa menn verið vitni að fjölmörgum árása háhyrninga á hvítháfa.

 

Sjávarlíffræðingar sem hafa skrásett hvar hvítháfanna í Suður – Afríku halda sig jafnan, hafa komist að því að þegar háhyrningar dúkka upp á yfirráðasvæði þeirra, þá láta hákarlarnir sig hverfa á fáeinum sekúndum – og koma ekki aftur í allt að eitt ár.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN

Shutterstock,© NOAA,© Milan Boers,© John Durban/NOAA,© Tony Wu/Nature Picture Library,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

Lifandi Saga

„Pólskir riddarar réðust á þýska skriðdreka“

Náttúran

Finna skordýr sársauka?

Maðurinn

Heilaþvottur á að losa þig við versta óttann

Maðurinn

Sannleikurinn um heilabilun

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is