Kenningin um Miklahvell
Vísindalega kenningu er ekki hægt að sanna, heldur verður að reyna að afsanna hana.
Kenningin um Miklahvell hvílir á þremur stoðum sem hver á sinn hátt hefur sannfært langflesta vísindamenn um að kenningin sé besta lýsing á tilurð alheimsins sem fram hefur komið.
1. stoð: Útþensla alheimsins
Fyrsta stoðin er útþensla alheimsins en hún fylgir svonefndu Hubble-lögmáli. Stjörnufræðingar hafa séð hvernig stjörnuþokur fjarlægjast hver aðra og hafa í rökréttu framhaldi reiknað sig til baka að þeim tímapunkti þegar allt efni alheimsins var saman komið í einum punkti.
2. stoð: Dreifing efnis í alheiminum
Önnur súlan er dreifing efnis í alheiminum. Alheimurinn er að þremur fjórðu hlutum gerður úr vetni og að einum fjórða úr helíum en auk þess er örlítið magn þyngri frumefna. Samkvæmt Miklahvellskenningunni myndaðist vetni fyrst og eftir fáeinar mínútur rann nokkurt vetni saman og myndaði helíum við kjarnasamruna.
Þessi samruni stöðvaðist þegar efnið dreifðist og þynntist og útreikningar sýna einmitt þau hlutföll vetnis og helíums sem við sjáum í alheiminum.
3. stoð: Bakgrunnsgeislunin
Þriðja stoðin er bakgrunnsgeislunin sem berst til okkar úr öllum áttum í geimnum. Samkvæmt Miklahvellskenningunni myndaðist þessi geislun þegar alheimurinn var 380.000 ára gamall og efnið hafði kólnað niður í um 3.000 gráður.
Nú greinist þessi geislun um þremur gráðum yfir alkuli. Það stafar af því að alheimurinn hefur þanist út þúsundfalt síðan geislunin myndaðist fyrir mörgum milljörðum ára.