Svefnþörf er eitt af því fáa sem næstum öll dýr eiga sameiginlegt – allt frá ormum og skordýrum til fíla og hvala. Svefninn hlýtur því að vera grundvallarnauðsyn til að dýrið geti lifað.
Samt er tilgangur svefns langt í frá upplýstur. Flestir svefnrannsakendur álíta að það sé einkum heilinn sem hafi þörf fyrir svefn, annað hvort til að hreinsa til í öllum þeim skynhrifum sem heilinn hefur orðið fyrir eða til að festa ákveðnar minningar til langframa.
Holdýr sofa
Nú sýna nýjar rannsóknir að svefninn hefur haft allt annan tilgang í upphafi. Vísindamenn hjá Kyushuháskóla í Japan hafa uppgötvað að svonefndar armslöngur, frumstæð holdýr, sofa líka.
Hormónið melatónín hefur áhrif á svefnþörf heilalausra holdýra, rétt eins og hjá mönnum.
Myndbandsvöktun leiddi í ljós að þessi dýr voru virki í um fjóra tíma en fóru svo í óvirkt, dvalakennt ástand næstu fjóra tíma.
Ljósblossi vakti dýrin
Á svefntímanum gátu vísindamennirnir „vakið“ armslöngurnar með ljósblossa og þær urðu þá virkar. Jafnframt reyndist unnt að auka svefnþörf þeirra með hormóninu melatóníni og boðefninu GABA sem vitað er að eiga þátt í svefnþörf manna.
Armslöngur hafa hvorki heila né miðtaugakerfi. Þetta bendir því til að í þróunarsögunni hafi svefn komið til sögunnar á undan heilanum. Hjá þróaðri dýrum gæti svefninn síðar hafa fengið nýtt hlutverk.