Hvað vitum við?
Við erum stödd í alheimi sem er 13,7 milljarða ára gamall. En þar sem hann þenst út er sýnilegur alheimur stærri en ætla mætti í fyrstu. Sem dæmi er stjörnuþoka, hvers ljós hefur verið 10 milljarða ára á leiðinni til okkar, ekki í 10 milljarða ljósára fjarlægð. Hún er lengra í burtu því alheimur hefur þanist út meðan ljósið ferðaðist til okkar. Sé það tekið með í reikninginn er radíus hins sýnilega alheims um 42 milljarðar ljósára. Þessi geimur er nefndur hubble-alheimur.
Kenning 1: Óendanlega stór geimur
Það er ekki óhugsandi að eitthvað finnist utan við þetta svæði. Þannig opnar kenningin um Miklahvell möguleika á að það finnist óendanlega stór geimur utan við hubble-alheim.
Þetta er kallað fjölheimur (e. multiverse) af gerð 1 og samanstendur í raun af mismunandi svæðum þar sem aldur alheims setur okkur mörk um hversu langt í burtu við getum séð – og mun gera það ævinlega óháð því hvar maður er staddur. Ef þessi skýring er rétt er svarið við upprunalegu spurningunni: Fyrir utan sýnilegan alheim er bara meiri alheimur.
Kenning 2: Alheimar í tómarúmsbólum
Það er fræðilegur möguleiki á annarri gerð fjölheima sem nefnd er gerð 2. Þetta felur einnig í sér óendanlega marga alheima í þessum fjölheimi en þeir deila ekki rými með okkur. Hver alheimur er eins og bóla í tómarúmi sem hefur suma eiginleika sem við getum aldrei greint og einungis er hægt að lýsa stærðfræðilega.
Náttúrulögmálin í þessum mismunandi bólum eru að líkindum afar fjölbreytt og það felur í sér að öll hugsanleg náttúrulögmál er að finna á einum stað eða öðrum. Ef þessi skýring er hin rétta er að finna fyrir utan alheim okkar tómarúm og langt í burtu ótal aðrar bólur.
Annars má segja að kenningin um óendanlega stóran alheim af gerð 1 feli í sér óendanlegar, áhugaverðar heimspekilegar afleiðingar: Ef náttúrulögmálin eru eins alls staðar mun hvaðeina vera endurtekið óendanlega oft. Þannig að einhvers staðar er að finna ótal tvífara þína sem lesa þessa grein í Lifandi vísindum.
Fáum við svar?
Af eðlilegum ástæðum er afar örðugt að greina eitthvað fyrir utan sýnilegan alheim. Þó er einn lítill möguleiki: Árið 2008 uppgötvaðist að stjörnuþokur ferðast í gegnum alheim eins og þær séu undir áhrifum af þyngdarkrafti frá einhverju sem liggur ekki órafjarri þeim. Frekari rannsóknir á þessu svonefnda hulduflæði gæti veitt okkur haldbærari svör.