Hitastigið á yfirborði sólar er um 5.000 gráður. Á sólbletti er hitinn um 1.500 – 2.000 gráðum lægri og því verður svæðið dekkra að sjá.
Þessi tiltölulega svölu svæði stafa af segulvirkni í sólinni. Mikill hluti efnis á yfirborðinu eru rafhlaðnir hlutar frumeinda sem bæði valda seguláhrifum og verða fyrir þeim. Líta má á sólblett sem enda á röri sem gert er úr segulsviðslínum – sem sagt rafhlöðnum efniseindum sem lenda í hringsnúningi. Þegar slíkur rörendi stendur út úr yfirborði sólarinnar, heldur hann efni burtu vegna þess að segulsviðin leiða efniseindir afvega. Og vegna þess að það er efnið sem sér um varmaflutninginn, berst minni hiti upp á yfirborðið hér en annars staðar.
Að hluta til stafar þessi mikla segulvirkni af því að sólin snýst ekki um sjálfa sig á sama hátt og fastir hnettir. Við miðbaug er snúningstíminn 25 sólarhringar en aftur á móti 35 sólarhringar við pólana. Af þessu leiðir að snúist getur upp á “segulrörin” Þannig safnast upp mikil segulorka sem síðan losnar skyndilega úr læðingi og getur þá myndað mjög stóra sólbletti, suma á stærð við jörðina.
Það er reyndar líka ákveðið samhengi milli sólbletta og loftslags á jörðinni. Að líkindum er ástæðan sú að segulsvið sólar sveigir braut geimagna sem stefna á jörðina, en þær eiga nokkurn þátt í skýjamyndun í gufuhvolfinu. Þetta samspil hefur þó ekki verið skýrt til fulls.