Hvað táknar það að vera siðblindur?
Andstætt við það sem margir halda telst siðblinda ekki vera geðsjúkdómur. Um er að ræða skapgerðarbrest sem einnig kallast persónuleikaröskun.
Hins vegar greinir fræðimenn á um hvað siðblinda eiginlega sé. Siðblinda hefur verið nefnd ýmsum ólíkum heitum í gegnum tíðina, m.a. „geðveiki án ranghugmynda“ og „siðferðislegt brjálæði“.
Nú á dögum nota Bandaríkjamenn hugtakið „félagsblinda“ í stað „siðblindu“ og greiningin „andfélagsleg persónuleikaröskun“ er oft notuð á sviði geðlækninga í Bandaríkjunum.
Í alþjóðlegri sjúkdómaflokkun (ICD) sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) styðst við, er siðblinda flokkuð sem „andfélagsleg persónuleikagerð“.
Ástæða þessara nýju hugtaka er annars vegar sú að farið var að nota hugtakið „siðblindur“ sem skammaryrði og hins vegar sú að með skilgreiningunni siðblindur var ranglega einblínt á einstaklinginn sjálfan og ekki tekið tillit til þeirra erfiðu aðstæðna sem sá siðblindi upplifir í umhverfi sínu.
1 af hverjum 5 forstjórum er siðblindur
Ef marka má enska rannsókn sem gerð var við Bond háskóla, hefur 21% allra forstjóra yfir að ráða einkennum siðblindu.
Sama hlutfall er að finna meðal glæpamanna í fangelsum landsins.
Siðblindueinkenni
Hvernig eru siðblindir og hver eru einkenni þeirra? Þrátt fyrir ágreining um skilgreininguna á siðblindu eru sérfræðingar þó að mestu leyti sammála um nokkur einkenni andfélagslegrar persónuleikagerðar:
- Um er að ræða heillandi einstaklinga sem geta rætt við alla, nota mikla líkamstjáningu og virðast vera afar stefnufastir. Hins vegar er einstaklingurinn sem um getur ófær um að sýna samkennd, þ.e. skortir getuna til að lifa sig inn í hvað aðrir hugsa og hvernig þeim líður.
- Þeir ofmeta gjarnan sjálfa sig, notfæra sér aðra, ráðskast með þá og finna ekki fyrir neinni sektarkennd þótt aðrir þjáist þeirra vegna. Þeir eru oft óáreiðanlegir og ósannsöglir.
- Þeir átta sig ekki á afleiðingum gerða sinna. Siðblindir hætta oft í námi eða starfi ef eitthvað eða einhver er þeim andsnúinn, stofna til skulda – jafnvel annarra vegna – og eru jafnframt oft ofbeldishneigðir eiginmenn.
- Þeir geta ekki viðurkennt að þeir eigi við vandamál að etja sem torveldar að sama skapi að þeir leiti sér hjálpar.
Ef marka má bandaríska og norska rannsókn fer oft minna fyrir siðblindum konum en körlum.
Siðblindar konur minna á siðblinda karla en hafa þó yfir að ráða nokkrum sérstökum einkennum.
Siðblindar konur minna á siðblinda karla en hafa þó yfir að ráða nokkrum sérkennum.
Þess má einnig geta að siðblindar konur eiga það til að vera mjög afbrýðisamar, þær stela og svíkja, auk þess að daðra mikið.
Siðblindupróf
Siðblinda hefur lengi vel verið mæld á svokölluðum HARE-kvarða, þar sem gefin eru stig allt eftir því hvernig einstaklingarnir raðast í 20 ólíka flokka sem taka til skorts á samkennd, ofmats á eigin getu o.fl. Sálfræðingar einir mega leggja prófin fyrir og allir þeir sem hljóta 30 stig eða meira fá siðblindugreiningu.
Kvarði þessi hefur þó hlotið töluverða gagnrýni á undanförnum árum, þar sem hann er sagður vera of óljós og huglægur.
Hægt er að finna ýmis mismunandi próf á netinu sem sögð eru gefa til kynna hvort viðkomandi er siðblindur eður ei. Þó ber ekki að líta á niðurstöður slíkra prófana sem raunverulega greiningu því einungis læknar geta gefið út slíkar greiningar.
Hér eru fjórir þekktir siðblindingjar
Ted Bundy var bandarískur raðmorðingi sem myrti 30 konur á árunum 1974 til 1978. Sálfræðingar segja hann hafa búið yfir mörgum siðblindueinkennum, m.a. skorti á samkennd, auk þess sem hann ráðskaðist með fólk, var ofbeldishneigður og lyginn.
Richard Ramirez – einnig þekktur undir viðurnefninu Næturhrellirinn – var bandarískur raðmorðingi sem dæmdur var árið 1989 í 19-faldan dauðadóm fyrir 13 morð og margar kynferðislegar og ofbeldishneigðar árásir.
Líkt og við átti um Ted Bundy skorti Richard Ramirez samkennd og var hann greinilega mjög ofbeldishneigður. Hann sýndi enga iðrun og tók enga ábyrgð á gjörðum sínum.
Jane Toppan var bandarísk hjúkrunarkona sem misþyrmdi sjúklingum sínum og eitraði fyrir þeim. Hún var dæmd sem raðmorðingi.
Árið 1901 viðurkenndi hún að hafa orðið ellefu manns að bana og haft var eftir henni að hún hefði þann metnað að deyða fleiri hjálparvana sjúklinga en nokkur annar maður eða kona sem uppi hefði verið.
Þegar atferli hennar var endurskoðað löngu síðar komu í ljós greinileg siðblindueinkenni, t.d. iðraðist hún ekki gjörða sinna og var bæði heillandi, ráðrík og lygin.
Dennis Rader – einnig þekktur sem BTK-morðinginn – var bandarískur raðmorðingi sem myrti tíu manns á árunum 1974-1991.
Geðrannsókn leiddi í ljós að Dennis Rader var haldinn sjálfselsku og siðblindu. Hann skorti alla samkennd, ráðskaðist með aðra og fannst hann yfir lögin settur. Þetta gerði það m.a. að verkum að hann hæddist að lögreglunni í bréfum og var sannfærður um að klókindi hans myndu forða honum frá handtöku.
Vita siðblindingjar að þeir eru siðblindir?
Ef marka má kanadíska sálfræðinginn og höfundinn Robert D. Hare, höfund HARE-kvarðans, eru siðblindir meðvitaðir um hvað þeir gera og hvers vegna.
Þeir eru ekki geðtruflaðir né heldur haldnir skynvillu, líkt og t.d. á við um þá sem haldnir eru geðklofa, heldur breyta þeir af fúsum og frjálsum vilja.
Hvernig verður fólk siðblint?
Ástæðu siðblindu má sennilega bæði rekja til erfða og umhverfis og er skortur á umhyggju í barnæsku talinn vega þungt. Þess ber þó að geta að það sem virst gæti vera eðlilegt uppeldi kemur ekki í veg fyrir að fólk greinist með siðblindu.
Ófélagsleg persónuleikaröskun hellist ekki skyndilega yfir fólk á fullorðinsaldri og yfirleitt er hægt að greina fyrstu einkennin á unga aldri. Ummerki um siðblindu í barni á fyrstu skólaárum þess kunna að vera:
- endurteknar og gáleysislegar lygar
- skortur á samkennd
- mótþrói við foreldra, kennara og reglur
- lendir stöðugt í útistöðum þrátt fyrir ávítur eða aðvaranir
- stelur frá öðrum börnum eða foreldrum
- þvermóðska sem tengist árásarhneigð, einelti og rifrildum
- stendur ekki við loforð, er úti seint á kvöldin og sjaldan heima við
- skaðar eða deyðir dýr
- skemmdarverk og íkveikja
Siðblindir geta mæta vel stjórnað hvötum sínum
Sú hefðbundna hugmynd um siðblindan einstakling að hann sé hrottafenginn glæpamaður stenst ekki skoðun.
Vísindamenn hafa vakið athygli á því á síðustu árum að til séu margir siðblindir úti í samfélaginu og að þeir geti mæta vel haldið sig frá ofbeldishneigðri og andfélagslegri hegðun.
Í rannsókn einni sem gerð var við Virginia Commonwealth háskólann bentu niðurstöður t.d. til þess að siðblindur einstaklingur sem ekki fremur glæpi hafi oft tileinkað sér aukna samvisku og bætta stjórn á ofbeldishneigðu atferli.
Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að þeir sem hafa stjórn á hegðun sinni búi í meira mæli yfir öðrum sálrænum einkennum en við á um þá sem ekki tekst að hemja sig. Þeir siðblindingjar sem hafa átt því láni að fagna að hemja sig eru annars vegar óttalausari en aðrir og hins vegar hvatvísari.
Rannsóknin sýnir þó jafnframt að eiginleikar hvers og eins gefa ekkert forspárgildi um það hversu vel einstaklingunum á eftir að takast að hemja hegðun sína.
Hvernig er að vera siðblindur?
Líkt og við á um allt fólk hafa siðblindir einnig meðfædda þörf fyrir að vera elskaðir og vel liðnir.
Hegðun siðblindra auðveldar öðrum svo sannarlega ekki að nálgast þá og fyrir vikið eru þessar þarfir þeirra að öllu jöfnu ekki uppfylltar. Inn á milli geta þeir þó orðið sér meðvitaðir um þau neikvæðu áhrif sem hegðun þeirra hefur á aðra.
Oft er ekki ráðlagt að reyna að bæta hegðun þeirra sökum þess að þá skortir getuna til að geta lært af reynslu sem leiðir af sér neikvæðar og ófullnægjandi geðlægðarhugsanir.