Skip frá Evrópu gátu sótt dýrmætar vörur á ströndum landa við Indlandshaf en áttu einnig á hættu að verða fyrir árásum fjölmargra sjóræningja sem var þar að finna.
Því notuðu m.a. ensk, sænsk og dönsk verslunarfyrirtæki sérstök kaupskip sem voru fær um að verja sig sjálf.
Þessi svokölluðu Indíafarskip voru blanda af herskipum og kaupskipum sem voru bæði með fallbyssur á þilfari og lestar undir eftirsóttan varning frá Asíu.
Endurgerð af Indía-kaupskipinu Gautaborg siglir enn þann dag í dag í sænskum farvötnum.
Þessi skipagerð þróaðist á 17. öld og var notuð fram undir miðja 19. öld þegar hættan frá sjóræningjum fjaraði út.
Allt að 800 tonna farmur
Indíafarskip voru stærri en venjuleg kaupskip enda þurfti rými fyrir fjölmargar fallbyssur og jafnframt þann farm sem til þurfti til að ferðin til Austurlanda myndi borga sig. Um árið 1800 gat farmurinn verið allt að 800 tonn eða meira.
Bresk Indía-kaupskip sýndu árið 1804 mátt sinn og megin í Malakkasundi þegar skipalest stökkti frönskum herskipum á flótta – þar með töldu hinu volduga Marengo sem var með 74 fallbyssur.