Það eru til margar frásagnir um að samkynhneigð hafi verið umborin í fornum samfélögum, t.d. meðal indjána. Fyrsta samkynhneigða parið á síðari tímum sem fékk hjúskaparvottorð voru Bandaríkjamennirnir James Michael McConnell og Richard John Baker.
Árið 1971 fengu þeir skjalfest að þeir væru opinberlega giftir en hjónaband þeirra var afar umdeilt. Á áttunda áratug síðustu aldar höfðu samkynhneigðir nánast engin réttindi í BNA. Baker og McConnell ákváðu hins vegar að nýta sér gloppur í lagasetningu Minnesota, þar sem ekki var með beinum hætti bannað að gefa saman einstaklinga af sama kyni.
Mennirnir tveir sóttu um hjúskaparvottorð sem ekki krafðist þess að þeir mættu í eigin persónu – en var hafnað af héraðsdómstóli. Þeir áfrýjuðu þessum úrskurði og sóttu samtímis um vottorð í öðru héraði – eftir að Richard John Baker hafði breytt nafni sínu í öllu kynhlutlausara nafnið Pat Lynn.
Parið Baker og McConnell nýtti sér gloppur í löggjöf til að fá hjúskaparvottorð árið 1971.
Gátu ekki verið giftir – en voru giftir
Þessi nýja umsókn þeirra var samþykkt en eftir nokkrar vikur dæmdi Hæstiréttur héraðsdómstólnum í vil. Þetta fól í raun í sér að mennirnir tveir gátu ekki verið giftir en Baker og McConnell höfðu þá þegar fengið hjúskaparvottorð. Samkvæmt lögum var ekki hægt að ógilda vottorðið.
Parið var því statt í eins konar lagalegu einskis manns landi fram til ársins 2013 þegar hjónaband þeirra var viðurkennt samkvæmt lögum.
Þann 1. apríl 2001 varð Holland fyrsta landið sem leyfði vígslur tveggja einstaklinga af sama kyni. Fjögur pör voru gefin saman af borgarstjóra Amsterdam strax eftir miðnætti. 28 önnur lönd hafa síðan fylgt í fótspor Hollands þar á meðal Ísland sem heimilaði samkynhneigðum að giftast árið 2010.