Fyrsta samfélagsmiðlinum sem svipar til þess sem við þekkjum í dag, var hrint úr vör í Bandaríkjunum og var það Bandaríkjamaðurinn Andrew Weinreich sem átti heiðurinn af því. Hann útbjó miðilinn Six Degrees en heimasíðu hans var hleypt af stokkunum í maí 1997.
Á heimasíðu Six Degrees gafst notendum tækifæri til að stofna reikninga, vingast við aðra notendur, senda vinum sínum skilaboð og að „blogga“ en með því var átt við að notendurnir gátu ritað frásagnir úr lífi sínu. Síðunni var vel tekið í fyrstu og töldu notendur hennar alls 3,5 milljónir þegar best lét.
Þó svo að Six Degrees hafi átt allmiklum vinsældum að fagna setti tæknin síðunni þó óneitanlega skorður. Undir lok síðasta áratugar 20. aldar var aðgangur að internetinu enn takmarkaður, einkum sökum þess hve kostnaðarsamt var að nota netið.
Virknin meðal notenda Six Degrees var fyrir vikið takmörkuð.
Weinreich sagði það hafa staðið vinsældum síðunnar fyrir þrifum að stafrænar myndavélar og farsímar höfðu ekki náð fótfestu meðal almennings og að ekki var farið að deila myndefni og myndböndum í merkjanlegum mæli.
Síðast en ekki síst hafði markaðurinn fyrir netauglýsingar enn ekki þróast, líkt og síðar varð. Allir þessir tæknilegu örðugleikar gerðu það svo að verkum að vinsældir Six Degrees urðu ekki mælanlegar í fjármunum.
Samfélagsmiðlar hafa vakið óskipta athygli okkar frá árinu 1997
„Við vorum of snemma á ferðinni”
Weinreich var engu að síður heppinn þegar honum tókst að selja samfélagsmiðil sinn fyrir 125 milljón dali en þrátt fyrir að miðillinn markaði tímamót stefndi hann hraðbyri í gjaldþrot. Þetta var í desember 1999. Nýja eigandanum tókst heldur ekki að hagnast á miðlinum og ári síðar lognaðist starfsemin út af, þegar hin svokallaða netbóla náði hámarki.
Þegar síðan var lögð niður árið 2000 staðhæfði Andrew Weinreich að ástæða þess að síðan öðlaðist ekki nægar vinsældir væri einfaldlega sú að hún hefði komið á markað of snemma.
„Við vorum of snemma á ferðinni. Rétti tíminn skiptir ávallt sköpum“, sagði Weinreich.