Geisja er útlærður gestgjafi sem skemmtir gestum sínum með söng, dansi og tónlistarleik í matarveislum heldri manna.
Þessa hefð má rekja aftur til upphafs 16. aldar en upphaflega voru það karlmenn sem sinntu því starfi að hafa ofan af fyrir gestunum. Síðar tóku ungar konur við þessum starfa, enda voru þær mun vinsælli meðal karlanna.
Þrjú atriði mikilvæg fyrir geisju
Fallegt hár
Hárið er í raun hárkolla sem er sérstaklega mótuð til að draga fram fegurð andlits viðkomandi geisju. Hárgreiðslan líkist hefðbundinni hárgreiðslu japanskrar brúðar.
Færni í hljóðfæraleik
Shamisen er einn hornsteinninn í sígildri japanskri tónlist og minnir á banjó með þrjá strengi. Allar geisjur þurftu að vera mjög flinkar á hljóðfærið.
Hefðbundinn klæðnaður
Obi er breiður og dýrmætur mittislindi úr silki sem er hnýttur saman eftir kúnstarinnar reglum að aftan. Stærð og form hans gaf m.a. til kynna uppruna geisjunnar.
Áður en konurnar gátu spreytt sig sem gestgjafar þurftu þær að klára strangt nám. Á unga aldri voru stúlkur sendar í sérstaka skóla, þar sem þær lögðu stund á m.a. tónlist, dans, skrautritun, ljóðalestur og bókmenntir.
Auk þess lærðu þær einnig ýmsa félagslega færni – m.a. formlegar kveðjur og samræðulist – svo þær gætu sem best sinnt gestunum.
Á Vesturlöndum hafa geisjur jafnan verið tengdar vændi en kynlíf hefur aldrei verið hluti af starfslýsingu geisjunnar. Sumar geisjur áttu þó í langvinnu sambandi við viðskiptavini sína og ótal dæmi eru um að slík sambönd hafi endað með hjónabandi. Geisjur voru nefnilega í hávegum hafðar, enda voru þær bæði vel menntaðar og sérlega siðprúðar.
Myndaband – Hinar raunverulegu geisjur Japans
Þessi misskilningur varðandi vændi kann að stafa af því að þeim hafi verið ruglað saman við svonefndar oiran sem líktust geisjum og stunduðu sambærilegt nám en unnu fyrir sér með vændi. Þjónusta þeirra var einungis á færi efnamanna.
Nú á dögum telja geisjur fáein þúsund í Japan. Þær koma einkum fram í einkaveislum og á fínum veitingahúsum.
Eitt verk geisjunnar var að bera fram grænt te fyrir gestina.
Te-athöfnin er þungamiðja í japanskri menningu og tengist friðsæld, sálarheill og gestrisni. Á samkomum var það hlutverk geisjunnar að laga te og bera það fram. Það gaf henni jafnframt færi á að sýna aðra hæfileika sem gestgjafa. Slík athöfn gat staðið í fjóra tíma, oft með nokkrum málsverðum.
Eitt verk geisjunnar var að bera fram grænt te fyrir gestina.
Te-athöfnin er þungamiðja í japanskri menningu og tengist friðsæld, sálarheill og gestrisni. Á samkomum var það hlutverk geisjunnar að laga te og bera það fram. Það gaf henni jafnframt færi á að sýna aðra hæfileika sem gestgjafa. Slík athöfn gat staðið í fjóra tíma, oft með nokkrum málsverðum.