Marglyttur eru ekki sérlega færar sundskepnur og blási öflugur vindur eða straumar eru sterkir, eiga þær ekki annars kost en láta berast með. En í kyrru vatni geta þær þó vel flutt sig til af eigin rammleik.
Vegna takmarkaðrar sundgetu ásamt þeim vana að synda í sömu stefnu með tilliti til ljóss, vinds og straums, hafa marglyttur tilhneigingu til að safnast fyrir á sama svæði. Mökunin gerist við slíkar aðstæður og eðlilega aukast líkur á æxlun eftir því sem fleiri marglyttur eru saman komnar.
Festa sig á armana
Karldýrin sleppa frjóum sínum lausum í sjóinn á samhangandi strengjum. Eggin frjógvast í maga kvendýrsins. Lirfurnar sem til verða, synda út og setja sig fastar á arma móðurinnar þangað til að því kemur að þær losna frá og verða að sjá um sig sjálfar.
Í fyrstunni leita lirfurnar nú niður á botninn og setja sig þar fastar. Hér þróast þær í svokallaða holsepa, lítið langvaxið dýr með langa arma en ennþá fast við botninn.
Holsepinn getur lifað í þessu formi í mörg ár áður en næsta stig þróunarinnar tekur við. Armarnir dragast nú saman og lóðréttur líkaminn skiptist margoft þversum þar til hann að lokum minnir helst á stafla af diskum.
Að lokum losna þessir diskar hver frá öðrum og hver um sig vex upp í fullvaxna marglyttu.