Gómskarð og skarð í vör er samheiti yfir nokkra meðfædda galla í efri vör og/eða gómi sem verða til í 6. til 9. viku meðgöngu.
Snemma á fósturstigi myndast andlitið sem tveir aðskildir helmingar, hvor með sitt auga og eyra og hvor sinn helming munnsins. Kringum 7. viku meðgöngunnar taka þessir tveir helmingar að vaxa saman í gómi, vörum og nefi.
Eftir um tíu vikur eru helmingarnir tveir alveg grónir saman í flestum tilvikum en sé svo ekki getur barnið fæðst með skarð.
Gallinn er mismunandi
Það fer eftir gerðinni hversu umfangsmikill fæðingargallinn er.
Aðeins gat í gómnum
Klofinn gómur getur verið allt frá því að ná aðeins til úfsins til þess að mynda hol í mjúka hluta gómsins.
Getur verið í vörinni
Í efri vörinni getur gallinn verið allt frá litlu haki í vörinni upp í það að vörin sé klofin upp í gegn. Gómurinn getur líka verið misklofinn.
Getur náð frá gómi út í vör
Aðskilnaður getur náð alla leið frá mjúka hluta efri góms, í gegnum tanngóminn og upp vörina. Því umfangsmeiri sem gallinn er því skakkara verður nefið.
Þessi fæðingargalli sést á nálægt 0,2% fæddra barna en er mjög mismikill. Vísindin þekkja ekki ástæðuna nákvæmlega en stökkbreytingar í 12 genum hafa reynst auka áhættuna.
Að líkindum á hver þessara stökkbreytinga sök á einhverjum hluta gallans og þótt þú hafir fæðst með slíkan klofning er þess vegna sáralítil hætta á að hann berist áfram.
Reykingar á meðgöngu auka áhættuna um nálægt 50% en það stafar af því að blóðflæði til fóstursins verður minna.
Það fer svo mikið eftir því hvar og hversu mikill klofningurinn er, hvort nýfædda barnið á erfitt með að sjúga og oft er þessum börnum líka hættara við eyrnabólgum og heyrnin getur líka verið lakari.
Síðar getur barninu orðið erfiðara að tala. Skarð í vör má laga með skurðaðgerð við 3-4 ára aldur en skarð í gómi er grætt þegar barnið er um eins árs gamalt. Á skólaaldri getur aðgerð í koki lagað málerfiðleika en fegrunaraðgerðir vör, nefi og kjálka eru ekki gerðar fyrr en eftir kynþroskaaldur.