Í raun og veru er sennilega upprunalegra að ferðast vinstra megin og fyrir vikið eru Bretar einfaldlega að halda í hefðir sem hugsanlega eiga rætur að rekja allt aftur í fornöld eða að minnsta kosti til miðalda.
Í gamla daga var helsta hættan við ferðir á vegum úti sú að verða fyrir árás og fyrir vikið kusu ferðalangar að ganga eða ríða vinstra megin þannig að sá handleggur sem bar sverðið sneri að sambærilegum handlegg þeirra sem þeir mættu. Þessi siður var við lýði allt fram að frönsku byltingunni í lok 18. aldar.
Fram til þessa hafði franski almúginn – og síðar meir byltingarsinnarnir – talið það öruggast að ganga hægra megin á vegunum til þess að verða ekki fyrir ökutækjum aðalsins sem nálguðust aftan frá, en þeim var þá ekið vinstra megin á veginum ellegar á honum miðjum. Þegar byltingarsinnarnir svo byrjuðu að taka aðalsmenn af lífi og náðu völdum í Frakklandi varð hægrihandarakstur lögbundinn.
Meðan Napóleonsstríðin geisuðu breiddist hægrihandarakstur út um mestalla Evrópu. Erkióvinir Napóleons, Bretar, heyrðu þó til undantekninga. Þeir héldu nefnilega áfram að aka á vinstri vegarhelmingi og varð það að lokum fastsett með lögum árið 1835.
Að öllu jöfnu héldu ríki sem börðust gegn Napóleon áfram að aka vinstra megin. Nú á dögum keyra Bretar enn á vinstri vegarhelmingi og vinstrihandarakstur tíðkast enn í mörgum löndum sem tilheyra Breska samveldinu.
Þetta á t.d. við um bæði Ástralíu og Nýja-Sjáland, sem bæði eru eyríki, líkt og Stóra-Bretland. Þar skapast fyrir bragðið enginn vandi með að skipta um akrein þegar ekið er yfir landamæri, líkt og við á um lönd sem eiga landamæri að öðrum ríkjum.
Íslendingar óku vinstra megin allt þar til 26. maí árið 1968.