Gælunafn stórborgarinnar New York, „Stóra eplið“ á rætur að rekja til hestaíþrótta en knapar og þjálfarar í litlu hesthúsunum í Bandaríkjunum notuðu hugtakið yfir þær gríðarlegu peningaupphæðir sem hægt var að vinna á veðreiðunum í New York.
Maðurinn að baki vinsæla gælunafninu „Stóra eplið“ var blaðamaðurinn John J. Fitz Gerald.
Hann skrifaði vinsæla pistla um veðreiðar í dagblaðið „The Morning Telegraph“ og grein ein sem hann ritaði í febrúar 1924 hófst á þessum orðum:
„Stóra eplið: Draumur hvers manns sem hefur nokkru sinni riðið hreinræktuðum enskum hestum og markmið allra hestamanna. Það fyrirfinnst aðeins þetta eina sanna „Stóra epli“ og það er New York“.
Þetta var í fyrsta sinn sem hugtakið birtist á prenti, svo vitað sé.
Djass-spilarar sáu um afganginn
Big Apple átti eftir að koma fyrir hvað eftir annað í þessum hestamannapistlum og þaðan breiddist heitið yfir í aðrar blaðagreinar og varð einnig vinsælt sem heiti á næturklúbbum.
Jazztónlistarmenn í New York sem höfðu það fyrir sið að syngja um heimaborg sína, áttu samt mestan heiðurinn af því að breiða út hið nýja gælunafn borgarinnar hvert sem þeir fóru.
Á áttunda áratug 20. aldar eignaði borgarstjórnin í New York sér heitið og notaði það í auglýsingum sem höfðu það markmið að laða að ferðamenn til borgarinnar.
Í þakklætisskyni til Fitz Geralds var horninu, þar sem hann á sínum tíma hafði átt heima, gefið nýtt heiti og frá árinu 1997 hefur það verið nefnt „Big Apple Corner“.