Margar ástæður kunna að vera fyrir því að eldra fólk sefur minna en þeir sem yngri eru. Ýmislegt virðist benda til þess að hormónamagn líkamans skipti þar meginmáli, en framleiðsla líkamans á vaxtarhormónum, svo og melatóníni, minnkar með aldrinum.
Melatónín ýtir undir svefn með því að hafa áhrif á frumur í líkamanum og heilanum og í sumum tilvikum dalar melatónínframleiðsla fullorðins fólks í svo miklum mæli að dægursveiflan verður fyrir truflunum og svefnleysi verður vart. Svefn kvenna breytist oft eftir tíðahvörf þegar miklar hormónabreytingar verða í líkamanum.
Þess ber þó að geta að ýmsir aðrir þættir hafa áhrif á svefninn. Sem dæmi má nefna lyfjanotkun, sjúkdóma, þvaglát að nóttu til, svo og minni almenna líkamshreyfingu, en allt þetta hefur áhrif á gæði nætursvefnsins og lengd hans.
Andstætt við það sem margir halda þá minnkar svefnþörfin alls ekki með árunum. Ef nætursvefninn líður verulega fyrir vinnur margt eldra fólk svefnþörfina upp með því að fá sér blund um miðjan daginn.