Tré geta að líkindum náð meira en 4.000 ára aldri, en það er þó hreinasti hégómi í samanburði við sumar aðrar plöntur, einkum þó þá plöntu sem tvímælalaust á metið, Lomatica tasmanica, sem aðeins vex á litlu svæði í fjalllendi á Tasmaníu.
Þessi planta er ófrjó, vegna þess að af einhverjum ástæðum hefur hún þrjá litninga í stað tveggja. Hún getur því ekki framleitt fræ heldur aðeins breiðst út með rótarskotum.
Af þessu leiðir að allar plönturnar eru nákvæmlega eins og má kalla klónaðar hver af annarri. Slíkar plöntur geta orðið mjög gamlar.
Rannsóknir á steingerðum blöðum, sem eru nákvæmlega eins og laufblöð nútímans, sýna að Lomatia hefur vaxið hér í a.m.k. 43.600 ár.
Og þar eð plantan fjölgar sér ekki með fræjum og myndar þannig nýjar plöntur, þýðir þetta í raun að gömlu laufblöðin eru af sömu plöntunni og vex þarna enn þann dag í dag.
Lomatia tasmanica er ekki aðeins elsta planta veraldar, heldur einnig ein hin fágætasta.
Aðeins er vitað um 500 einstaklinga. Plantan fannst fyrst árið 1935 en sá stofn eyddist í skógareldi. Aðrar plöntur uppgötvuðust svo 1965 og þá var tegundinni vísindalega lýst.