Hindúismi er ólíkur öðrum alheimstrúarbrögðum að því leyti að hann á sér engan stofnanda né „fæðingardag“.
Þess í stað má segja að trúarbrögðin hafi verið sjálfsprottin þegar ýmsir indverskir menningarhópar, ólíkar hefðir og trúarstefnur runnu saman í eina heild fyrir 2.000-2.500 árum.
Sum þeirra trúarbragða sem runnu inn í hindúatrú eiga rætur að rekja allt aftur til forsögulegs tíma sem þýðir að hindúismi telst vera með elstu trúarbrögðum heims.
Hindúatrú felur í sér ógrynnin öll af dulspekilegri táknfræði sem einnig kemur fyrir á málverkum af heilögum sögusviðum.
Margar tegundir trúarbragða leynast í hindúatrú
Andstætt við mörg önnur trúarbrögð er hindúatrú ekki miðstýrð, hefur engan leiðtoga né heldur heilaga bók með kennisetningum.
Trúarbrögðin samanstanda þess í stað af mörgum andlegum meginreglum og leiðbeiningum sem bjóða upp á túlkun.
Fyrir vikið getur hindúatrú falið í sér margar ólíkar og jafnvel mótsagnakenndar trúarstefnur. Þessi staðreynd gerði það að verkum að fyrsti forsætisráðherra landsins, Jawaharlal Nehru, skilgreindi trúarbrögðin á þennan veg:
„Hindúatrú, sem trúarbrögð, er óljós, formlaus og margþætt. Hún hefur að geyma allt fyrir alla“.
Alls 80% Indverja, u.þ.b. einn milljarður manna, aðhyllast hindúatrú.
3 mýtur um hindúisma
Kýr eru heilagar
Hindúar álíta kýr vera ljúf og nærgætin dýr sem sjái manninum fyrir næringu og lífi með mjólk sinni. Kýr eigi fyrir vikið skilið mikinn heiður og feiknamikla virðingu og þær hljóta afar nærfærna meðhöndlun, þótt þær séu ekki beinlínis tilbeðnar.
Hindúar eiga marga guði
Guðsskilningur hindúismans er flókinn og persónulegur en snýst þó um einn guð eða heilagan anda. Þessi æðsti guð getur birst á óteljandi marga vegu, m.a. gegnum aðra og óæðri guði.
Þeir lögðu grunn að erfðastéttakerfinu
Stéttakerfi Indverja byggir ekki á trú heldur er um að ræða menningarlegt fyrirbæri. Sennilegt þykir að arískir þjóðflokkar hafi innleitt þessar erfðastéttir en þeir gerðu innrás í Indlandi fyrir 3.000-4.000 árum.