Við ljúgum oft á dag vegna þess að við getum einfaldlega ekki annað.
Í bandarískri tilraun sem gerð var á síðasta ári greindu 632 þátttakendur dag hvern frá ósannindum sínum sem alls töldu 116.366 lygar á 91 dags tímabili.
Rannsóknin leiddi í ljós að flestir segja aðeins lítillega ósatt á meðan lítill hópur nánast veður í lygum.
Um 75% þátttakendanna sögðu ósatt allt að tvisvar á dag en mestu lygalauparnir dönsuðu línudans við sannleikann oftar en 15 sinnum á dag. Einungis einn þátttakandi sagði nánast aldrei ósatt.
Hvítar lygar yfirgnæfandi
Rannsóknin leiddi í ljós að fólk telur sig hafa margar ástæður fyrir lygum, m.a. til að forðast tiltekna einstaklinga, til að ganga í augun á öðrum eða til að gabba fólk með skröksögum.
Næstum 90% allra ósanninda má flokka sem hvítar lygar, þar sem þátttakendur m.a. þóttust vera ánægðir með gjöf eða greiða sem þeir í raun og veru kærðu sig ekki um.
Sannleikurinn um lygar
Í rannsókn sem gerð var á síðasta ári kemur í ljós hvers vegna við segjum ósatt, hversu oft við gerum það og að hverjum við ljúgum.
1. Við ljúgum til að forðast aðra
Alls 21% allra lyga eru sagðar til að forðast tiltekna einstaklinga, m.a. með því að segja að við séum önnum kafin og getum því ekki hitt hina. Fimmtungur lyganna er hluti af góðlátlegu spaugi og glettni á meðan 13% hafa þann tilgang að ganga í augun á öðrum.
2. Við skrökvum tvisvar á dag
Langflest (75%) látum við út úr okkur ósannindi í mesta lagi tvisvar á dag. Á hinum enda kvarðans er svo að finna það eina prósent sem skrökvar hvað oftast en þeir segja ósatt alls 15 sinnum á dag.
3. Við ljúgum að okkar nánustu
Alls 51% allra ósanninda eru sögð vinum en aðeins 21% ósanninda okkar eru ætluð fjölskyldumeðlimum. Einungis 8,5% beinast að fólki sem við þekkjum lítillega.
Þversagnarkenndasta orsök lyga kom í ljós í ísraelsk-bandarískri rannsókn sem gerð var árið 2020.
Þar komust vísindamenn að raun um að fólki sem nær undraverðum árangri, t.d. nemanda sem fær eintómar tíur á einkunnablaðinu, hættir til að draga úr verðleikum sínum til að virðast trúverðugri en ella.
Þörfin fyrir að vera talin heiðarleg manneskja er sem sé mikilvægari en að vera það í raun.