Lifandi Saga

Jósef Stalín – harðstjóri verður til

Faðir hans barði hann og í skólanum lærði hann að koma upp um félaga sína. Stalín fékk innsýn í grimmúðlegt atferli harðstjórans strax á barnsaldri. Síðar vildi hann halda uppvaxtarsögu sinni leyndri og allir bernskuvinir hans áttu því grimmileg örlög á hættu.

BIRT: 13/11/2023

Jósef Stalín – fimmtugur og á toppnum

Árið 1929 hélt Jósef Stalín upp á fimmtugsafmælið sitt. Fyrir þennan harðstjóra og fjöldamorðingja var þetta góður dagur – og gott ár. Alls staðar að úr þessu víðlenda ríki þyrptust sendinefndir undirgefinna verkamanna og bænda til Moskvu til að hylla einvaldsherra Sovétríkjanna.

 

Á undangengnum árum hafði Stalín losað sig við alla andstöðu og staðfest vald sitt – jafnvel þótt hann gegndi ekki formlega einni einustu opinberri stöðu á vegum ríkisvaldsins sjálfs. Borgir og fjöll fengu nöfn eftir Georgíumanninum með bólusóttarörin og á vinnustöðum höfðu verið gerðar einróma samþykktir þar sem „Hinn mikli leiðtogi“ var hylltur.

 

Það þótti orðið sjálfsagt að heiðra Stalín með útbelgdum hrósyrðum og kalla hann stálmanninn, hinn nýja Lenín, járnhermanninn, friðarsnillinginn, velgjörðarmann alls verkafólks, hinn snjalla leiðtoga og margt fleira.

 

Í þakkarávarpi sínu á afmælisdaginn sagði Jósef Stalín meðal annars: „Efist ekki um það, félagar, að ég ætla áfram að helga alla krafta mína málefnum verkalýðsins, öreigabyltingunni og heimsbyltingunni. Alla hæfileika mína og – ef nauðsyn krefur – blóð mitt líka. Dropa fyrir dropa.“

 

Stalín nær undir sig völdunum

Fimm árum áður, árið 1924, lést Vladimir Lenín, óumdeildur leiðtogi hinna ungu Sovétríkja. Og það var síður en svo sjálfsagt að Georgíumaðurinn Stalín tæki við. Aðrir stóðu framar í goggunarröðinni, menn á borð við Gregory Sinovjev, Lev Kamenev, Nikolaj Bukharin og þó umfram allt Leo Trotsky.

 

Allir höfðu þeir gegnt viðameiri hlutverkum en Stalín í rússnesku byltingunni haustið 1917, þeirri sem leiddi til myndunar Sovétríkjanna. Allir stóðu þeir Lenín nær og voru líka mun betur menntaðir og höfðu styrkari pólitíska stöðu en Stalín.

 

Lenín skildi eftir sig bréf, eins konar erfðaskrá, þar sem hann varaði við hörku Stalíns og mælti með því að honum yrði vikið úr stöðu aðalritara kommúnistaflokksins. Þessir tveir menn höfðu unnið vel saman en nú var komin ákveðin sundurþykkja milli þeirra.

 

„Eftir að félagi Stalín varð aðalritari, hefur hann safnað ótrúlega miklu valdi til sín. Ég er ekki sannfærður um að hann muni alltaf beita þessu valdi af varkárni,“ sagði Lenín og bætti við: „Stalín er of grófur.“

 

Stalín tókst hins vegar ýmist að draga úr eða leyna alveg þessum hlutum erfðaskrárinnar þar til hann var orðinn nógu voldugur til að enginn gæti andmælt honum.

 

Á árunum 1924 til 1929 lék Stalín valdataflið af útsjónarsemi og tókst að etja saman keppinautum sínum en virtist sjálfur hógvær og friðsamur og um leið sá sem best væri treystandi fyrir völdunum.

 

Hann gerði bandalag við Sinovjev og Kamenev til að draga úr völdum Trotskys sem var settur af sem yfirmaður Rauða hersins. En þegar Sinovjev og Kamenev vildu losa sig endanlega við Trotsky, snerist Stalín ákveðið gegn þeim:

 

„Við erum ekki sammála Sinovjev og Kamenev. Við vitum að axarhögg og blóðbað er hættuleg aðferð sem smitar út frá sér. Í dag skerum við niður einn mann, annan á morgun og þann þriðja hinn daginn. Og hvað verður þá eftir af flokknum?“ spurði hann og uppskar mikið lófaklapp.

 

Síðar átti hann eftir að fyrirskipa að Trotsky yrði einmitt myrtur með ísöxi, láta skjóta Sinovjev og Kamenev eftir sýndarréttarhöld og á endanum voru langflestir þeirra sem höfðu klappað fyrir honum á þessum fundi, annað hvort teknir af lífi eða sendir í fangabúðir.

 

Þannig atti hann mönnum í flokksforystunni hverjum gegn öðrum og tókst á endanum að ráða niðurlögum allrar andstöðu við sig.

Ungur maður í þjónustu byltingarinnar. Fram til 1917 rekur Jósef Stalín áróður fyrir sósíalisma og lendir hvað eftir annað í fangabúðum í Síberíu.

Stalín breytti uppvaxtarsögu sinni

Árið 1929 báru margir ugg í brjósti gagnvart hinum nýja einvaldi í Sovétríkjunum. En ekki margir sáu fyrir sér allan þann óhugnað sem hann átti eftir að hrinda í framkvæmd allt þar til hann dó 1953.

 

Það er talið varlega áætlað að Sovétkommúnisminn hafi verið ábyrgur fyrir dauða um 20 milljóna sem ýmist dóu úr hungri, voru tekin af lífi eða létust í fangabúðum. Langstærsta hlutann má rekja beint til Stalíns.

 

Sjálfur sagðist hann sofa best eftir vel unnin kvöldverk sem einmitt fólust í því að undirrita hundruð eða jafnvel þúsund dauðadóma.

 

Hann útrýmdi stétt sjálfseignarbænda, lét drepa stóran hluta flokksfélaga og mörg þúsund yfirmenn í hernum og til viðbótar fjölmarga menntamenn, listamenn, presta, skrifstofumenn, stjórnendur og forsvarsmenn í iðnaði.

 

Öll andstaða, hvort heldur hún var raunveruleg eða ímynduð, varð fyrir barðinu á einni svakalegustu ógnarstjórn sögunnar. Jafnvel frímerkjasafnarar sem gátu hugsast hafa einhver tengsl við útlönd, voru sendir í fangabúðir.

 

Sagnfræðingar eru ekki á einu máli um drifkraftinn að baki þessum voðaverkum Stalíns. Var þetta allt gert til að halda völdum? Eða var þetta kannski djúpstæð löngun til að stilla sér á svo háan stall að hann stæði jafnfætis sjálfum Vladimir Lenín?

 

Einhlítt svar finnst hvergi; ekki heldur er neina skýringu að finna í bernsku hans í frumstæðu samfélagi í fjöllum Georgíu. Ýmislegt í uppvextinum upplifði hann; átök, sigra og ósigra sem hljóta að hafa átt þátt í að móta þann harðstjóra sem hann síðar varð.

 

Það er ekki svo að unnt sé að lesa bernsku Stalíns eins og opna bók. Sjálfur sá hann til þess ásamt félögum sínum að margir æskufélagar hans týndu lífi eða væru látnir hverfa og gætu því ekki borið vitni um eitt né neitt.

 

Í staðinn spunnu stjórnvöld upp mýtur og goðsagnir um „Leiðtogann mikla“, þannig að nú er erfitt að átta sig á því hvað er satt og rétt.

 

Svo mikið er þó víst að nafnið „Stalín“ (Stálmaðurinn) var byltingardulnefni sem hann tók upp 1912. Í raun og veru hét hann Josef Vissarionovitsj Djugasvili. Óvissa ríkir um fæðingardag hans en opinberlega var hann tilgreindur sem 21. desember 1879.

 

Ástrík móðir en faðirinn barði Jósef

Jósef (Djugasvili) Stalín fæddist í Katedralgötu 10 í Gori, fjallaþorpi í Georgíu. Húsið var í rauninni bara skúr en tvö herbergi, þakið lak og gólfið var bara þjappaður leir. Ekki tilkomumikið heimili fyrir mann sem átti eftir að verða einn valdamesti og mest ógnvekjandi maður á jörðinni.

 

Foreldrarnir voru bændafólk sem bæði höfðu fengið lausn úr ánauð og á einkennispappírum hins unga Jósefs á keisaratímanum stóð: „Bóndi frá Gori í Tiblisihéraði“.

 

Móðirin, Jekaterina, hélt fjölskyldunni uppi með því að starfa bæði við þvotta og sem saumakona. Faðirinn, Vissarion sem kallaður var Beso var ofbeldishneigður drykkjumaður sem ekki gerði sér miklar áhyggjur af framfærslu fjölskyldunnar. Svo átti að heita að hann væri starfandi skósmiður en það gaf lítið í aðra hönd.

 

Sem skósmiður hefði faðir Stalíns fallið undir skilgreininguna „smáborgari“ á máli byltingarmanna en hann neyddist til að gefa verkstæði sitt upp á bátinn og gerast óbreyttur launþegi í skóverksmiðju í Tiblisi. Þannig losnaði Stalín sjálfur við smáborgarastimpilinn.

 

Stalín gat því síðar – með nokkrum rétti – státað sig af uppruna sínum í stétt öreiganna. Og slíku aðalsmerki gátu fæstir í forystu kommúnistaflokksins flaggað.

 

Faðirinn „Beso“ barði Jósef allt frá því að hann var lítill og hann barði líka konuna sína en hún gat átt það til að slá á móti og reyndi hvað hún gat til að halda verndarhendi yfir einkasyni sínum. Hún hafði áður gengið með allnokkur börn en þau dóu öll í eða rétt eftir fæðingu.

 

Jósef litli varð fyrir hestvagni

Bernska Stalíns var að mörgu leyti áþekk bernsku Hitlers: Einvaldsherra Þýskalands ólst líka upp hjá ofbeldishneigðum föður en ástríkri móður. Að sumu leyti varð ferill þeirra svo líkur að næstum mætti tala um þá sem spegilmyndir.

 

Sem barn gekk Jósef undir gælunafninu „Soso“ sem er georgískt gælunafn fyrir Jósef. Um fimm ára aldur fékk hann bólusótt og ör eftir hana mátti sjá á andliti hans allt til dauðadags. Og einu sinni varð hann undir hestvagni. Vinstri framhandleggurinn varð aldrei jafngóður eftir slysið.

 

Svo var þessari sköddun fyrir að þakka að hann þurfti ekki að gegna herþjónustu í her keisarans. Hann glímdi líka við eftirköst alvarlegrar blóðeitrunar og allar þessar margvíslegu ákomur leiddu til þess að síðari tíma opinberar ljósmyndir af „Stálmanninum“ þurfti að fegra vandlega með þeirrar tíðar tækni.

 

Átta ára gamall var Jósef settur í trúarlegan barnaskóla í Gori. Þótt vinstri handleggurinn væri skaddaður var hann líkamlega sterkur og lét ekki hlut sinn fyrir neinum. Honum gekk vel í skólanum og þótti hafa afar gott minni, nokkuð sem þeir sem sýndu honum mótþróa, fengu að kenna á síðar og þurftu sumir að gjalda fyrir með lífi sínu.

 

Stalín var afar viljasterkt og einbeitt barn. Hann virtist ekki hafa áhuga á jafningjavináttu við leikfélaga sína, heldur heimtaði alltaf að fá að ráða.

 

Hann vildi að öðrum stæði ógn af sér, sagði skólabróðir hans sem einnig lét þess getið að „Soso“ hefði aldrei grátið og aldrei sýnt öðrum neina hluttekningu. Hann var líka gersneiddur þeim friðsama húmor sem stundum er kallaður einkenni á georgískri þjóðarsál.

 

Skólabróðirinn taldi að það hefðu verið harkalegar og óréttlátar refsingar Besos, föður Jósefs sem með tímanum gerðu hann svo „harðan og tilfinningalausan“.

 

Frítímanum varði Jósef oft í fjöllóttu landslaginu við Gori. Hann hreifst af þessum tilkomumiklu fjöllum en bar engar tilfinningar til dýralífsins. Uppáhaldsiðja hans er sögð hafa verið sú að kasta steinum í átt að fuglum. Síðar á ævinni stundaði hann þá sérstæðu veiðiaðferð að skjóta dýr sem stóðu ráðvillt og blinduð í geisla bílljósa.

 

Hann sýndi námsbókunum ekki sérstakan áhuga en heillaðist af hetjuskáldsögum um georgískar þjóðhetjur. Ein slík hetja hafði gælunafnið „Koba“ og það varð eitt af fjölmörgum nöfnum sem Jósef notaði síðar – og krafðist að aðrir notuðu um sig.

 

Stalín átti að verða prestur

Drykkjumaðurinn Beso yfirgaf fjölskylduna þegar Jósef var orðinn tíu ára. Vera má að kona hans hafi rekið hann á dyr. Heimildir eru ekki alveg samsaga.

 

Ekki sendi hann neina peninga heim til Gori en hins vegar mun hann hafa sótt Jósef, farið með hann til Tiblisi og komið honum í læri hjá skóverksmiðjunni þar sem hann vann sjálfur. Sé þessi saga sönn, hefur móðirin gert fyrirætlunina að engu. Hún vildi að Jósef héldi áfram í skólanum og fékk vilja sínum framgengt.

 

Þessi stutti tími sem lærlingur í skóverksmiðju var eina skiptið sem „Hinn mikli leiðtogi öreiga heimsins“ stundaði almenna vinnu. Þetta var líka í síðasta sinn sem Jósef sá föður sinn. Eftir þetta slitnaði allt samband milli þeirra og Beso hverfur alveg úr sögunni. Stalín gaf síðar ýmis konar skýringar á örlögum föður síns. Líklegast er að hann hafi dáið 1906.

 

Stalín var tveimur árum lengur að ljúka skólanum en almennt tíðkaðist. Hvort það var vegna slyssins þegar hann varð fyrir vagninum eða tímans í skóverksmiðjunni er óljóst. En það var fleira sem hafði truflandi áhrif, ekki síst óvinsæl tilskipun keisarans sem bannaði kennslu á georgísku. Nemendur þurftu að læra rússnesku og gera hana að aðaltungumáli sínu. Þetta átti stóran þátt í að kveikja með þeim þjóðerniskennd og byltingareldmóð.

 

Stalín þótti erfiður og þrjóskur nemandi. Robert C. Tucker sem telst til virtari ævisöguritara Stalíns, nefnir þetta. Bekkjarfélagar Stalíns óttuðust hann fremur en virtu en varðandi námsárangur var hann meðal hinna bestu.

 

Og alla vega stóð hann sig nægilega vel til að fá dálítinn námsstyrk sem árið 1894 dugði honum til að innritast í prestaskóla rétttrúnaðarkirkjunnar í Tiblisi. Móðir hans hafði fullan hug á því að hann yrði prestur og næði að ljúka tilskildu námi til þess.

 

Þegar Stalín var orðinn einvaldur og heimsótti hana til Georgíu löngu síðar, ámálgaði hún við hann þau vonbrigði sín að hann skyldi ekki hafa orðið prestur. Þau ummæli eru sögð hafa orðið harðstjóranum til talsverðrar skemmtunar.

 

Það er meira en vafasamt að Stalín hafi nokkru sinni deilt hugmyndum móður sinnar um þetta framtíðarstarf. En prestaskólinn í Tiblisi var í raun og sann eini möguleikinn sem fátækum alþýðupilti bauðst til menntunar í Georgíu á þessum tíma. Keisarastjórnin hafði ekki áhuga á að stofna háskóla sem orðið gætu útungunarstöð byltingarsinna í þessum róstusama hluta ríkisins.

 

Betur stæðar fjölskyldur í Georgíu gátu sent syni sína í rússneska háskóla og þannig gerðu stjórnvöld sér vonir um að þeir tækju frekar að líta á sig sem Rússa.

„Stálmaðurinn“, „Friðarsnillingurinn“ og „Hinn snjalli leiðtogi“ – Jósef Stalín kveðst lítt hrifinn af persónudýrkun en hann leyfir hana engu að síður þar eð hún kemur að pólitísku gagni. Afleiðingarnar verða linnulaus straumur hetjukvæða og óteljandi myndir og styttur.

Stalín í prestaskóla

Stjórn prestaskólans var holl keisaranum en nemendur voru þeirri stefnu mjög andsnúnir, reyndar svo mjög að nokkrum árum áður en Stalín innritaðist hafði nemandi stungið rektor skólans til bana.

 

Skólinn var troðfullur af uppreisnargjörnu ungu fólki sem greip þennan eina möguleika til að mennta sig – án þess að hafa nokkurn minnsta áhuga á trúarlegu inntaki námsins. Og þar eð enginn háskóli var til staðar, varð prestaskólinn einmitt það sem yfirvöldin óttuðust: útungunarstöð byltingarsinna.

 

Prestaskólinn var heimavistarskóli og þar ríkti harður agi. Auk trúarinnar var námsefnið takmarkað við fornu tungumálin, sögu og stærðfræði. Hvorki samtímatungumál né náttúruvísindi áttu upp á pallborðið. Bæði blöð og veraldlegar skáldsögur voru í banni.

 

Nemendur skólans lýstu honum síðar sem blöndu af herbúðum og fangelsi. Fyrir reglubrot var refsað með einangrunarvist í sérstökum refsiklefa.

 

Nemendur þurftu þó ekki að halda sig í húsum skólans alveg allan daginn. Nokkra tíma á dag leyfðist þeim að fara frjálsir ferða sinna. Þetta frelsi nýttu sumir til að mynda leynilega leshringi.

 

Í bókum skólans má sjá að Jósef Djugasvili hefur þótt uppreisnargjarn og þvermóðskufullur nemandi. Honum var ítrekað refsað fyrir að lesa forboðið efni og sýna kennurum og stjórnendum vanvirðingu.

 

Oft var leitað í herbergjum nemenda og stjórn skólans fékk nemendur til að njósna hver um annan. Engar sannanir eru fyrir því að hinn ungi Stalín hafi á þessum tíma verið farinn að veðja samtímis á tvo hesta og koma upp um keppinauta sína – en um það má þó finna vísbendingar. Samnemendum hans þótti hann hörundssár, því hann svaraði jafnvel saklausri stríðni með krepptum hnefa.

 

Seinna sagði hann að það hefði verið skólinn og „jesúískar“ aðferðir þar sem gerðu hann að byltingarsinna: „Þeir njósnuðu, snuðruðu, smokruðu sér inn í sálarlíf okkar og misbuðu okkur í sífellu,“ sagði hann. Að þessu leyti má kannski segja að Stalín hafi verið sannkallaður fyrirmyndarnemandi. Aðferðirnar lærði hann af stakri nákvæmni.

 

Stalín veðjar á byltinguna

Skömmu eftir að hinn ungi Jósef hóf námið við prestaskólann fékk hann áhuga á marxismanum og gerðist meðlimur í leshring sem eldri nemandi veitti forstöðu.

 

En Jósef átti erfitt með að sitja undir forystu einhvers annars. Honum tókst fljótlega að kljúfa leshringinn og stofnaði annan sem hann stjórnaði sjálfur. Hópnum tókst að komast yfir höfuðrit Karls Marx, Das Kapital, í rússneskri þýðingu. Stalín lærði aldrei þýsku.

 

Árið 1898 var Rússneski, sósíaldemókratíski verkamannaflokkurinn stofnaður en kommúnistaflokkurinn varð síðar afsprengi hans. Og Jósef Djugasvili gerðist sama ár meðlimur í georgískum hóp sem tengdist flokknum.

 

Hópurinn hét Mesaem Dasi (Hópur þrjú) og honum stjórnaði fyrrum nemandi í prestaskólanum. Byltingarsinnarnir ungu héldu líka fundi með óánægðum járnbrautarstarfsmönnum í Tiblisi.

 

Í upphafi stóð Jósef sig ágætlega í náminu en byltingaráhugamálið tók smám saman meira af tíma hans. Svo virðist sem hann hafi misst áhugann á því að ljúka náminu og 1899 hætti hann í skólanum án nokkurs lokaprófs.

 

Á valdatíma Stalíns var opinbera útgáfan sú að hann hefði verið rekinn fyrir marxíska starfsemi. Margt bendir hins vegar til að hann hafi verið orðinn svo langt á eftir í náminu að hann hafi ákveðið að verða fyrri til og hætta áður en hann yrði rekinn.

 

Stalín yfirgaf prestaskólann fullur haturs á skólanum, kirkjunni, borgarastéttinni, keisaraveldinu og yfirvöldum yfirleitt. Með nokkurri kaldhæðni hefur síðar verið sagt að hann hafi breytt Sovétríkjunum í stækkaða mynd af prestaskólanum – með njósnastarfsemi, uppljóstrurum og einangrunarbúðum.

 

Hann skipti einfaldlega út Guði almáttugum og setti flokkinn í hans stað með sjálfan sig sem hæstráðanda. Við aðferðir skólans bætti hann svo þrælkunarbúðum, sýndarréttarhöldum og aftökum með byssuskoti í hnakkann.

Lík Stalíns var smurt til varðveislu að honum látnum 1953. Sjálfur hafði hann séð til þess að fyrirmynd hans, Lenín, fengi sömu meðhöndlun.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Flemming Kyed

© Corbis,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

Lifandi Saga

Hvers vegna brann Hindenburg? 

Náttúran

Gætu hvítabirnir lifað af á Suðurskautslandinu?

Lifandi Saga

Hvað voru fyrsta og annað ríkið?

Lifandi Saga

El-Alamein: Montgomery sigrar Rommel í sandbylnum

Lifandi Saga

Hvers vegna geta kosningar verið svona ótrúlega jafnar?

Náttúran

Hvers vegna hafa dýr svona mismunandi augu?

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Náttúran

Geta hvalir gleypt fólk?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is