Þann 6. ágúst 1945 var kjarnorkusprengjunni „Little Boy“ varpað á Hírósíma.
Um 140.000 manns fórust og þegar Japan gafst ekki upp strax var annarri kjarnorkusprengju varpað á Nagasakí þremur dögum síðar.
Daginn eftir sendi japanska utanríkisráðuneytið símskeyti til allra bandamanna um að þeir væru tilbúnir að gefast upp. Í fyrirsögn bandarísku dagblaðanna stóð: „Friður í Kyrrahafi: Sprengjan okkar gerði það!“
En japanskar heimildir segja aðra sögu: Herforysta landsins hélt fyrst neyðarfund um uppgjöf þremur dögum eftir árásina á Hírósíma.
Forsaga fundarins var ekki kjarnorkuárásin, heldur það að skömmu eftir miðnætti 9. ágúst riftu Sovétríkin gagnkvæmum samningi við Japani um að ráðast ekki hvorir á aðra og réðust inn í Mansjúríu og japanska hluta eyjunnar Sakalín.
Þann 9. ágúst réðust Sovétríkin inn í japanska hluta eyjunnar Sakalín. Þetta gaf Rússum tækifæri til að ráðast á næstu eyju, Hokkaídó.
Nú gátu 100.000 Rússar farið óhindrað um eyjuna því japanski herinn var í suðurhluta Japans, tilbúinn að mæta innrás Bandaríkjamanna.
Á neyðarfundinum lýsti keisarinn því yfir að ekki væri lengur hægt að verja landið. Nokkrum klukkustundum eftir að fundurinn hófst var kjarnorkusprengju varpað á Nagasakí.
MEÐ OG Á MÓTI: Japan var þegar nánast rústir einar
– Gífurleg eyðilegging
Kjarnorkusprengjan var öflugasta vopn heims. Sprengingin var mikið högg fyrir japanskan baráttuvilja, sér í lagi þegar umfang eyðileggingarinnar kom í ljós.
– Nýtt vopn var áfall
Mikil leynd hvíldi yfir þróun bandarískra kjarnorkuvopna. Það var því gríðarlegt áfall fyrir fyrir Japani þegar þessum nýju sprengjum var varpað yfir japanskar borgir.
– Ótti við fleiri kjarnorkusprengjur
Á neyðarfundinum 9. ágúst var óttinn við fleiri kjarnorkusprengjuárásir mikill. Hins vegar töldu nokkrir hershöfðingjar að Bandaríkin ættu ekki nóg af kjarnorkuvopnum til að eyðileggja allt landið – jafnvel eftir að önnur sprengjan lenti á Nagasakí.
– Stöðugar loftárásir á borgir
Japanskar borgir höfðu þegar orðið fyrir barðinu á gríðarlegum loftárásum. Eldsprengjur yfir Tókýó þann 9. og 10. mars höfðu til dæmis kostað meira en 100.000 mannslíf.
– Japan með sína eigin kjarnorkuáætlun
Herforingjarnir þekktu til kjarnorkuvopna. Japanir stunduðu sínar eigin kjarnorkurannsóknir og eftir árásina á Hírósíma gerðu japönsku hershöfðingjarnir sér grein fyrir að verið væri að nota kjarnorkuvopn.
– Ógnin frá Rússum var raunveruleg
Innrás Sovétríkjanna var ástæða neyðarfundar japönsku herforingjanna. Í marga mánuði hafði landið haldið sínu striki gegn stórfelldum loftárásum Bandaríkjanna en var varnarlaust gegn innrás Rauða hersins úr norðri.
Eyðileggingarmáttur kjarnorkusprengjunnar hræddi Japana en stærstu borgir þeirra höfðu þegar verið sundur sprengdar með eldsprengjum.
NIÐURSTAÐA: Rússar gerðu gæfumuninn
Kjarnorkusprengjurnar voru án efa þungt högg en forysta japanska hersins hafði staðið fast á sínu þrátt fyrir nánast daglegar árásir með hefðbundnum sprengjum.
Hershöfðingjarnir bjuggust við innrás Bandaríkjamanna og vildu sýna baráttuvilja til að tryggja bestu friðarskilmálana þar sem þeir óttuðust að algjör ósigur myndi þýða endalok heimsveldisins.
Kjarnorkusprengjurnar sköpuðu óvissu um þetta markmið en þær voru ekki eina ástæðan fyrir uppgjöfinni.
Rauði herinn var á leið inn í Japan þann 9. ágúst og innrás úr norðri, þar sem varnir Japana voru veikar, hefði líklega leitt til skilyrðislausrar uppgjafar.
Strax í júní árið 1945 hafði æðsta stríðsráð Japana lýst því yfir að: „Þátttaka Sovétríkjanna í stríðinu mun skera úr um örlög þessa heimsveldis“.
Uppgjöf fyrir Bandaríkjunum kom sér betur fyrir Japan.
Skýringin um ofurvopn óvinarins sem enginn hafði séð fyrir, gerði keisaranum og hershöfðingjum hans kleift að afsala sér ábyrgð þannig að þeir misstu ekki traust landsmanna.
Óttinn við innrás Rússa var því líklega jafn mikilvæg ástæða uppgjafar Japana og kjarnorkusprengjurnar.