Lifandi Saga

Seinni heimstyrjöldin: Dauðaganga fanganna

Vorið 1945 eru meira en 700.000 fangar í útrýmingarbúðum Þjóðverja. Sannleikurinn um viðurstyggilegar aðstæður þeirra er við það að opinberast og Hitler skipar að taka eigi þá alla af lífi. En SS-foringinn Heinrich Himmler hefur önnur áform: Hann hyggst nýta fangana í vöruskipti – og sænskur greifi á að hjálpa honum.

BIRT: 13/05/2023

Viðvörun: Óhugnanleg lesning 

SS-foringinn Heinrich Himmler er veikur. Illskeytt blanda af ofreynslu og flensu hefur framkallað vægt hjartaáfall og nú er búið að leggja hann inn á heilsuhælið Hohenlychen norðan við Berlín í febrúar 1945.

 

Í varúðarskyni hafa þök bygginganna verið máluð hvít með stórum rauðum krossum – til þess að sprengjuflugvélar bandamanna velji þær ekki sem skotmark. 

 

Í fyrsta sinn frá því að Himmler skráði sig í nasistaflokkinn 22 árum áður er hann farinn að efast um Adolf Hitler.

 

Fyrir kemur að hann ræðir við sína dyggustu undirsáta í SS hvort það ætti að velta Hitler úr sessi. Ekkert verður úr slíkum vangaveltum.

 

Í næsta skipti sem umræðuefnið kemur til tals sannfærir Himmler sína nánustu um órjúfanlega tryggð sína við Hitler. 

 

En SS-foringinn hefur þegar séð að Þýskaland er að tapa stríðinu og á heilsuhælinu fær hann þá hugmynd um að nota 700.000 fanga í fangabúðum í risavöxnum vöruskiptum við BNA og Bretland:

 

Sleppi hann föngunum lausum verður baráttan á vesturvígstöðvunum stöðvuð. Og þá geta Þjóðverjar gerst bandamenn vesturveldanna og saman ráðist á Sovétríkin. 

 

Háttvirtur gestur frá Svíþjóð 

19. febrúar 1945, Hohenlychen: Sænski Rauði krossinn reynir að fá leyfi til að bjarga öllum norskum og dönskum föngum. Folke Bernadotte greifi er sendur til Þýskalands til að semja við Himmler. 

 

Himmler er ennþá staddur á heilsuhælinu Hohenlychen þegar kappsamur greifi dúkkar upp.

 

Þessi grannvaxni Svíi með nístandi augnaráð reynir að sannfæra SS-foringjann um að flytja beri alla skandinavíska fanga úr útrýmingarbúðunum til Svíþjóðar.

 

Fyrir vikið myndu horfur Þjóðverja verða mun betri, lofar Bernadotte. 

Heinrich Himmler var yfirmaður SS og bar ábyrgð á fangabúðunum

Himmler finnst uppástunga þessi fáránleg. En hann þorir ekki að hafna henni algjörlega, því Folke Bernadotte er varaforseti Rauða krossins og hefur góð sambönd við sænska stjórnmálamenn.

 

Einungis með þeirra aðstoð getur væntanleg friðartillaga hans náð til bandamanna. 

 

Eftir margra tíma samningaviðræður fær Bernadotte leyfi til að safna öllum Skandinövum saman í búðunum Neuengamme nærri Hamborg – en Svíarnir þurfa sjálfir að sjá um alla flutninga og allt eldsneyti samkvæmt kröfu Himmlers. 

 

Bernadotte flýgur aftur til Svíþjóðar til þess að leysa úr þessum málum. Hann á að safna saman 100 rútum, vörubílum og sjúkrabílum auk þess að finna 300 sjálfboðaliða til þess að sjá um brottflutninginn.

 

Öllu skiptir að þetta gerist hratt fyrir sig því enginn getur vitað hvenær SS-foringinn skiptir um skoðun. 

 

Fangar byggja kafbátasmíðastöðina

Martz, neðanjarðarbyrgið „Valentin“ í Bremen: Allir fangar í útrýmingarbúðunum eru eign SS. Við bakka Weser-fljótsins eru þeir að byggja risavaxið neðanjarðarbyrgi sem geymir kafbátahöfn. 

 

Hvern morgun marsera 3.000 fangar út um hlið Farges-búðanna. Eftir 5 kílómetra ná þeir til fljótsins Weser þar sem risavaxið neðanjarðarbyrgi er í byggingu. 

 

Neðanjarðarbyrgi með dulnefnið „Valentin“ er 416 metra langt og skagar 26 metra í loft upp. Í stórum kerum blanda fangarnir með handafli 500.000 m3 af steypu til þess að steypa 4,5 m þykka veggina. 

 

Áformað er að Valentin verði tilbúið í ágúst 1945 og muni þá smíða kafbáta á færibandi.

 

Á hverri viku má skila þremur slíkum til flotans í gegnum skipastiga og þaðan munu kafbátarnir halda beint í stríðsátök. 

Fangarnir frá Neuengamme voru m.a. látnir byggja rammgerða steypustyrkta kafbátahöfn við Bremen. Hún var sprengd upp áður en hún var tekin í notkun. 

Vinnudagur fanganna er 12 tímar, aðstæður á byggingarsvæðinu hræðilegar og maturinn algjörlega ófullnægjandi.

 

Dag hvern deyja fangar af slysförum eða af einskærri örmögnun þegar þeir þurfa að draga þunga sementspoka sem vega jafnan meira en fangarnir sjálfir. 

 

Vitanlega fylgjast Bretar vel með þessari miklu byggingarvinnu sem er að taka á sig form við fljótið:

 

Dag einn í mars flýgur Lancaster-sprengjuflugvél inn yfir byggingarsvæðið og varpar m.a. 12 Grand Slam-sprengjum en hver og ein þeirra ber 10 tonn af sprengiefni.

 

Sprengingarnar gera gat í þak neðanjarðarbyrgisins, senda skurðgröfur til botns í fljótinu og eyðileggja stóra kerið þar sem steypan er blönduð. En SS þvingar fangana til að halda starfinu áfram. 

 

Nýjar skipanir frá SS-foringjanum 

12. mars, Hohenlychen: Finnskur nuddari Heinrich Himmlers sannfærir SS-foringann um að sýna af sér óvænta mannúð í útrýmingarbúðunum. 

 

Um áraraðir hefur Himmler verið plagaður af sársaukafullum magaverkjum sem einungis einkanuddari hans, Felix Kersten, getur læknað.

 

Í síðustu meðferðum hefur Kersten tekist að þvinga Himmler til að lofa að afhenda útrýmingarbúðirnar bandamönnum án mótstöðu.

 

Hræðilegar dauðagöngur, þar sem soltnir og örmagna fangar marsera frá búðum til búða er fyrirskipun samkvæmt ákvörðun SS-foringjans. Nokkrum dögum síðar skipar hann einnig fyrir að hætta skuli drápum á gyðingum í útrýmingarbúðunum. 

 

Fæstir SS-liðar fylgja þessum furðulegu skipunum Himmlers – enda mega þær einu gilda þegar Hitler fyrirskipar að allar útrýmingarbúðir skulu gjöreyðilagðar og allir fangar drepnir. 

 

Himmler skiptir um skoðun undir eins og útskýrir fyrir sínum mönnum að ákvörðun foringjans sé rétt því að óvinir nasista skuli ekki geta fengið að fagna að stríðinu loknu:

 

„Fanganna bíða sömu örlög og okkar. Það er skýr og skynsamur vilji Hitlers og ég mun framfylgja honum gaumgæfilega“ fullvissar hann.

 

En skipunum Hitlers er heldur ekki fylgt til hins ýtrasta. Þess í stað heldur SS áfram í kaótísku kapphlaupi við tímann:

 

Allar útrýmingarbúðir sem hætt er við að óvinurinn nái á sitt vald, skal rýma með lestarvögnum eða í stórum göngum. Síðan skal hreinsa öll ummerki eftir fjöldamorð og aðra glæpi. 

 

Orðaskak við Himmler

2. apríl Hohenlychen: Himmler og Bernadotte hittast í annað sinn á heilsuhælinu sem núna er höfuðstöðvar SS-foringjans. Bernadotte vonast enn til að fá heimild til að flytja fangana til Svíþjóðar. 

 

„Ég er tilbúinn að gera allt fyrir þýsku þjóðina“, staðhæfir Himmler. „En ég verð að halda baráttunni áfram. Ég hef svarið foringjanum hollustueið og er bundinn af honum.“ 

 

Bernadotte grípur orðið:

 

„Sjáið þér ekki að Þýskaland er í raun og veru búið að tapa stríðinu?

 

Við innrásina inn í Rússland árið 1941 urðu vígstöðvarnar tvennar.

 

Þetta er það sem hefur svipt Þýskaland sigrinum.

 

Þér segist vera viljugur til að gera allt fyrir þýsku þjóðina. Þú ættir að hugsa meira um það en hollustueiðinn“.

 

Samningaviðræðurnar enda án árangurs eftir fjóra tíma.

SS-ofurstinn Max Pauli var ábyrgur fyrir Neuengamme og 60 minni búðum frá 1942. Hann var tekinn af lífi árið 1946. 

SS leigði fangana út sem þræla

Frá því að nasistar náðu völdum árið 1933 hafði SS byggt upp net af búðum fyrir m.a. gyðinga, kommúnista, samkynhneigða og aðra. SS leigði fangana sem verkamenn fyrir þýsk fyrirtæki.

 

Fáir hafa heyrt um útrýmingarbúðirnar Farge sem voru á hernaðarsvæði vestan við Bremen. Þar hýrðust 3.000 fangar við hörmulegar aðstæður í aflagðri olíubirgðastöð sem var neðanjarðar.

 

Verkefni þeirra var að smíða neðanjarðarbyrgið „Valentin“ sem hálft hundrað þýskra fyrirtækja hugðust byggja fyrir flotann. Til þess að klára bygginguna sem ódýrast leigðu fyrirtækin fanga af SS.

 

Hver fangi kostaði um fjögur ríkismörk á dag – um þriðjung af því sem þýskir verkamenn fengu í laun. Fangarnir fengu engin laun.

 

Farge var skilgreint sem útibú undir stjórn eiginlegu útrýmingarbúðanna Neuengamme. Alls var Neuengamme með 60 slík útibú til þess að fangarnir gætu búið nærri byggingarsvæðum og fyrirtækjunum sem þeir unnu hjá.

 

Sama kerfi var að finna í öllum meginbúðum nasista sem voru einkum í Þýskalandi og Póllandi:

 

Stóru útrýmingarbúðirnar voru með fjölda af minni útibúum.

 

Dánartíðnin var afar há því vinnan var líkamlega erfið og fæðið af skornum skammti.

 

Fangarnir enduðu með því að strita þar til þeir dóu.

 „Valentin“-fangar á dauðagöngu 

 6. apríl, fangabúðirnar Farge: Bretar sækja hratt fram í norðanverðu Þýskalandi og SS hefst handa við að flytja á brott fangana úr búðunum. Einar slíkar eru við Weser. 

 

Meðal fanganna í Farge er franski andófsmaðurinn Francois Hockenhauer. Hann hefur unnið við „Valentin“-neðanjarðarbyrgið frá því í ágúst 1944 en fyrst nú þorir hann að vona að ómanneskjulegar þjáningarnar séu brátt á enda.

 

Í fjarlægð heyrir hann drunurnar úr fallbyssum sem virðast færast nær á hverjum degi. 

 

Þann 6. apríl byrja SS að tæma búðir hans sem eru útibú frá stóru Neuengamme-búðunum nærri Hamborg.

 

Þangað á að flytja fangana úr Farge í öryggi – en þeir þurfa sjálfir að ganga alla leiðina sem er 135 km. 

 

„Við yfirgáfum búðirnar fótgangandi í löngum röðum, glorsoltnir og úrvinda.

 

Við gengum í fjóra daga frá því snemma á morgnanna þar til seint á kvöldin án matar og drykkjar.

 

Fyrir kom að við gátum rifið gras og étið það. Skipunin var „gangið eða deyið“. Margir féllu dauðir niður í vegkantinum.“, útskýrir Francois Hockenhauer eftir stríðið. 

 

Fjöldamorð leysir vanda Jepsens

7. apríl nærri Lüneborg: Flutningavagnar og langar raðir gangandi manna flytja þúsundir fanga frá vígstöðvunum. Brottflutningurinn einkennist af ringulreið og tímaþröng. 

 

400 veikir fangar frá útibúi Neuegammes, Banter Weg, í hafnarbænum Vilhelmshaven hafa nokkrum dögum áður verið þvingaðir inn í flutningavagna sem áttu að flytja þá til útrýmingarbúðanna í Bergen-Belsen.

 

Tólf varðmenn gæta þess að enginn flýi. Öllu þessu stýrir sjóliðsforinginn Rudolph Engelman og SS-Unterscharführer (liðþjálfi) Gustaf Alfred Jepsen.

 

Jepsen sem fæddist í Danmörku hefur tekið kærustu sína, Ilse, með svo hún komist heim með honum til Hamborgar. 

 

Þegar flutningavagnarnir ná fram til Lüneburg ráðast bandarískar orrustuflugvélar á brautarstöðina.

 

Minnst 73 fangar deyja þar en nokkrir verða svo lánsamir að geta flúið í hamaganginum.

 

Öðrum eftirlifendum safna varðmennirnir saman á engi. Jepsen hefur ekki hugmynd um hvað gera skuli og sendir fyrirspurn til Neuengamme. 

 

Fangarnir dvelja þarna í tvo daga úti á akrinum án þess að fá nokkuð að borða. Síðan koma vörubílar frá Bergen-Belsen og sækja 46 þeirra.

 

Jepsen verður eftir á enginu með stórum hóp soltinna og tötraklæddra fanga. Hann hefur ekki hugmynd um hvað gera skuli. Fyrst þann 11. apríl fær hann tilkynningu um að drepa skuli alla fangana. 

 

„Það voru einungis 52 eftir á lífi. Allir varðmennirnir tóku þátt í skothríðinni. Ég skaut sjálfur sex“, útskýrir hann að stríði loknu. Líkunum var varpað í fjöldagröf sem var grafin í nærliggjandi skógi. 

 

Hvítu rúturnar eru á leiðinni

Í byrjun apríl: Hvítar rútur keyra í halarófu til að sækja skandinavísku fangana frá búðum úr öllu Þýskalandi og safna þeim saman í Neuengamme. 

 

 Folke Bernadotte er á leiðinni í bíl í gegnum norðurhluta Þýskalands þegar hann sér tvær hvítar rútur koma keyrandi á móti honum. Hann fær þær til að stoppa svo hann geti heyrt hvernig verkinu miðar áfram. 

 

„Hver stýrir bílalestinni?“ spyr hann. Ung örþreytt hjúkrunarkona í skítugum búningi stígur fram. 

 

„Hefur þetta ekki verið erfitt, systir?“ vill Bernadotte vita. 

 

„Nei, ekki verra en maður bjóst við“, svarar hún dauf í bragði. 

 

Rúturnar tvær hafa keyrt alla leiðina frá útrýmingarbúðunum Dachau nærri München. Fyrsti hluti ferðarinnar gekk án mikilla vandkvæða. 

 

„En utan við Magdeburg lentum við í miðri sprengjuárás.

 

Borgin stóð í ljósum logum þegar við komum þangað og vegirnir voru ónýtir eftir sprengjurnar og við þurftum að taka á okkur stóran krók.

 

Það gekk … en tveir Norðmenn þoldu ekki meira,“ segir hjúkrunarkonan og bendir á þakið á annarri rútunni þar sem tveir líflausir líkamar eru njörvaðir niður. 

Fangarnir í Neuengamme voru látnir grafa skipaskurð til að flytja mætti múrsteinana út af byggingarsvæðinu.

Fangar áttu að endurreisa Þýskaland

SS vildi eiga drjúgan þátt í endurbyggingu Þýskalands. Útrýmingarbúðirnar Neuengamme voru innréttaðar sem múrsteinaverksmiðja nasista.

 

Árið 1938 keyptu höfuðstöðvar SS aflagða múrsteinaverksmiðju við Elben ekki langt frá Hamborg.

 

Á næstu árum var framleitt í henni ótrúlegt magn af múrsteinum fyrir stærstu og merkustu byggingar nasista.

 

Til þess að tryggja skilvirka flutninga frá Neuengamme lét SS leggja bæði járnbrautarteina og grafa skipaskurð.

 

Vinnan í verksmiðjunni krafðist engrar sérþekkingar og því gátu SS-liðar nýtt sér mikinn fjölda fanga. Vinnan sleit þeim út en ætíð fylltu nýir fangar skörðin.

 

Fangar með handverksmenntun voru sendir í vopnaverksmiðju búðanna.

 

Byggingarnar voru undir yfirráðum vopnaframleiðandans Carl Walter og þar voru framleiddar 20.000 hálfsjálfvirkar G43 byssur.

 

Til að styrkja vinnuframlagið innleiddi SS öfugsnúið umbunarkerfi fyrir duglega fanga:

 

Þeir fengu aðgang að hóruhúsi búðanna þar sem fimm kvenfangar voru látnir sinna kynferðislegum þörfum þeirra undir ströngu eftirliti lækna.

 

Neuengamme voru ekki jafn illræmdar og Auschwitz en þróuðust engu að síður í að verða einar af hvað verstu fangabúðunum þar sem helmingurinn af alls 106.000 föngum lét lífið.

Uppreisn gegn SS í Buchenwald

8. apríl, Buchenwald: Bandarískar hersveitir halda í átt að Weimar sem er nærri búðunum Buchenwald. SS á fullt í fangi með að tæma yfirfullar fangabúðirnar. 

 

Hinn fingrafimi Gwidon Damazym frá Póllandi hefur verið í búðunum frá 1941. Með leynd hefur hann útbúið frumstæðan útvarpssendi sem hann tekur nú í notkun: 

 

„Til bandamanna. Til hermanna Pattons.“, morsar Gwidon. „Hér eru útrýmingarbúðirnar Buchenwald. SOS. Við þörfnumst hjálpar. Þeir ætla að flytja okkur á brott. SS mun drepa okkur“. 

 

Með tímanum hafa neðanjarðarsamtök fanganna getað stolið einni skammbyssu og nokkrum riflum en það var ekki nóg til að gera uppreisn gegn vel vopnuðum varðmönnum – og SS getur hindrunarlaust haldið áfram við að senda fanga á braut fótgangandi í stórum flokkum.

 

Fáeinum mínútum eftir að Gwidon hefur sent skilaboð sín á ensku, rússnesku og þýsku berst ánægjulegt svar:

 

„KZ Bu. Þraukið. Hjálp er nærri. 3. herinn er á leiðinni“.
Gwidon

 

Damazym sundlar af gleði. 

Meðan fangarnir í Neuengamme máttu láta sér lynda þunnt súpusull gæddu SS-liðar sér á veisluföngum. 

Næstu daga stingur meirihluti SS varðmanna af þannig að fangar þora að berjast við síðustu SS-liðana. Þegar Bandaríkjamenn ná fram þann 11. apríl eru búðirnar undir stjórn fanganna. 

 

Ólíkt öðrum búðum hefur SS ekki tekist að hreinsa Buchenwald og lík fanga liggja eins og hráviði úti um allt.

 

Bandaríkjamenn fyllast viðbjóði við sýnina og þeir þvinga borgara Weimars til þess að líta eigin augum hvað það er sem Þýskaland hefur aðhafst. 

 

Atburðirnir í Buchenwald hrella einnig Himmler. Fregnir um uppreisn fanganna skelfa hann og skömmu síðar sendir hann símskeyti til allra yfirmanna fangabúða:

 

„Uppgjöf kemur ekki til mála. Búðirnar ber að yfirgefa strax. Enginn fangi má falla lifandi í hendur óvinanna“.

 

Þetta snýst þó ekki um að fjarlægja sem flest vitni um hryllingsverk nasistanna – Himmler vill hafa eins marga fanga og hann getur fyrir möguleg vöruskipti við Vesturveldin. 

 

1.000 myrtir í brennandi hlöðu 

Miður apríl, Celle: Lest með meira en 3.000 föngum frá mismunandi búðum stendur kyrr eftir loftárás bandamanna. 

 

Útrýmingarbúðirnar Mittelbau-Dora í sunnanverðu Harzen hefur verið miðstöð framleiðslu á V2-eldflaugum.

 

Í neðanjarðarverksmiðju hafa fangarnir smíðað eldflaugarnar sem var skotið á meðal annars Lundúni. En fyrir tveimur vikum voru búðirnar tæmdar og fangarnir sendir með lest til Neuengamme. 

 

Þegar fangarnir koma til Celle þann 5. apríl stöðvast flutningurinn algerlega því búið er að sprengja upp járnbrautarteinana. Fyrir eru þar fleiri lestar með meira en 3.000 föngum.

 

Nasistaforingi staðarins, Gerhard Thile, ákveður að Mittelbau-fangarnir skuli marsera til borgarinnar Gardelegen. Örmagna mennirnir halda af stað í þremur aðskildum flokkum.

 

Um 400 þeirra láta lífið á leiðinni. 

 

Þann 12. apríl fyrirskipar Thile að taka skuli þá fanga af lífi sem eru of veikir til að halda áfram.

 

Næsta morgun smala varðmennirnir 1.000 föngum inn í stóra hlöðu. Hlöðunni er lokað og síðan kveikt í byggingunni. Pólverjinn Stanislaw Waleszynski var einn sex manna sem lifðu hörmungarnar af: 

 

„Hlaðan er fyllt af hálmi upp að hnjám. Ég finn bensínlykt. Dyrunum er lokað og ég sé SS-liða kveikja í hálminum.

 

Eldurinn breiðist út undir eins og allar tilraunir til að slökkva hann eru til einskis. Ég nálgast hurðina og sé fanga sem skrapa jörðina með skeið undir hurðinni. Ég hjálpa til með berum höndum þar til við náum að skríða undir.

 

Loksins stend ég fyrir utan hlöðuna. Við skríðum í gegnum kornakur og komumst til skógar“. 

 

Leiðin greið til Svíþjóðar

18. apríl: Folke Bernadotte hefur loksins fengið heimild til að flytja skandinavíska fanga til Svíþjóðar.

 

Öllum ökufærum farartækjum er skrapað saman – jafnvel dönskum rútum sem vegna bensínskorts þurfa að halda af stað með gasrafali. 

 

„Hve margar rútur getið þið haft klárar og hvítmálaðar?“ Þannig hljómar spurningin fyrir vagnstjórann Christian Ovesen í Herting þegar hann tekur upp símann kl 16.30.

 

Hann leggur málið fyrir kollega sína og ráðfærir sig við verksmiðjuna – og í ljós kemur að hann getur teflt fram sjö rútum. Hann fær að vita að þær muni flytja örmagna danska og norska fanga til Svíþjóðar.

 

Frá því í mars hefur verið unnið mikið starf við að sækja fangana úr búðunum svo langt í burtu eins og til Mauthausen nærri Lindz í Austurríki.

 

Hluti sjúkra fanga hefur þegar verið fluttur til meðferðar í Danmörku, en aðrir 4.255 fangar munu eftir samkomulaginu við Himmler, safnast saman í skandinavísku deildinni í Neuengamme. 

 

Danski aðalræðismaðurinn í Hamborg, Marius Yde, vinnur enn að því með nasistaforingjanum Karl Kaufman, að fá frelsun fanganna heimilaða.

 

Loks kemur að því að Himmler samþykkir þetta og um kvöldið þann 19. apríl berst þeim formlegt leyfi.

 

Þjóðverjar hafa þó sett það skilyrði fram að brottflutningurinn klárist á 24 tímum. 120 danskar rútur og vörubílar safnast saman í Padborg. Bílalestin getur haldið í suðurátt. 

 

Síðustu skandinövunum bjargað

20. apríl: Adolf Hitler heldur upp á 56 ára afmæli sitt í Foringjabyrginu. Óviljugur heldur Himmler í veisluna. Í Neuengamme er Bernadotte langt kominn með brottflutninginn.

 

Hvítu rúturnar beygja inn í Neuengamme-búðirnar kl. 13.30. Danski fanginn Poul Verner Nielsen segir frá:

 

„Nú var röðin komin að okkur. Allir flýttu sér út í rúturnar. Um leið og ekki var lengur hægt að troða fleirum inn, tók rútan af stað. Allir vörpuðum við öndinni léttar þegar við keyrðum í gegnum hliðið“.

 

Allan daginn fljúga breskar orrustuþotur yfir búðirnar og varpa spengjum fyrir utan þær.

 

Á meðan eru rúturnar á leiðinni til Friedrichsruh, þar sem samverkamenn Bernadottes hafa komið upp aðalstöðvum og búa þar í tjöldum.

 

Þarna safnast skandinavísku fangarnir saman, áður en þeim er ekið til dönsku landamæranna og síðan til Svíþjóðar.

 

Seinna um kvöldið berst símskeyti til sænska utanríkisráðuneytisins: „Friedrichsruh tilkynnir: 20/4 2130: Búið er að frelsa alla skandinava úr Neuengamme um kl. 2100“.

 

Í búðunum sitja enn 10.000 fangar eftir.

 

Sjúk börn eru hengd

20. apríl, síðla kvölds: Um leið og hvítu rúturnar eru horfnar, ekur þýskur póstbíll inn í búðirnar. Núna á að eyðileggja öll sönnunargögn um grimmdarverk nasista.

 

Frá því í nóvember 1944 hafa 20 gyðingabörn búið í sjúkradeild í Neuengamme.

 

Þau voru sótt til Auschwitz til þess að vera tilraunadýr í læknisfræðilegum tilraunum Kurt Heissmeyers, læknis búðanna.

 

Sá hugðist skera burt eitla úr börnunum og sprauta sýklum í æðar og lungu þeirra til að sjá hvaða áhrif þetta hefði á berkla.

1.000 fangar létu lífið í hlöðu í Gardelegen. Bandarískir hermenn þvinguðu þýska borgara til að grafa hina látnu.

Nú vill Heissmeyer losna við börnin. SS-liðar koma börnunum upp í flutningabíl og síðan er ekið um nóttina til aflagðs skóla við götuna Bullenhuser Damm í Hamborg.

 

Börnin eru færð niður í kjallara og afklædd þar. SS-liðsforingi segir frá: 

 

„Þau sátu á bekk og voru glöð og eftirvæntingarfull, af því að þetta var í fyrsta sinn sem þeim var leyft að yfirgefa Neuengamme. Þau voru algerlega grunlaus um hvað beið þeirra“.

 

SS- liðar gáfu þeim morfín og síðan voru börnin hengd.

 

Sömu örlög biðu umsjónarmanna barnanna í Neuengamme. Kvöldið eftir voru líkin sótt og þau brennd í líkbrennsluofni í búðunum.

 

Af stað til Lübeck

21. apríl, Neuengamme: Rýming stóru búðanna er í fullum gangi.

 

„Í öðrum enda búðanna fóru endalausar raðir af lifandi beinagrindum.

 

Úr sjúkraskálunum skjögruðu þær eða skriðu fram. Margir fangarnir voru aðeins íklæddir skyrtu, þeir skríðandi áfram á höndum og fótum en samfangar bera aðra.

 

Þeim er troðið og staflað inn í flutningavagnana“, minnist Conrad Vogt Svensen. 

 

Dags daglega er hann norskur sjómannaprestur í Hamborg – en síðustu dagana hefur hann verið í Neuengamme til að fylgjast með hvítu rútunum.

 

Þjóðverjar eiga fullt í fangi við að rýma búðirnar. Síðustu daga hefur hópur fanga verið sendur til hafnarinnar í Lübeck þar sem þeir voru fluttir yfir í flutninga- og farþegaskip sem liggja fyrir akkeri í flóanum. 

 

Einstaka fangar verða að fara fótgangandi en langflestir eru fluttir með lest. Þýski fanginn Ernst Schneider skrifar í dagbók sína:

 

„Eftir að hafa beðið hálfa nóttina í grútskítugum flutningavögnunum hélt lestin af stað.

 

Um miðjan dag þann 21. komum við til hafnarinnar í Lübeck í fraktskipið Thielbek.

 

Lestin var yfirfull. Fýlan var óskapleg og það var niðamyrkt þarna niðri. Í myrkrinu sat fólk og skeit beint á gólfið. Þarna vorum við í 7 – 8 daga“.

Norðurlandabúar útveguðu hvítu rúturnar

Áður en Folke Bernadotte gat hafist handa við brottflutninginn höfðu samningaviðræður og undirbúningur staðið í tvö ár.

 

Meðan stríðsgæfan snerist gegn Þjóðverjum sameinuðust pólitísk öfl í Danmörku, Noregi og Svíþjóð um að þrýsta á þýsk yfirvöld að frelsa skandinavíska fanga í útrýmingarbúðum.

 

Í Danmörku hafði flotaforinginn Carl Hammerich unnið með leynd að áætlun um Jótlandsherdeild sem átti að sækja fangana.

 

Hann var í sambandi við norska sjómannapresta í Hamborg sem höfðu útbúið skrá yfir fangana.

 

Norski diplómatinn Niels Christian Ditleff fór þar fremstur í flokki. Hann þrýsti á sænsk yfirvöld að taka þátt í þessum brottflutningi.

 

Með samþykki sænskra yfirvalda hélt varaforseti sænska Rauða krossins, Folke Bernadotte, í febrúar 1945 til Berlínar til að hitta Heinrich Himmler.

 

Sá samþykkti í fyrstu einungis að safna öllum skandinövum saman í Neuengamme.

 

Þann 8. mars héldu fyrstu hvítmáluðu sænsku sjúkrabílarnir í átt til Þýskalands til að safna föngunum saman svo langt í burtu sem í Mauthausen í Austurríki.

 

Norski fanginn Finn Hasselgård sem var sóttur til Sachsenhausen segir frá:

 

„Móttökurnar í Neuengamme voru ómannúðlegar. Það fyrsta sem við sáum var hrúga af líkum fyrir utan brennsluofn. Þeir gátu ekki brennt öll líkin svo þeim var bara hent saman í köst.“

 

Marius Yde, danski aðalræðismaðurinn í Hamburg vildi einnig hefjast handa við brottflutning skandinavanna.

 

Í apríl fengu 120 danskir sjúkrabílar og vörubílar loksins grænt ljós til að sækja alla skandinavíska fanga og flytja þá heimleiðis.

Rýmingin á fullu 

22. apríl, Neuengamme: 10.000 fangar eru komnir til Lübeck meðan 700 eru eftir til að hreinsa alla skála og byggingar. 

 

Það á að hreinsa öll ummerki um hryllinginn.

 

Öll lík eru brennd í líkbrennsluofni og SS-liðar keppast við að eyðileggja öll skjöl í búðunum. 

 

„SS-læknirinn Alfred Trzebinski kom til að fara í gegnum skjölin.

 

Svo fór hann inn í læknaherbergið þar sem leynilegar drápsskipanir voru geymdar.

 

Ég átti að sjá um að öll skjöl væru brennd. Það rauk úr skorsteininum allan daginn“, segir þýski fanginn Emil Zuleger. 

 

Bernadotte hjálpar Himmler

Aðfaranótt 24. apríl, Lübeck: SS-yfirmaðurinn kemur með friðartilboð sitt. 

 

Hinn önnum kafni Heinrich Himmler hefur beðið um nýjan fund með Bernadotte. Í þetta sinn í húsi Svíans í Lübeck.

 

SS-yfirmaðurinn vill kynna friðaráætlun sína.

 

„Ég viðurkenni að Þýskaland er sigrað“, segir Himmler bugaður og greinir frá því að Hitler muni líklega deyja næstu daga.

 

Þess vegna lítur Himmler á sig sem eiginlegan leiðtoga Þýskalands og til að bjarga landi sínu frá niðurlægingu vill hann sem skjótast semja um frið við yfirmann bandaríska hersins í Evrópu, Eisenhower hershöfðingja. 

 

„Ég er tilbúinn í skilyrðislausa uppgjöf á vesturvígstöðvum og eins er ég tilbúinn að ræða tæknileg áform um uppgjöf þýsku heraflanna í Danmörku og Noregi“. 

Sjúkrabílarnir voru rækilega merktir með rauðum krossum sem dugði þó ekki alltaf gegn sprengjuárásum Bandamanna. 

Bernadotte lofar að leggja fram tillöguna fyrir sænsku ríkisstjórnina sem mun senda hana áfram til Eisenhowers.

 

Að lokum lýsir Himmler því yfir að hann hyggist nú halda til austurvígstöðvanna til að berjast eins og hver annar óbreyttur hermaður.

 

Hann kemst þó ekki langt. Bíll hans festir sig í gaddavír sem umlykur heimili sænska greifans. 

 

Fljótandi útrýmingarbúðir 

26. apríl, Lübeck: Síðasta lestin frá Neuengamme kemur til Lübeck. Á hafnarbakkanum bíða þúsundir fanga örlaga sinna.

 

Farþegaskipið Cap Arcona liggur fyrir akkerum í sjónum úti í flóanum. Þetta fyrrum skemmtiferðaskip er með úrsérgengnar vélar og skortir eldsneyti en meginhluta fanganna í höfninni er komið um borð. 

 

Tveim dögum síðar er fjöldi fanganna um borð í Cap Arcona allt að 6.500. Um borð ríkir bæði von og örvænting.

 

Sumir telja að skipinu verði siglt til Svíþjóðar – aðrir að því verði sökkt með föngunum innanborðs. 

 

Himmler er rekinn 

28. apríl, foringjabyrgið í Berlín: Meðan skandinavískir fangar aka yfir dönsku landamærin fréttir Hitler af friðarumleitunum Himmlers. 

 

Hitler gefur frá sér vein eins og sært dýr þegar útlenskar útvarpsstöðvar tilkynna að bandamenn hafi hafnað friðartillögu Himmlers.

 

Hitler er algerlega niðurbrotinn maður. Hann hefur ætíð litið á Himmler sem sinn dyggasta undirmann – og mögulegan eftirmann sem leiðtogi nasista.

 

Nú eru aumleg svik SS-yfirmannsins komin fram. 

 

„Aldrei mun föðurlandssvikari verða eftirmaður minn“, hrópar Hitler ævareiður og krefst þess að Himmler verði handtekinn. 

Með sína 206 metra lengd var Cap Arcona risi í höfn Hamborgar. 

Drottning S-Atlantshafs 

Frá 1927 sigldi skemmtiferðaskipið Cap Arcona milli Hamborgar og Suður-Ameríku.

 

Farþegarnir 1.365 talsins sátu í silkibólstruðum hægindastólum og á kvöldin var boðið upp á danshljómsveit.

 

En þann 25. október 1939 fékk skipstjórinn loftskeytamerkið „QW7“:

 

Skipið skyldi afhenda þýska flotanum. 

 

Eftir þetta flutti Cap Arcona hermenn fyrir herinn, þar til í febrúar og mars 1945 að það sigldi þýskum flóttamönnum til Kaupmannahafnar.

 

Þessu næst lagði skipið við akkeri í Lübeck-flóa. Þar lagði gauleiter (flokksforingi nasista) Hamborgar, Carl Kaufman, hald á skipið enda átti að fylla það af föngum úr útrýmingarbúðum. 

Friður nálgast 

1. maí: Yfirflotaforinginn Carl Dönitz tilkynnir í útvarpi lát foringjans og að hann sé nýi ríkisforseti landsins. Stríðið heldur áfram. 

 

Um borð í Cap Arcona heldur skipherrann Heinrich Bertram fund um kvöldið með þýskum fulltrúa leynilegra samtaka fanganna á skipinu, Erwin Geschonneck.

 

Bertram tilkynnir dauða Hitlers og ennfremur að breskar hersveitir séu á leiðinni. 

 

„Á morgun gætu þær þegar verið hér í Neustadt“, íhugar Bertram. Fréttirnar berast út sem eldur í sinu. Stemningin meðal fanganna batnar verulega. 

 

Á sama tíma fljúga enskar könnunarflugvélar inn yfir flóann og skrásetja öll skip þar. Fangarnir um borð í Cap Arcona vinka glaðlega til þeirra. 

„Meðfangar mínir voru sem uppvakningar“ sagði Wim Aloserij. 

Síðustu eftirlifendurnir

Nauðungarvinnumaðurinn Wim Aloserij frá Hollandi var svo lánsamur að geta flúið frá Cap Arcona þegar breskar flugvélar réðust á skipið sem bar þúsundir fanga um borð.

 

Hollendingurinn Wim Aloserij var 21 árs þegar hann var þvingaður árið 1943 til Þýskalands.

 

Wim neitaði að vinna fyrir Þjóðverja og flúði sem laumufarþegi í lest aftur til Hollands.

 

En hann var handsmaður á flótta ári síðar. „Ég var handtekinn í lögregluaðgerð og fluttur til bráðabrigðabúðanna Amersfoort“, greindi hann frá.

 

Þegar eftir nokkrar vikur var hann fluttur til Neuengamme og áfram til Husum-Schwesing.

 

Þar réði ríkjum drykkjusjúkur SS-unterstürmfuhrer (undirlautinant) Hans Herman Grien sem naut þess að skjóta handahófskennt í átt að föngunum.

 

Í desember 1944 fór Wim aftur til Neuengamme til þess að fjarlægja síðustu ummerki eftir glæpaverk nasistanna.

 

Þann 29. apríl stóð hann á hafnarbakkanum í Lübeck og eftir nokkra daga um borð í fraktskipinu Athem var hann fluttur í fyrrum skemmtiferðaskip, Cap Arcona.

 

„Það var eins og Titanic en þetta skip var fljótandi fangabúðir.

 

Ég sá strax að þeir áformuðu að eyðileggja skipið og frá fyrsta degi kannaði ég hvort ég gæti flúið.

 

Meðan meðfangar mínir voru eins og uppvakningar var ég skýr í kollinum“, útskýrði Wim.

 

Þegar RAF réðst á skipið með eldflaugum og sprengjum – og fangarnir brunnu til bana neðanþilja – faldi Wim sig í eldhúsinu.

 

Búinn reipi og litlum gúmmíbát náði hann að bjarga sér í land.

 

Wim Aloserij var síðastur eftirlifenda sem gat greint frá skelfingunni um borð í Cap Arcona.

 

Minningar hans, „Die Laatste getuige“, skráðar af Frank Krake komu út skömmu fyrir andlát hans árið 2018.

 

Wim varð 94 ára gamall.

Harmleikurinn á fangaskipinu 

3. maí: Lübeck Bugt: Nóttin hefur verið róleg á Cap Arcona. Um morguninn fer allt fram samkvæmt venju. Þeim sem hafa dáið um nóttina er kastað fyrir borð.

 

Um borð í skipinu eru alls 5.519 manns – fangar og áhöfn.

 

Allir bíða átekta. Þrátt fyrir þrengslin og nagandi sult er stemningin góð.

 

Frelsunin virðist innan seilingar. En það er óheppilegur misskilningur. 

 

Klukkan 14 taka níu Hawker Typhoon-orrustusprengjuflugvélar á loft undir forystu RAF-kapteinsins Johnny Boldman frá flugvelli við Osnabrück.

 

Samkvæmt upplýsingum hans eru skipin í Lübeck-flóa full af nasistum á flótta. Boldman velur Cap Arcona sem skotmark fyrir fimm flugvélar sinna manna. 

Breskar Typhoon-flugvélar skutu alls 40 eldflaugum að fljótandi fangaskipinu Cap Arcona og varð það skjótt alelda. 

Enginn flugmannanna tekur eftir föngunum á þilfarinu eða hvítu lökunum sem eru hengd upp til merkis um uppgjöf.

 

Flugvélarnar skjóta alls 40 eldflaugum að þessum fljótandi fangabúðum sem nokkrum sekúndum seinna stendur í ljósum logum. 

 

Þýski fanginn Erwin Geschonneck um borð í Cap Arcona: 

 

„Særðir menn veina. Fangarnir vita ekki sitt rjúkandi ráð. Algjör örvænting! Rússarnir neðanþilja komast ekki upp“.

 

Erwin lætur sig falla 15 metra niður í sjóinn og bjargar sér í land.

 

Einn fárra sem lifa harmleikinn af. Ensku flugvélarnar skjóta á allt sem hreyfist í sjónum og þeir fangar sem eru svo heppnir að komast til strandar eru skotnir af þýskum hermönnum.

 

Af Cap Arcona lifa einungis 350 fangar. Í marga daga rekur líkin af hinum fjölmörgu sem létust upp á strendur. 

Eftirmáli

Sagnfræðingar áætla að alls hafi um 200.000 fangar í útrýmingarbúðunum látið lífið á síðustu mánuðum stríðsins sem afleiðingar af dauðagöngum, aftökum og árásum bandamanna.

 

Hvítu rúturnar björguðu 7.795 skandinövum.

 

Við þetta bætast 7.550 aðrir sem Bernadotte ásamt liði sínu fékk heimild til að bjarga – meðal annars fjöldi franskra, belgískra, hollenskra og pólskra kvenna frá Ravensbrück. 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: TORSTEN WEPER

© World History Archive/Imageselect,© State Center for Political Education/State Archives Bremen,© Kz Neuengamme,© Polfoto/DPA/Ritzau Scanpix,© AKG-Images/Ritzau Scanpix,© AP/Ritzau Scanpix,© The Granger Collection/Ritzau Scanpix,© 914 Collection/Imageselect,© AKG-Images/Ritzau Scanpix,© DPA Picture Alliance/Imageselect,© Imperial War Museums

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Heilinn sér andlit alls staðar og meðhöndlar þau öll eins

Náttúran

90 sekúndur til dómsdags: Viðbúin gegn hamförunum?

Náttúran

Vísindamenn undrandi: Svona myndast stærstu sandöldur heims

Náttúran

Stiklað á stóru um lotukerfið á 10 mínútum

Náttúran

Forneðlur lágu á eggjunum

Náttúran

Hve þungt er ljósið?

Maðurinn

Er til fólk sem skynjar ekki sársauka?

Maðurinn

Eru sjóböð að vetri heilsusamleg?

Maðurinn

Fyllerí: Svona slævir áfengi heilann

Alheimurinn

Hjarta Plútós varð til eftir árekstur

Lifandi Saga

Hvenær var skák fundin upp?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is