Þegar brjóstakrabbi er annars vegar skiptir öllu að æxlið uppgötvist nógu snemma og áður en krabbafrumurnar ná að dreifa sér.
Nú hafa vísindamenn hjá John Hopkins-háskóla í BNA uppgötvað að sérstakar frumur í brjóstum kvenna virðast einmitt hindra dreifingu krabbans.
Flest krabbaæxli í brjóstum myndast í frumum á innveggjum mjólkurrásanna, sem sagt þeirra leiðslna sem liggja frá mjólkurkirtlum að geirvörtunni.
Utan við mjólkurrásirnar eru vöðvafrumur sem geta teygt úr sér og dregið sig saman til að dæla mjólkinni áfram. En þessar frumur eru færar um fleira.
Vöðvafrumurnar starfa einnig sem verðir sem geta fangað krabbameinsfrumur.
Þær virðast einnig gegna eins konar löggæsluhlutverki og grípa strax krabbafrumur sem komast út fyrir vöðvalagið og stinga þeim inn fyrir aftur.
Vísindamennirnir sáu vöðvafrumurnar taka 105 af alls 114 krabbfrumum, sem höfðu losað sig meðan þeir fylgdust með.
Vöðvafrumur (bláar) grípa lausa krabbafrumu (grænar) og stinga henni aftur inn í æxlið.
Síðari tilraunir leiddu í ljós að vörnin virkar best þegar vöðvafrumulagið er vel þétt og frumurnar hafa að auki nóg af þeim prótínum sem þær nota við samdrátt.
Tilraunirnar voru gerðar á músavef og var ætlað að hjálpa til við spágerð um einstaklingsbundna áhættu á dreifingu brjóstakrabba.
Þannig geta læknar betur áætlað heppilegustu meðferð fyrir hverja konu.